Sköpun og eyðing BÓKMENNTIR Ritverk VÍSLAND Ljóð, skáldsaga, smásögur, leikverk og ritgerðir í einni bók eftir Bjarna Bjarnason. Bókin er 516 bls. og gefin út í fimmtíu tölusettum eintökum. útgefandi er Andblær, 1994. Verð kr. 2196.

Sköpun og eyðing BÓKMENNTIR Ritverk VÍSLAND Ljóð, skáldsaga, smásögur, leikverk og ritgerðir í einni bók eftir Bjarna Bjarnason. Bókin er 516 bls. og gefin út í fimmtíu tölusettum eintökum. útgefandi er Andblær, 1994. Verð kr. 2196.

VÍSLAND er afar einfalt en um leið hugvitssamlegt heiti á skáldverki. Það býður upp á ýmsa túlkunarmöguleika, leiðir hugann að vísindaskáldskap og staðleysubókmenntum, minnir á Ólandssögu Eiríks Laxdals Eiríkssonar (1743­1816) og Vínland Leifs Eiríkssonar og Bjarna Herjólfssonar en á hinn bóginn gæti þetta verk hæglega talist ný og bölsýn Íslandslýsing. Öðrum þræði er þetta sköpunarsaga og heimsslitasaga en óhætt er að fullyrða að bókin innihaldi nokkuð fjölskrúðugt skáldverk þótt stíll höfundar og hugmyndir séu ávallt af sömu rót, hvort sem um er að ræða ljóð, leikrit, sögur eða ritgerðir. Hin einstöku frásagnarform eru lítið annað en tilbrigði hvert við annað. Þau virðast eingöngu notuð í tilraunaskyni og ná ekki að mynda innra samhengi.

Vísland má túlka sem "áframhald" af skáldsögu Bjarna Bjarnasonar "Til minningar um dauðann" sem gefin var út fyrir tveimur árum. Viðfangsefnið er af líku tagi, sömu persónur gera vart við sig og "staðhættir" eru með svipuðu sniði. Um leið hefur höfundur víkkað umfjöllunarefni sitt talsvert út, aukið við það og opnað fyrir "nýjum" möguleikum. Það skiptist í sjö aðalkafla og er strangleiki byggingarinnar eftirtektarverður. Fyrsti kaflinn nefnist Upphafið og hefst á orðinu "sko"en sá síðasti kallast Endirinn og lýkur á orðinu "lokaáfangann". Á milli þessara kafla liggur meginþráður bókarinnar, milli Edens og helvítis með mannskepnuna í miðpunkti, settur fram í ljóðum, smásögum, skáldsögu, leikverkum og ritgerðum. Byggingin minnir á dramatískt tónverk þar sem ramminn er fenginn "að láni" úr Sköpunarsögunni og Opinberunarbókinni.

Endalausar hugleiðingar einkenna þetta verk öðru fremur og sögupersónur ferðast um á ólíkum vitundarstigum frá meðvitund til draumvitundar. Hið "raunverulega" líf er að stærstum hluta fólgið í ímyndunum og leiðin til að uppgötva það liggur með tilviljunarkenndum hætti í gegnum hugsunina. Niðurstaðan er sú að "kjarni" alls lífs felst í samspilinu milli sköpunar og eyðingar enda er lífið og dauðinn af sama toga, hvort sem er í vöku eða svefni. Eftirfarandi tilvitnun er að finna í ritgerðinni um Vísland:

Það er bagalegt hvað vitund mannsins er lítill hluti af huga hans, því eina hugsanlega heimili hans er meðvitundin. Heimili mannsins er heimurinn sem til er í huga hans, þegar umheimurinn er fjarverandi. Fáir menn rata nokkurn tíma heim til sín, og ef þeir slæðast þangað fyrir slysni, þekkja þeir sig varla aftur, vegna langvarandi villuráfs um furðuhella hugans, og týna heimili sínu aftur. En meðvitund hvers og eins vaknar ekki fyrr en hann hefur áttað sig á að skynigædd vera getur hvergi búið nema í eigin meðvitund (485).

Bjarni skoðar líf mannskepnunnar í trúarlegu, sögulegu, heimspekilegu og vísindalegu ljósi. Undirtónn verksins er að stærstum hluta bölsýnn og níhilískur en ávallt í bland við húmor. Hér heldur Byronskt skáld á penna, "ný manngerð" í uppreisn gegn guði og mönnum:

Farðu úr mér guð

svo ég geti dáið

farðu úr mér maður

svo ég megi lifa að eilífu

farðu

farðu

farðu

Bjarni Bjarnason er kraftmikið skáld. Hann skrifar af mikilli þörf en oft meira af kappi en forsjá, hleður upp orðum og hugmyndum og gengur hratt um síður þessarar bókar eins og maður á milli kaffihúsa og kráa í leit að haldreipi. Vonandi nær hann að klófesta skáldlegt ímyndunarafl sitt með færri orðum ­ síðar.

Jón Özur Snorrason.

Bjarni Bjarnason