21. desember 1994 | Íþróttir | 1968 orð

Reyni að plægja akurinn þannig að uppskera verði Kristján Arason og Þorgerður

Reyni að plægja akurinn þannig að uppskera verði Kristján Arason og Þorgerður Gunnarsdóttir voru búin að koma sér vel fyrir í Hafnarfirði, eftir sex ára dvöl í Þýskalandi og á Spáni. Það var þá sem þau ákváðu að halda út á nýjan leik.

Reyni að plægja akurinn þannig að uppskera verði Kristján Arason og Þorgerður Gunnarsdóttir voru búin að koma sér vel fyrir í Hafnarfirði, eftir sex ára dvöl í Þýskalandi og á Spáni. Það var þá sem þau ákváðu að halda út á nýjan leik. "Við höfðum mikið að gera heima. Eftir að við risum úr rekkju á morgnana sáumst við ekki fyrr en klukkan níu á kvöldin - dæmigert fyrir hjón á Íslandi, sem fyrir utan vinnu eru á fullu í íþróttum og félagsmálum," sagði Kristján þegar Sigmundur Ó. Steinarsson sótti þau heim og Þorgerður bætir við: "Ég held að við höfum verið heppin að fá tækifæri til að komast aðeins út úr þeirri hringiðu - að hafa fengið þetta tækifæri."

slendingar hafa löngum verið eftirsóttir sem handknattleiksmenn í Þýskalandi, þar sem þeir hafa unnið marga frækna sigra. Það kom fáum á óvart þegar forráðamenn liðsins Bayer Dormagen óskuðu eftir því að Kristján Arason kæmi til Dormagen og sæi um uppbyggingu á því. Kristján er ekki ókunnugur í þýska handknattleiknum - hann var einn af lykilmönnum Gummersbach á árum áður, varð Þýskalandsmeistari með liðinu 1988, en ákvað að yfirgefa það stuttu seinna til að geta tekið þátt í miklum undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir Ólympíuleikana í Seoul, jafnframt því að hann gerðist leikmaður með Teka á Spáni, varð bikarmeistari með félaginu og síðan Evrópumeistari. "Það er mikil eftirsjá, að horfa á eftir Kristjáni fara frá okkur," sagði Heiner Brand, þjálfari Gummersbach í viðtali við Morgunblaðið eftir að Þýskalandsmeistaratitillinn var í höfn.

Kristján, sem er baráttumaður mikill og kallar ekki allt ömmu sína, snéri heim frá Spáni 1991 og gerðist þjálfari og leikmaður með FH með frækilegum árangri - undir hans stjórn varð FH Íslands- og bikarmeistari 1992, en það keppnistímabil lék hann sárþjáður á öxl, vöðvafestingar rifnuðu, var deyfður fyrir leiki og eftir þá þurfti hann að fá kalda bakstra til að lina þjáningarnar. Þegar Þorbergur Aðalsteinsson óskaði eftir því að Kristján gæfi kost á sér í landsliðið fyrir B-keppnina í Austurríki snemma árs 1992, svaraði Kristján kallinu þrátt fyrir að vera meiddur, í nýrri vinnu og þjálfari 1. deildarliðs, með þessum orðum: "Handboltinn hefur gert mikið fyrir mig og mér finnst mér ber skylda til þess að taka þátt í þessu verkefni." Kristján átti stóran þátt í að íslenska liðið hafnaði í þriðja sæti og tryggði sér rétt til að leika í heimsmeistarakeppninni í Svíþjóð 1993.

Hvað varð til þess að Kristján og eiginkona hans, Þorgerður Gunnarsdóttir, fóru aftur til Þýskalands, eftir að hafa komið sér vel fyrir í Hafnarfirði? "Það var þetta freistandi tilboð að fá að þjálfa hér í úrvalsdeildinni. Þegar við komum heim frá Spáni þá sáum við okkur endanlega búsett á Íslandi og keyptum okkur hús á Tjarnarbraut í Hafnarfirði og virkilega búin að koma okkur vel fyrir. Þá sáum við ekkert fram á að við færum aftur út, ég var búinn að þjálfa FH-liðið í þrjú ár, Þorgerður var komin á fullu út í pólitíkina, enda félagsmálatröll, og í dómarastörf í handknattleik. Okkur leið mjög vel, en höfðum mikið að gera. Mér fannst með vinnunni hjá Verðbréfamarkaði Íslandsbanka og að þjálfa, að starfið væri orðið mjög mikið. Eftir að við risum úr rekkju á morgnana sáumst við ekki fyrr en klukkan níu á kvöldin - dæmigert fyrir hjón á Íslandi, sem fyrir utan vinnu eru á fullu í íþróttum og félagsmálum," sagði Kristján og Þorgerður bætir við: "Ég held að við höfum verið heppnin að fá tækifæri til að komast aðeins út úr þeirri hringiðu - að hafa fengið þetta tækifæri."

