[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Kaup franska félagsins PSG á Brasilíumanninum Neymar frá Barcelona hafa víða um heim verið til umfjöllunar að undanförnu og miklar vangaveltur átt sér stað um hvort einn leikmaður sé upphæðarinnar virði.

Fótbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Kaup franska félagsins PSG á Brasilíumanninum Neymar frá Barcelona hafa víða um heim verið til umfjöllunar að undanförnu og miklar vangaveltur átt sér stað um hvort einn leikmaður sé upphæðarinnar virði. PSG borgar rúma 27 milljarða íslenskra króna fyrir starfskrafta Neymars sem er helmingi meira en greitt var fyrir næstdýrasta leikmann sögunnar til þessa.

Breska tímaritið The Economist lagði orð í belg fyrr í mánuðinum og þar var að finna nálgun á viðskiptin sem ekki hafa farið hátt í umræðunni. Eigendur PSG frá Katar hafa efni á því að tapa fjármunum eins og knattspyrnuáhugamenn þekkja en þeir eru þó sannfærðir um að fá tekjur á móti sem muni ná upp í kaupverðið. Hvernig má það vera? Miðasala og verðlaunafé í Meistaradeild Evrópu slagar ekki mjög hátt upp í upphæðina.

Meira fjármagn frá Nike?

The Economist bendir á að slíkir þættir, ásamt peningum sem koma til vegna sjónvarpsréttar, séu ekki nema um 40% af tekjum Parísarliðsins. 59% af tekjunum séu tilkomin vegna auglýsinga og svo hátt hlutfall finnst ekki hjá öðru félagi í stærstu deildum Evrópu samkvæmt tímaritinu. Þeir samstarfsaðilar sem Neymar komi til með að laða að PSG séu verðmætari en mörkin sem hann kemur til með að skora fyrir liðið. Neymar nýtur mikilla vinsælda og einungis Lionel Messi og Cristiano Ronaldo hafa hærri tekjur vegna auglýsinga- og samstarfssamninga í fótboltaheiminum.

Íþróttavöruframleiðandinn Nike er samstarfsaðili PSG og leikur liðið í búningum frá Nike. Neymar er einnig með samstarfssamning við Nike. Af þessum sökum er talið að PSG muni bera mun meira úr býtum en áður þegar forráðamenn félagsins setjast að samningaborðinu til að semja um áframhaldandi samstarf við Nike.

The Economist telur að þar séu til að mynda sóknarfæri fyrir PSG. Félagið fái 24 milljónir evra á áru hverju frá Nike en í samanburði við FC Barcelona er sú upphæð ekki há því Nike hefur samþykkt að greiða Barca 155 milljónir evra á ári frá og með árinu 2018. Til samanburðar þá er kaupverðið á Neymar 222 milljónir evra.

Hætta á keppnisbanni

Þekktustu knattspyrnufélögin í Evrópu hafa í auknum mæli reynt að markaðssetja sig á nýjum slóðum eins og í Asíu. Horfa þau mjög til Kína og Indlands þar sem fólksfjöldinn er gífurlegur. Með auknum fjölda stuðningsmanna hafa tekjur félaganna vaxið og verðmæti þeirra aukist.

Á meðan tekjurnar halda áfram að aukast þá er sá möguleiki fyrir hendi að kostnaðurinn við leikmannakaup sé áfram svipað hlutfall af tekjum. En vitaskuld hafa upphæðir eins og sú sem greidd er fyrir Neymar áhrif og verðbólgan þegar kemur að leikmannakaupum mun væntanlega halda áfram að vaxa.

Mesta áhættan sem PSG tekur með þeim fjárútlátum sem fylgja kaupunum á Neymar er sú að liðið fái keppnisbann í Meistaradeild Evrópu. PSG var sektað árið 2014 vegna brots á reglum sem kallaðar eru „Financial Fair Play.“ Þeim reglum var komið á til að hemja félögin og skikka þau til að reka félögin með skynsamlegum hætti. Botnlausum taprekstri er mætt með refsiaðgerðum. Þar sem PSG hefur þegar fengið sekt þá gæti félagið fengið keppnisbann í Evrópukeppnum ef illa fer. En The Economist virðist telja að forráðamenn PSG hafi hugsað dæmið til enda.