Þórlaug Guðmundsdóttir fæddist 25. desember 1954. Hún lést 6. ágúst 2017. Útför Þórlaugar fór fram 21. ágúst 2017.

Hinn 21. ágúst sl. kvaddi ég í hinsta sinn alveg einstaka konu sem ég hef þekkt í rúm tuttugu ár. Sterku áhrifin sem andlát hennar vöktu með mér komu mér á óvart þar sem ég hef í gegnum árin kvatt svo marga sem mér hefur þótt svo vænt um.

Þessi sterku áhrif fengu mig til að hugsa og leita inn á við. Er þessi mikla sorg sem ég finn fyrir vegna þess að nú hef ég misst konuna sem deildi hlutverki mínu sem móðir, tengdamamma eða amma þar sem við höfum í gegnum árin horft á og fylgst með börnum okkar stofna sína eigin fjölskyldu, deilt með þeim gleði og sorgum og horft á barnabörnin vaxa og dafna og hafa gaman af því að sjá hverjum þau líkjast í útliti og háttum? Er sorgin vegna þess nístandi sársauka sem ég sé og skynja í þeim mikla missi sem eiginmaður hennar, synir, tengdadætur, börn og barnabörn finna nú? Eða er það kannski vegna þess að eftir því sem árin hafa liðið hef ég lært að meta hana og dáðst að henni meir og meir vegna þeirrar persónu sem hún er og ég hef gert mér betur og betur grein fyrir því hvað hún hafði mikið að kenna mér?

Ég hef lært að hver sú manneskja sem á vegi okkar verður í lífinu færir okkur lexíu að læra. Við erum öll hvers annars kennarar á einn eða annan hátt og við þurfum að meta það meðan við getum.

Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því hvaða áhrif við höfum á alla í kringum okkur hvern einasta dag. Þetta er ein af mörgum lexíum sem hún kenndi mér og minnti mig á í hvert sinn sem við hittumst.

Hvíl í friði, yndislega sál, og þakka þér eilíflega allar minningarnar sem þú hefur gefið mér.

Í Garði, 21. ágúst 2017,

Ásta Óskarsdóttir.