Vel tekið í Dormagen

Hvernig var fyrir Kristján að snúa á ný til Þýskalands, sem þjálfari, eftir að hafa verið þar sem leikmaður? Hvernig var að koma þangað til að takast á við nýtt hlutverk - stjórna frá hliðarlínunni, en ekki vera í sviðsljósinu úti á vellinum eins og þegar hann lék með Hameln og Gummersbach?

"Mér hefur verið tekið vel af leikmönnum, stjórnarmönnum og áhorfendum og því get ég ekki annað en verið ánægður, enda hefur okkur gengið vel. Markmið okkar er áttunda sætið, en allt þar fyrir ofan er uppgangur hjá félaginu," sagði Kristján, sem var ekki ánægður eftir Morgunblaðið sá hann stjórna liði sínu í leik gegn Essen í hinni frægu Gruga-höll í Essen. Það gekk illa hjá leikmönnum Bayer Dormagen að koma knettinum fram hjá Stefan Hecker, markverði Essen - bráðlæti varð þeim að falli og Bayer Dormagen, sem hafði aldrei fagnað sigri í Essen, mátti sætta sig við tap 15:21.

Lét sig hverfa af æfingu

"Það reiknuðu fáir með sigri hjá okkur í Essen, en aftur á móti var ég afar óhress með það hvernig við töpuðum. Það var engin barátta í liðinu og leikmennirnir gáfust upp. Ég fer fram á það við mína leikmenn að þeir gefi allt í leikinn sem þeir eiga, það er lágmarkskrafa. Leikmenn eiga að geta sagt við sig eftir leiki - ég gerði mitt besta. Annað hvort eru leikmennirnir ekki nægilega góðir, eða þá að það er ég sem legg upp ranga leikaðferð og þá verð ég að kyngja því og svara sem þjálfari," sagði Kristján, sem kallaði leikmenn sína á æfingu kvöldið eftir leikinn sendi þá út að hlaupa, en yfirgaf svæðið sjálfur, skildi eftir skilaboð til leikmanna sinna um að þeir ættu að setjast niður saman og ræða um hvað þeir gætu gert til að lyfta leik þeirra upp á hærra plan."

­ Varstu ánægður með þá ákvörðun þína, að yfirgefa svæðið þegar leikmenn þínir voru úti að hlaupa?

"Já, það var ég. Það er oft merkilegt við þjálfarastarfið, að stundum leggur maður línurnar fyrir leiki með því að liggja yfir myndböndum með leikjum andstæðinganna og undirbýr lið sitt mjög vel - fer yfir leikinn í smáatriðum fyrir leik og síðan gengur lítið sem ekkert upp sem leikmenn voru búnir að ákveða að gera. Maður getur einnig farið kæruleysisleiðina, með því að hugsa ekkert út í andstæðinginn, þannig að leikmennirnir hafi meiri áhyggjur af sjálfum sér - og þá getur leikurinn gengið mjög vel upp. Það eru til svo margar leiðir að sama markinu, þar eru aðeins úrslitin sem ráða, burtséð frá því hvort mikil vinna hafi verið lögð í undirbúning fyrir leik eða ekki. Ég vil ekki endalaust vera á fundum með leikmönnum mínum til að skamma þá, það býður aðeins upp á hróp; úlfur, úlfur. Ég vil að leikmenn mínir hafi metnað til að hugsa stærra og þess vegna getur það oft verið gott að þeir ræði saman án þess þeir hafi mig yfir sér. Þessi ákvörðun mín, að yfirgefa svæðið kemur í ljós á morgun þegar við leikum heimaleik gegn Bad Schwartau. Þá kemur í ljós hvort að ég hafi gert rétt, eða ekki," sagði Kristján, en þess má geta að hann gat ekki annað en verið ánægður - leikmenn hans áttu aldrei í neinum erfiðleikum með Bad Schwartau; sigruðu 23:19.

Eftir tapið í Essen hefur framganga Kristjáns og lærisveina verið góð fram að stuttu jólafríi - þeir hafa fengið 13 stig úr átta leikjum, tapað aðeins einum leik, gegn Niederwürzbach og gert jafntefli gegn Eitra.

"Verð að skrúfa mig niður"

Kristján er vanur að vera í fremstu víglínu, hann þekkir lítið annað en vera í sigursælum liðum - bæði á Íslandi, Þýskalandi og Spáni. Er hann ánægður með lið sitt, Bayer Dormagen?

"Maður verður að hugsa um það hvaða leikmenn maður hefur við erum ekki með nægilega góða hornamenn og það er veikleiki í liðinu miðað við hin liðin, þannig að ég verð að skrúfa mig niður, taka öðru vísi á hlutanum en þegar ég var hjá FH, Gummersbach og Teka, þar sem alltaf var það hugarfar að vinna titil. Þetta varð markvörðurinn Andreas Thiel einnig að gera, en hann lék alltaf um titla hjá Gummersbach, þar sem ég lék með honum," sagði Kristján Arason, sem hefur allan sinn keppnisferil, sem er langur og glæsilegur, leikið með liðum sem hafa verið í meistarabaráttu. "Ég hef alltaf verið í það sterku liði, að það kom ekkert annað til greina nema meistarabarátta og ég hef aldrei leikið með liði sem hefur verið neðar en þriðja sæti fyrr en síðastliðið keppnistímabil, þegar við FH-ingar töpuðum fyrir Víkingum í átta liða úrslitum.

