Fjögur ljóðskáld á flakki F.v. Sigurbjörg, Þórunn, Jón Örn og Kristín keyra af stað í dag.
Fjögur ljóðskáld á flakki F.v. Sigurbjörg, Þórunn, Jón Örn og Kristín keyra af stað í dag. — Morgunblaðið/Hanna
Hún segir það tilhlökkunarefni að vera í svo góðum félagsskap sem raun ber vitni og í þeirri miklu nánd sem langferð á bíl er. Sigurbjörg Þrastardóttir leggur í dag upp í skáldarúnt með þremur öðrum skáldum, þau lesa upp ljóð víða í Norðausturríki á Litlu ljóðahátíðinni.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Þetta verður mikil vísitasía hjá okkur í marga firði og flóa. Svæðið sem við förum yfir nær frá Siglufirði til Berufjarðar, svo þetta er gríðarleg yfirferð á fjórum dögum,“ segir Sigurbjörg Þrastardóttir ljóðskáld, en hún er ein þeirra fjögurra skálda sem leggja land undir fót í dag til að lesa upp ljóð á Litlu ljóðahátíðinni sem fram fer á Akureyri, í Hrísey, á Siglufirði, Skriðuklaustri, í Neskaupstað og Berufirði. Með henni í för verða skáldin Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, Kristín Ómarsdóttir og Lommi, eða Jón Örn Loðmfjörð.

„Litla ljóðahátíðin, sem heitir þessu látlausa nafni, er sennilega stærsta ljóðahátíð landsins, en það eru mjög fáar hreinræktaðar ljóðahátíðir til hér á landi, ég man ekki eftir annarri ljóðahátíð þar sem lesið er svona oft og þétt, og alls ekki svona víða á einum rúnti. Litla ljóðahátíðin fer fram í Norðausturríki, sem er víðfeðmt ríki og nær yfir Norðurland eystra og Austurland. Þetta er risasvæði og eins gott fyrir okkur að vera á góðum bíl, við þurfum að lesa upp víða og keyra langar leiðir, stundum lesum við upp tvisvar sama dag á ólíkum stöðum.“

Munu fara allan hringinn

Sigurbjörg segir að þau ljóðskáldin fjögur ætli að ferðast saman í níu manna bifreið, einhverskonar strumpastrætó. „Við förum á endanum hringinn um landið, á fjórum dögum. Við byrjum á því að keyra norður á Akureyri í dag þar sem fyrsti lestur verður í Deiglunni í kvöld og förum svo sunnanleiðina heim, eftir að hafa lesið á Austfjörðum,“ segir

Sigurbjörg og bætir við að það sé sannarlega tilhlökkunarefni að vera í svo góðum félagsskap sem raun ber vitni og í þeirri miklu nánd sem langferð á bíl er.

„Þetta verður skemmtileg vegasjoppuferð, ég hlakka til. Það er nokkuð sérstakt að þetta upplestrarferðalag sé sumarlest, því algengast er að Austurlandshraðlestin fari af stað rétt fyrir jólin, margir hafa farið saman í skáldalest á þeim tíma til að lesa upp á Austurlandi. Skipuleggjendur Litlu ljóðahátíðarinnar, þeir Hjálmar Stefán Brynjólfsson og Stefán Bogi Sveinsson, verða meðreiðarsveinar okkar á ferðalaginu. Þeir eru forsprakkar og bjóða okkur skáldunum í þessa sumarferð. Þeir eru nútíma landvættir þessara landshluta, Norðurlands og Austurlands, því þeir standa fyrir hinum ýmsu menningarviðburðum. Ég hef einu sinni áður verið á Litlu ljóðahátíðinni og það var einhver best skipulagði viðburður sem ég hef tekið þátt í, þetta eru vaskir ungir menn.“

Staðarskáld lesa líka upp ljóð sín

Sigurbjörg segir að þau skáldin verði einskonar upphitun í Deiglunni í kvöld fyrir Akureyrarvöku sem sé að hefjast þar. „Við Kristín Ómarsdóttir höfum verið að vinna með tveimur dönskum myndlistarkonum, Iben West og Else Ploug Isaksen, við höfum verið að semja texta við ljósmyndir þeirra, og þær ætla að setja upp sýningu á Akureyri í dag þar sem þær hengja upp afrakstur þessa samstarfs. Það er gróskumikið menningarlíf á öllum þessum upplestrarstöðum okkar, Havarí hefur til dæmis verið með sumardagskrá í allt sumar í Berufirði,“ segir Sigurbjörg og bætir við að á sumum stöðunum í ferðinni munu skáld sem búa á svæðinu einnig lesa upp, ýmist ung eða eldri skáld.

Skáldin fjögur á faraldsfæti ætla öll að lesa eitthvað af nýju og áður óbirtu efni, Sigurbjörg ætlar m.a. að lesa úr bók sem bráðum kemur út á Ítalíu, ljósmyndabók með ljóðum.

„Kannski hef ég líka með mér fjallkonuljóðið af Austurvelli og einhver viðeigandi ljóð sem áður hafa komið út. Við spilum eftir stemningu á hverjum stað – ég ætla ekki að þreyta meðskáld mín með því að lesa það sama alls staðar.“

Kristín Ómarsdóttir ætlar að lesa upp úr nýrri ljóðabók, Kóngulær í sýningarglugganum, sem er nýkomin úr prentun, Jón Örn hefur nýverið gefið út ljóðabókina Sprungur og væntanleg ljóðabók Þórunnar heitir Villimaður í París.

„Til marks um það hversu ljóðið er lifandi á mörgum þessum stöðum sem við ætlum að lesa upp á, þá er starfandi Félag ljóðaunnenda á Austurlandi, sem sinnir meðal annars útgáfu ljóðabóka, og á Siglufirði er sjálft Ljóðasetur Íslands.“

Upplestur á Litlu ljóðahátíðinni: Í kvöld, fimmtud. 24. ágúst, kl. 20 í Deiglunni á Akureyri. Á morgun, föstud. 25. ágúst, kl. 12 í Hrísey og kl. 20 í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Á laugard., 26. ágúst, kl. 12 í Skriðuklaustur og kl. 20 í Beituskúrnum Neskaupstað. Sunnudag 27. ágúst kl. 12 í Havaríi á Karlsstöðum í Berufirði.