[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.

Fótbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Það er góð stemning í hópnum, við ætlum að gera allt sem við getum til þess að reyna að komast áfram og munum leggja allt í sölurnar,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, í samtali við Morgunblaðið. FH-ingar mæta portúgalska liðinu Braga í dag í seinni leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur, en FH tapaði fyrri leiknum heima 2:1. Hafnfirðingar þurfa því að minnsta kosti að skora tvö mörk.

„Við getum því ekki bara legið í vörn allan tímann. Við verðum að halda uppteknum hætti í sókninni frá fyrri leiknum þar sem við sköpuðum nokkur góð færi. Það sama þarf að vera upp á teningnum í þessum leik,“ sagði Davíð. Þrátt fyrir að möguleikarnir séu ekki taldir miklir að komast áfram má segja að FH-ingar geti farið nokkuð pressulausir í leikinn með allt að vinna.

„Það er eins fyrir þennan leik og þrjá síðustu Evrópuleiki, gegn Maribor og Braga, að það er engin pressa á okkur að vinna þessi lið enda mun sterkari en við á pappírunum. Mér fannst við sýna það í þessum fyrri leik að við getum klárlega strítt þeim. Við erum ekkert búnir að gefast upp í þessu,“ sagði Davíð.

Atvinnumenn fljótir að refsa

Halldór Orri Björnsson kom FH yfir í fyrri leiknum en eftir hlé tóku leikmenn Braga leikinn yfir. Lykilatriðið nú hjá FH er að gera sem fæst mistök enda fengu Hafnfirðingar að kenna á því í fyrri leiknum að Portúgalarnir eru fljótir að refsa.

„Við teljum okkur sjá möguleika á móti þessu liði frá síðasta leik og við sýndum það í markinu sem við skoruðum. En við áttum okkur líka á því að þetta er alvöru atvinnumannalið sem er fljótt að refsa ef við gerum mistök og við fengum að finna fyrir því í fyrri leiknum. Við verðum því að gera sem fæst mistök,“ sagði Davíð, en Braga hefur margoft komist í riðlakeppni í Evrópu á síðustu árum.

Braga spilaði deildarleik á sunnudag þar sem liðið vann 2:0-sigur, en FH-ingar hafa ekki spilað frá fyrri leiknum og því getað einbeitt sér að fullu að þessari viðureign.

„Það er kærkomið að fá viku á milli leikja til að hvíla lúin bein. Við höfum æft vel og erum bara í nokkuð góðum gír fyrir þennan leik. Það er bara vonandi að það verði góð stemning, það er alltaf skemmtilegra að spila fótbolta þegar er nóg af áhorfendum.“