JAN HABETS Séra Jan Habets fæddist í Schaesberg í Hollandi 19. nóvember 1913. Hann andaðist í Borgarspítalanum 20. desember síðastliðinn. Foreldrar hans ráku kornmyllu í Schaesberg og hann mun hafa átt tvær systur. Önnur þeirra er látin en hin verður viðstödd útför hans. Hann stundaði nám við menntaskólann í Schimmert 1926 til 1932 og lagði að því loknu stund á undirbúningsnám til prestþjónustu til 1933. Í reglu hl. Montforts gekk hann 8. september 1933 og nam síðan heimspeki í Oirschot til 1935. Eftir það kenndi hann eitt ár við menntaskólann í Schimmert. Þá hóf hann guðfræðinám sem hann stundaði til 1940 og þáði prestvígslu 3. mars það ár. 1941 til 1947 nam hann latínu og grísku við háskólann í Nijmegen og kenndi síðan við menntaskólann í Schimmert 1947 til 1968. Að þessu loknu kenndi hann tvö ár við menntaskólann í Fatíma í Portúgal. Hann starfaði sem stúdentaprestur í Lissabon 1970 til 1977 en þá fluttist hann hingað til lands og var prestur við sjúkrahús St. Franciskussystra í Stykkishólmi til dauðadags. Útför hans fer fram frá Kristskirkju í Landakoti í dag.