Tækifæri opnast til að lagfæra aðrar misfellur í samfélaginu

Stjórnarsamstarf með þátttöku bæði Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna vekur áhuga fólks. Á fundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna sl. miðvikudag var ég spurður, hvort búast mætti við að fram undan væri 12 ára samstarf þessara flokka í ríkisstjórn og var þá augljóslega vísað til samstarfs Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í Viðreisnarstjórninni frá 1959 til 1971.

Annars staðar var í samtali vikið að „sögulegum sáttum“ og vísaði viðmælandi minn þar til greinaskrifa okkar Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, í Morgunblaðið í desember 1979, þar sem hvatt var til samstarfs Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags í ríkisstjórn með tilvísun til nýsköpunarstjórnarinnar á sínum tíma.

Vinstri-grænir urðu til sem flokkur, þegar hluti alþýðubandalagsmanna var ekki tilbúinn til að ganga til samstarfs við Alþýðuflokk, Þjóðvaka og Kvennalista í Samfylkingunni.

Forsaga Alþýðubandalagsins var hins vegar sú, að það varð til með samruna Sósíalistaflokks og hóps úr Alþýðuflokknum í nýjum flokki. Og forsaga Sósíalistaflokksins var sú að hafa orðið til með samruna Kommúnistaflokks Íslands og annars hóps úr Alþýðuflokki þeirra tíma.

Sjálfstæðisflokkur og þau stjórnmálaöfl sem liggja að baki Vinstri-grænum hafa því einungis einu sinni í sögu okkar átt samstarf í ríkisstjórn, þ.e. 1944-1947, en að vísu átti Alþýðubandalagið samstarf við nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens 1980-1983.

Fyrrnefndri fyrirspurn og athugasemd svaraði ég með því að benda á, að einn grundvallarmunur væri á Vinstri-grænum nú og Alþýðubandalaginu fyrr á tíð en hann væri sá, að VG gæti ekki nú „lagt með sér“ inn í slíkt samstarf þau áhrif innan verkalýðshreyfingarinnar, sem áður hefðu gert slíkt samstarf eftirsóknarvert frá sjónarhóli Sjálfstæðisflokksins, en auðvitað er það rétt sem einn viðmælandi minn benti á að það er jákvætt að stjórnmálaflokkar hafa ekki lengur slík áhrif innan verkalýðshreyfingarinnar.

Það sem hins vegar veldur áhuga fólks á því að þessir tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri-grænir, geti náð saman í ríkisstjórn er einfaldlega að takist það má segja að þar með sé „kalda stríðinu“ í íslenzkum stjórnmálum endanlega lokið, nær þremur áratugum eftir að hinu eiginlega kalda stríði lauk.

Og kannski kominn tími til.

Við Ragnar Arnalds, sem var fyrsti formaður Alþýðubandalagsins eftir að það var gert að formlegum stjórnmálaflokki 1968, höfðum orð á því á dögunum að þetta yrði þá í fyrsta skipti sem við tveir og þriðji vinur okkar, Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis, styddum sömu ríkisstjórn frá því að samtöl okkar um stjórnmál hófust haustið 1949.

Að vísu hafa verið áfangar á þeirri vegferð.

„Gamlir kommar“ eins og við köllum þá í mínum herbúðum hafa verið öflugir samherjar okkar andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu innan Sjálfstæðisflokksins.

Það er hins vegar fleira en samstaða um andstöðu við aðild að Evrópusambandinu sem sameinar fólk til hægri og vinstri í pólitík um þessar mundir.

Þeir þrír flokkar, sem nú ræða saman um stjórnarmyndun, þ.e. Vinstri-grænir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, eiga það sameiginlegt að þeir eru allir öflugir bakhjarlar sjávarútvegsins, þótt ágreiningur sé um upphæðir veiðigjalda. Sá ágreiningur er ekki bara á milli flokka. Hann er líka til staðar innan flokkanna.

Þessir sömu flokkar eru líka sterkir bakhjarlar landbúnaðarins og landsbyggðarinnar yfirleitt, þannig að samstarf þeirra í milli kallar ekki á miklar málamiðlanir í málefnum þessara atvinnugreina fyrir utan veiðigjöldin.

Að „kalda stríðinu“ ljúki í íslenzkum stjórnmálum getur hins vegar haft þau áhrif að það dragi úr þeirri heift og illsku, sem einkennir stjórnmálabaráttuna um of. Þótt harkan hafi verið mikil í kalda stríðinu hér á Íslandi fylgdu henni þó ekki þau persónulegu illindi, sem merkja má nú.

Alger forsenda þess að stjórnarmyndunin takist er að traust hafi orðið til á milli forystumanna þessara þriggja flokka.

Þeir sem bezt þekkja til telja að slíkt traust hafi skapast á milli þeirra þriggja einstaklinga, sem nú leiða stjórnarmyndunarviðræður. Það segir mikla sögu um þau þrjú og ef vel tekst til er líklegt að það gagnkvæma traust endurspeglist með ýmsum hætti úti í samfélaginu.

Það traust hefur enn ekki orðið til í samfélaginu sem slíku eftir hrun. Fyrir nokkrum dögum sagðist einn viðmælandi minn eiga von á því að börn hans mundu leita sér búsetu í öðrum löndum. Finni ungt fólk hjá sér slíka þörf er það til marks um að okkur sem eldri erum hafi mistekizt að byggja hér upp samfélag, sem er eftirsóknarvert fyrir nýjar kynslóðir að vera hluti af.

Þess vegna er það, hvað sem öðru líður, æskilegt að okkur takist að binda enda á þann djúpstæða ágreining, sem hér varð til í kalda stríðinu og smitaði út frá sér með ýmsum hætti, ekki sízt í menningarlífi þjóðarinnar, þar sem flokkadrættir urðu miklir ekki síður en í pólitíkinni.

Og af þeim ástæðum er ástæða til að þjóðin nýti sér það tækifæri, sem kann að skapast, gangi þessi stjórnarmyndun upp, til þess að lagfæra aðrar misfellur, sem orðið hafa á sviptingasamri vegferð lýðveldis okkar.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is