Åsne Seierstad
Åsne Seierstad
Paul Greengrass mun leikstýra kvikmynd um voðaverkin í Útey sem streymisveitan Netflix framleiðir. Anders Behring Breivik myrti 69 ungmenni í Útey 22. júlí 2011 eftir að hafa sprengt mannskæða sprengju í Osló.

Paul Greengrass mun leikstýra kvikmynd um voðaverkin í Útey sem streymisveitan Netflix framleiðir. Anders Behring Breivik myrti 69 ungmenni í Útey 22. júlí 2011 eftir að hafa sprengt mannskæða sprengju í Osló. Handritið verður unnið í samvinnu við Åsne Seierstad sem skrifaði bókina Einn af okkur sem út kom 2015 og fjallar um Breivik og voðaverkin. Greengrass hefur áður gert kvikmyndir sem byggjast á raunverulegum atburðum, m.a. United 93 , Bloody Sunday og Green Zone .

Samkvæmt upplýsingum af vef Deadline er ætlunin að nota norska leikara í myndinni um Útey, en framleiðslukostnaður er áætlaður um 20 milljónir dala (rúmir tveir milljarðar ísl. kr.). Í samtali við norska dagblaðið Bergens Tidende hefur Greengrass sagt að myndin muni ekki aðeins fjalla um voðaverkin heldur einnig gefa innsýn í réttarhöldin yfir Breivik og hvernig stjórnvöld og almenningur í Noregi völdu að einblína á samstöðu og samhug í stað hefndar. „Það sem gerðist 22. júlí var gríðarleg áskorun fyrir hið lýðræðislega og opna norska samfélag. Þetta var blóðug árás á öll þau gildi sem Noregur stendur fyrir.“

Norska sjónvarpsstöðin NRK upplýsti fyrr í sumar að á næsta ári hæfust upptökur á sjónvarpsþáttaröðinni 22. júlí sem áætlað er að frumsýna 2019.