Erna Magnúsdóttir
Erna Magnúsdóttir
Eftir Ernu Magnúsdóttur: "Nú er tilviljanakennt hverjir fara í endurhæfingu í kjölfar krabbameinsgreiningar. Til að breyta því þurfa stjórnvöld að móta stefnu í málaflokknum."

Það getur verið mikið áfall að greinast með krabbamein og veikindin geta haft margvísleg áhrif á daglegt líf. Þess vegna er mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu og stuðning eins fljótt og unnt er, bæði fyrir þá sem greinast með krabbamein og líka fyrir aðstandendur þeirra. Í dag er tilviljanakennt hverjir fara í endurhæfingu í kjölfar krabbameinsgreiningar. Starfsfólk Landspítalans gerir sitt besta til að benda á þau úrræði sem eru til staðar, en nauðsynlegt er að efla umsjón og flæðisstýringu svo allir fái sömu upplýsingar og jafnan aðgang að endurhæfingu.

Á Íslandi eru starfandi endurhæfingarstofnanir og miðstöðvar með frábæru fagfólki með áralanga reynslu af endurhæfingu. Nú leggjumst við á eitt til að stuðla að því að þjónustan verði aðgengileg öllum sem greinast með krabbamein. Til að framtíðarsýnin verði að veruleika þurfum við stjórnvöld í lið með okkur. Það vantar einfaldlega meira fjármagn í þennan málaflokk.

Einn af þeim stöðum sem bjóða krabbameinsgreindum einstaklingum og fjölskyldum þeirra upp á sérhæfða endurhæfingu og stuðning er Ljósið á Langholtsvegi 43. Ljósið er viðurkennt af landlæknisembættinu sem endurhæfingarstofnun á heilbrigðissviði með 13 ára reynslu í endurhæfingu krabbameinsgreindra. Þar vinnur fjölbreyttur hópur sérfræðinga á heilbrigðissviði sem hafa sérhæft sig í þessum málaflokki. Þjónustan er fjölbreytt og hugsuð fyrir þann sem greinist og nánustu fjölskyldumeðlimi. Þjónustuþegar Ljóssins eru nú þegar um 400 einstaklingar í hverjum mánuði (krabbameinsgreindir frá 16 ára og aðstandendur 6 ára og eldri). Ljósið þjónar fólki alls staðar af landinu. Markmið þjónustunnar er að veita stuðning strax í kjölfar greiningar, áfallahjálp, fræða um bjargráð, ýta undir virkni og jafningjastuðning auk þess að leggja mikla áherslu á að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek. Reynslan sýnir að það skiptir miklu máli að horfa heildrænt á einstaklinginn svo ávinningurinn verði sem mestur. Í upphafi er útbúin einstaklingsmiðuð endurhæfingaráætlun í samvinnu við þjónustuþegann. Fagteymið vinnur saman að því að meta endurhæfingarþarfir og sinna eftirfylgd. Algengar aukaverkanir geta verið hamlandi við athafnir daglegs lífs, til dæmis líkamlegt og andlegt þrekleysi, bjúgur, stirðleiki, verkir og dofi, þess vegna er nauðsynlegt að hitta sérfræðinga sem veita viðeigandi úrræði og ráðgjöf. Það má segja að Ljósið sinni endurhæfingu frá a til ö, því fólk getur nýtt þjónustuna strax við greiningu og aukið ákefð endurhæfingarinnar þar til endurhæfingarmarkmiðum hefur verið náð og þjónustuþeginn snýr aftur á atvinnumarkaðinn, í skóla eða önnur hlutverk.

Við hvetjum stjórnvöld til að efla endurhæfingu og stuðning fyrir krabbameinsgreinda og fjölskyldur þeirra. Úrræðin og mannauðurinn er til staðar nú þegar eins og hjá Ljósinu, Krabbameinsfélaginu, Reykjalundi, Hveragerði og Landspítalanum, en það þarf að hjálpa þessum aðilum að viðhalda núverandi starfsemi og efla hana enn frekar með auknu fjármagni.

Í dag, fimmtudaginn 3. maí kl. 15, verður haldið málþingið „Endurhæfing alla leið“ í hátíðarsal Háskóla Íslands um endurhæfingu fólks með krabbamein. Nánari upplýsingar eru á Facebook-viðburðinum, en málþinginu verður einnig streymt á netinu. Allir velkomnir.

Höfundur er forstöðukona Ljóssins.