Ætlar að lyfta Bayer Dor-

magen á hærra plan

­ Hvernig er umgjörðin í kringum Bayer Dormagen miðað við Gummersbach. Er hún öðruvísi?

"Já, þetta er satt besta að segja annar heimur. Gummersbach er sögufrægt lið, með hefðirnar á bak við sig búið að vinna Evrópumeistaratitilinn mörgum sinnum og það eru ófáir meistaratitlar sem höfnuðu hjá félaginu og ég tók við einum meistaratitli (1988) sem þú varst vitni að í Dortmund og síðan fagnaðarlátunum í Gummersbach á eftir. Þar var krafa um sigur í hverjum einasta leik. Hér er ég með lið sem er notað í auglýsingaherferð Bayer Dormagen, til að gefa jákvæða ímynd af félaginu. Það besta sem Bayer Dormagen hefur náð í meistarabaráttu er fimmta sætið fyrir þremur árum. Markmið mitt nú er fimmta til áttunda sæti. Ég gerði mér grein fyrir því að ég verð að vera mjög þolinmóður og ég hef rætt við nýja stjórnarmenn hjá félaginu; við lítum á þetta keppnistímabil sem millibilsár, þar sem ég vinn fyrst og frest að því að fá leikmenn mína til að hugsa á annan hátt en þeir hafa gert - að setja stefnuna ofar. Það er erfitt fyrir mig, með þennan litla leikmannahóp sem ég hef yfir að ráða, að komast ofar en fimmta sætið. Eftir þetta keppnistímabil verður hópurinn styrktur með nýjum leikmönnum.

Ég er heppinn í framtíðarsýn minni, að lyfta Bayer Dormagen á hærra plan, að ég hef náð að vinna virðingu forráðamanna og leikmanna, að ég fær að ráða ferðinni, að reyna að plægja akurinn þannig að uppskera verði. Ég gerði mér grein fyrir því að þeir eru á mínu bandi og óneitanlega líður manni betur að vita til þess að ég sé traustsins verður. Ég hefði getað lent til dæmis á formanni sem hefði alltaf viljað komast í blöðin til að láta ljós sitt skína sett út á allt þegar honum hentaði, bæði leikmenn og þjálfara. Það er ekki hér hjá Bayer Dormagen, þannig að það er allt undir góðri stjórn og ég og leikmennirnir erum ánægðir með það sem við erum að fást við - það er góður andi í hópnum."

­ Sérðu fyrir þér að Bayer Dormagen geti orðið meistaralið?

"Ekki á næstunni. Það tekur langan tíma að byggja upp meistaralið hér. Þegar maður rennir augunum yfir vígvöllinn, þá sé ég þrjár til fjórar herfylkingar sem koma til með að berjast um meistaratitilinn næstu árin og erfitt fyrir lið eins og Bayer Dormagen að berjast við - lið eins og Kiel, þar sem þarf ekki annað en kveikja ljósin í íþróttahöllinni, til að sjö þúsund áhorfendur mæti, Wallau Massenheim, Lemgo og Hameln.

Það sem háir Bayer Dormagen í þessari baráttu, er að það vantar sálina í liðið. Liðið er byggt upp frá fyrirtæki, formaðurinn er á vegum fyrirtækisins og það er hluti af hans vinnu að sjá um þetta lið. Það er annað þegar menn alast upp með félögunum frá blautu barnsbeini. Sömu sögu er að segja um leikmennina - þeir hafa ekki alist upp með félaginu."

­ Hvað með þitt gamla félag Gummersbach?

"Aðalvandamálið hjá Gummersbach nú er að með liðinu leika fimm leikmenn frá austurhluta Þýskalands, sem hafa ekki náð að aðlaga sig vesturhlutanum og það tekur fólk frá austurhlutanum mannsaldur að gera það, svo einfalt er það."

Á MORGUN

"Við lærðum að lifa lífinu á Spáni" ­ segja Þorgerður Gunnarsdóttir og Kristján Arason

Morgunblaðið/Sigmundur Ó. Steinarsson

Þorgerður Gunnarsdóttir og Kristján Arason kunna vel við sig í Þýskalandi, þar sem hann þjálfar úrvalsdeildarlið Dormagen.

Ljósmynd/Frank Dittrich

Kristján Arason gefur einum leikmanna sínum góð ráð. Dormagen er í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar, þegar jólafrí handknattleiksmanna í Þýskalandi er hafið.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.