Ensk-ungverski rithöfundurinn Arthur Koestler varð heimsfrægur fyrir skáldsöguna Darkness at Noon eða Myrkur um miðjan dag , sem kom út á ensku 1941 og íslensku 1947.

Ensk-ungverski rithöfundurinn Arthur Koestler varð heimsfrægur fyrir skáldsöguna Darkness at Noon eða Myrkur um miðjan dag , sem kom út á ensku 1941 og íslensku 1947. Þar reyndi hann að skýra hinar furðulegu játningar sakborninganna í sýndarréttarhöldum Stalíns á fjórða áratug. Skýringin var í fæstum orðum, að í huga sanntrúaðra kommúnista hefði aðeins verið til sannleikur flokksins. Ef flokkurinn skipaði félaga að vera sekur, þá var hann það, líka í eigin augum. Koestler þekkti slíkt sálarlíf af eigin raun, því að hann hafði um skeið verið eindreginn kommúnisti. Skáldsaga hans kom út á frönsku 1945 og átti nokkurn þátt í því, að í maí 1946 töpuðu franskir kommúnistar í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar.

Hitt vita færri, að Koestler skipti líka nokkru máli í kosningum á Íslandi. Hann hafði 1945 gefið út ritgerðasafnið The Yogi and the Commissar , Skýjaglópinn og flokksjálkinn . Þar er löng ritgerð um Ráðstjórnarríki Stalíns. Lýsti Koestler meðal annars hungursneyðinni í Úkraínu 1932-1933, fjöldabrottflutningum frá Eystrasaltslöndunum 1941 og hinu víðtæka þrælabúðaneti Stalíns, Gúlageyjunum. Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, fékk Jens Benediktsson blaðamann til að þýða ritgerðina, og fyllti hún fjörutíu blaðsíður í Lesbók Morgunblaðsins 29. desember 1945, nokkrum vikum fyrir bæjarstjórnarkosningar.

Íslenskir kommúnistar brugðust við hart og gáfu út sérstakt blað, Nýja menningu , til höfuðs Koestler, og dreifðu í hús bæjarins. Ungur hagfræðingur, nýkominn frá Svíþjóð, Jónas H. Haralz, skrifaði einnig í Þjóðviljann , málgagn kommúnista, að „falsspámaðurinn Koestler“ hefði verið „afhjúpaður“. Skipaði Jónas sjötta sæti á lista Sósíalistaflokksins í bæjarstjórnarkosningunum, og gerðu kommúnistar sér vonir um, að hann næði kjöri. Valtýr Stefánsson svaraði Jónasi fullum hálsi og varði Koestler. Úrslit kosninganna urðu kommúnistum vonbrigði. Þeir fengu aðeins fjóra bæjarfulltrúa kjörna. Sigurganga þeirra á Íslandi var stöðvuð, ef til vill að einhverju leyti með aðstoð Koestler.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is