Lára Jónsdóttir fæddist í Birgisvík í Árneshreppi á Ströndum 20. ágúst 1934. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 10. ágúst 2017.

Hún var dóttir hjónanna Margrétar Sumarlínu Kristjánsdóttur og Jón Jósteins Guðmundar Guðmundssonar. Hún var þriðja elst af fimmtán systkinum.

Lára kynntist maka sínum, Andrési Sigurðssyni frá Eyjum í Kaldrananeshreppi, og gengu þau í hjónaband 4. júlí 1961. Þau bjuggu á jörðinni Asparvík í Kaldranahreppi þar til Andrés lést, 13. janúar 1966. Afkomendur þeirra eru 31 talsins.

Lára og Andrés eignuðust fjögur börn, þau eru: 1. Guðmar, f. 1955, d. 14. maí 2013. 2. Guðrún Ingibjörg, f. 1960, maki hennar er Sveinn Egilsson. Börn þeirra eru Egill Andrés, Jónas Þór og Sigmar Örn. Barnabörn þeirra eru fimm talsins. 3. Anna, f. 1962, maki hennar er Jón Valgeir Skarphéðinsson. Börn Önnu af fyrra hjónabandi eru Andrés Þórarinn, Íris María og Aníta Rós. Barnabörn hennar eru sex talsins. 4. Andrea Sigurrós, f. 1965, maki hennar er Haraldur Jóhannesson. Börn þeirra eru Jóhannes, Helgi Þór og Berglind Lára. Barnabörn þeirra eru sjö talsins.

Útför fór fram hinn 21. ágúst 2017 í Fíladelfíu, í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Við kveðjum hér Láru Jónsdóttur,einstaka konu, ættmóður okkar sem var okkur mjög kær. Við munum ávallt minnast hennar fyrir hlýleika, gjafmildi, nægjusemi, röggsemi, dugnað og þrautseigju.

Ávallt prjónandi fyrir börn, barnabörn og langömmubörnin og eru til ógrynni af peysum, vettlingum og sokkum sem hún hefur glatt og yljað sínu fólki með í gegnum áratugina. Hún hafði unun af að fá gesti og voru alltaf kræsingar á borðum að ógleymdum bestu pönnukökum sem gerðar hafa verið. Enda elskuðum við heitar pönnukökur með sykri að hætti Láru.

Það fór enginn svangur út af heimili hennar og aldrei einn til dyra. Henni var mikið í mun að fylgja fólki alla leið út, veifa og óska því góðrar heimferðar. Hún hringdi svo gjarnan til að athuga hvort að fólk hefði komist heilu og höldnu heim.

Lára var mjög trúrækin og helgaði hún líf sitt Guði og trúnni á Jesú Krist, sótti hún samkomur hjá Fíladelfíu eins oft og hún komst meðan að heilsan leyfði. Þar leið henni vel, það veitti henni einstaka gleði og hugarró.

Snögg umskipti urðu þessa daga í byrjun ágústmánaðar og veikindi sem drógu fram samkennd okkar systra í að lesa guðsorð fyrir mömmu. Sýndum við henni myndir og rifjuðum upp gamlar minningar sem vöktu upp mikinn hlátur þennan örlagaríka dag 10. ágúst. Lesin var fyrir Láru kveðja frá barnabörnum og barnabarnabörnum sem voru í stöðugu sambandi. Í dagslok var mamma tilbúin að kveðja ánægð og örugg með dætur sínar og fjölskyldur þeirra, dagana með þeim og sofnaði hún inn í sumarlandið þjáningarlaust.

Þessi dagur var okkur ómetanlegur í kærleika og samkennd. Vissar um að mamma væri sátt að kveðja og fara á nýjan stað. Í hjörtum okkar geymum við minningar um allt sem hún gaf okkur; hlýja hjartalagið, þéttu faðmlögin, ástina, brosið og gleðina í augunum. Rembingskossana og umhyggju sína fyrir öllum í fjölskyldunni. Hvíl í friði yndislega móðir okkar, hafðu ástarþökk fyrir allt og algóður Guð geymi þig.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

þá sælt er að vita af því.

Þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Guðrún Ingibjörg Andrésdóttir, Sveinn Egilsson,

Anna Andrésdóttir,

Jón V. Skarphéðinsson

Andrea Sigurrós

Andrésdóttir,

Haraldur Jóhannesson,

barnabörn og barnabarnabörn.

Elsku besta amma okkar, þú gafst okkur endalaust af ást og vildir okkur alltaf það besta í lífinu. Hjörtu okkar eru full af þakklæti fyrir alla ástina og allar þær yndislegu minningar sem að við eigum með þér.

Langt úr fjarlægð, elsku amma mín,

ómar hinzta kveðja nú til þín.

En allt hið góða, er ég hlaut hjá þér,

ég allar stundir geymi í hjarta mér.

Ég man frá bernsku mildi og kærleik þinn,

man hve oft þú gladdir huga minn.

Og glæddir allt hið góða í minni sál,

að gleðja aðra var þitt hjartans mál.

Og hvar um heim, sem liggur leiðin mín

þá lýsa mér hin góðu áhrif þín.

Mér örlát gafst af elskuríkri lund,

og aldrei brást þín tryggð að hinztu stund.

Af heitu hjarta allt ég þakka þér,

þínar gjafir, sem þú veittir mér.

Þín blessun minning býr mér ætíð hjá,

ég björtum geislum strái veg minn á.

(Höf. ók.)

Öll ástin, þéttu faðmlögin og kossarnir sem að þú gafst okkur ættu að endast okkur heila lífstíð.

Andrés Þórarinn, Jóhanna

og börn,

Íris María, Halldór Þórir

og börn, Aníta Rós.