Sumarsalat Þetta salat er ákaflega bragðgott. Edikið kallast vel á við sætuna í berjunum og osturinn er algjört æði með.
Sumarsalat Þetta salat er ákaflega bragðgott. Edikið kallast vel á við sætuna í berjunum og osturinn er algjört æði með.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sumarið er alls ekki búið og enn spáir ágætis veðri og því tilvalið að grilla í kvöld. Hér gefur á að líta frábærar uppskriftir að góðu meðlæti með grillmatnum.

Græna gúmmelaðigrillsósan

Þessi sósa er ákaflega fersk og góð og hentar bæði með kjöti, fiski og grænmetisréttum. Hún á sérstaklega vel við grillaðan mat. Ég nota bara það krydd sem ég á til hverju sinni eða sprettur í garðinum þá vikuna. Það má vel nota bara eina tegund af fersku kryddi, t.d. basilíku, en grænkálið hef ég með fyrir heilsuna.

1 bolli grænkál

½ bolli kóríander

½ bolli steinselja

nokkur lauf sítrónumelissa – má sleppa

3 msk ólífuolía

½ bolli appelsínusafi

2 hvítlauksrif

½ bolli grískt jógúrt

salt

pipar

Setjið allt nema jógúrt, salt og pipar í blandara og blandið uns kekkjalaust. Hellið í skál og hrærið jógúrtinu saman við og saltið og piprið til eftir smekk.

Sumarsalat með sætri truffludressingu

Blandað salat eftir smekk, botnfylli í væna skál

1 bökuð rauðrófa (eða tvær litlar)

1 kúla mozzarella

10 smátómatar, skornir í tvennt

2 msk ristaðar furuhnetur

blönduð ber eftir smekk. Ég notaði brómber, bláber, hindber og rifsber. Brómber duga vel ein og sér

3 msk truffluolía

2 msk balsamsíróp

Skolið grænmetið og raðið í skál.

Skerið rauðrófuna í teninga og stráið yfir. Því næst koma tómatar, furuhnetur, ber og að lokum ostur. Best er að rífa kúluna en ekki skera hana. Þannig kemur bragðið betur fram.

Hrærið olíu og síróp saman og dreypið yfir salatið.

Klassískar og sætar með rósmarínkeim

2 væntar sætar kartöflur í teningum

2 msk olía

½ tsk salt

¼ tsk chilipipar í kvörn

2 greinar af rósmaríni, rifið gróft yfir kartöflurnar

Allt sett saman í eldfast mót og bakað við 180° í 30 mínútur á grilli. Bökunartími fer eftir stærð teninga. Kartöflurnar eru tilbúnar þegar þær eru orðnar mjúkar.

tobba@mbl.is