Gylfi Guðmundsson fæddist á Landspítalanum 27. september 1932. Hann lést 28. janúar 2019 á Vegamótum, Grund við Hringbraut.

Foreldrar hans voru hjónin Helga Kristjánsdóttir húsmóðir, f. á Ísafirði árið 1903, d. 1982, og Guðmundur Sigurðsson, fulltrúi og bókari, f. í Keflavík árið 1902, d. 1974.

Systkini Gylfa voru Ástríður, f. 1926, d. 2015, Hólmfríður, f. 1928, d. 2003, Sigurður Þorkell, f. 1930, d. 2007, Þorbjörg, f. 1936, d. 2015, og Gerður, f. 1942.

Gylfi var mjög náinn móðurbróður sínum Guðmundi Kristjánssyni, konu hans Gróu Ólafsdóttur og dætrum þeirra, Þorbjörgu, Margréti og Sigríði Björgu.

Eftirlifandi eiginkona Gylfa er Ása Hanna Hjartardóttir, f. 8. ágúst 1940, fv. flugfreyja og starfaði lengi sem deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg. Þau giftust 3. júlí 1972. Foreldrar hennar voru Ásta Jónsdóttir, húsmóðir og símritari, f. 1917, d. 1969, og Hjörtur Jónsson, loftskeytamaður og umdæmisstjóri Pósts og síma á Ísafirði, f. 1915, d. 1993. Dætur þeirra eru: a) Helga Maureen, f. 10. janúar 1974, og b) Ásta Camilla, f. 20. október 1975.

Fyrri eiginkona Gylfa var Hannelore Guðmundsson f. 1931, d. 2009. Dætur þeirra eru a) Jónína Guðrún, f. 19. september 1960, hún á þrjá drengi, Georgios f. 1988, Kjell f. 2001, og Ben, f. 2003, og b) Sólveig Elke, f. 4. apríl 1963, hennar maður er Norbert Bistry. Börn hennar af fyrra hjónabandi eru Finn Moritz, f. 1993, og Nika Sóllilja f. 1996.

Gylfi ólst upp á Hörpugötu 35 í Skerjafirði til 11 ára aldurs er húsið var flutt vegna lengingar N/S-brautar flugvallarins. Þá flutti fjölskyldan á Hringbraut 37. Hann fór í sveit sem ungur drengur, fjögur sumur að Sveinseyri við Dýrafjörð og önnur fjögur í Deildartungu í Borgarfirði. Hann útskrifaðist stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1952, rekstrarhagfræðingur (Diplom Kaufmann) frá háskólanum í Mannheim í Þýskalandi vorið 1958 og leiðsögumaður frá Leiðsögumannaskóla MK vorið 2002. Hann starfaði hjá fyrirtækjum, innlendum og einu erlendu, á sviði inn- og útflutningsverslunar, iðnaðar og vinnslu sjávarafla. Störf hans voru helst fólgin í innflutningi og innkaupum margvíslegs varnings, sölu og útflutningi íslenskra framleiðsluvara, reikningshaldi og almennri stjórnun. Starfsvettvangur hans var m.a. sem forstöðumaður Tilraunastöðvar SÍS í Hafnarfirði, framkvæmdastjóri Hamborgarskrifstofu SÍS, framkvæmdastjóri innkaupadeildar LÍÚ og fulltrúi hjá Hval hf. Eftir að hann komst á eftirlaun hóf hann að leiðsegja þýskum ferðamönnum um Ísland.

Útför Gylfa fer fram frá Neskirkju við Hagatorg í dag, 6. febrúar 2019, og hefst athöfnin klukkan 15.

Við andlát pabba er margs að minnast, við höfum átt yndisleg æsku- og mótunarár hjá mömmu og pabba og við erum þakklátar fyrir allt sem þau hafa veitt okkur. Minningar um góðan og umhyggjusaman pabba hafa leitað á huga okkar síðustu daga. Við vorum mjög náin fjölskylda og tókumst saman á við lífið, samglöddumst þegar vel gekk og studdum hvort annað þegar á móti blés. Pabbi lagði mikla áherslu á það í uppeldinu að við systur þekktum okkar fólk, héldum sambandi, réttum út hjálparhönd þegar þess þurfti og að við værum með á hreinu hvernig skyldleiki milli manna væri. Stundum fannst okkur pabbi eiga ótrúlega mikið af frændum og frænkum en þegar skyldleikinn var skoðaður var kannski verið að tala um frændsemi í 5. lið en það skipti ekki máli, frændi var frændi og frænka var frænka.

Pabbi var selskapsmaður, hafði gaman af að halda veislur og að fara í veislu. Síðasta fjölskylduboðið sem hann fór í var jólaboðið til Þorbjargar frænku viku fyrir jól í desember síðastliðnum, þar lék hann á als oddi og naut samvista við frændur og frænkur, stóra sem smáa.

Hann pabbi okkar fylgdi í spor móður sinnar og tveggja systra og fékk að kynnast alzheimerssjúkdómnum á eigin skinni og fórum við mæðgur í það ferðalag með honum, honum til halds og trausts. Það er þó huggun harmi gegn að hann fékk það sem kallað er síðbúið alzheimer, greindist í kringum áttræðisafmælið. Pabbi var alla tíð mjög ljúfur maður og vildi öllum vel og við erum þakklátar fyrir að sú skapgerð yfirgaf hann ekki í veikindum hans.

Mamma á aðdáun okkar systra fyrir hversu vel og af miklu ástríki hún annaðist pabba í veikindum hans. Hann naut þeirrar gæfu að komast að á Hlíðabæ, sem er dagvistun fyrir heilabilaða. Pabbi sótti Hlíðabæ í rúm tvö ár, leið vel þar og sérstaklega voru húsakynnin honum að skapi en Vilhjálmur Árnason skipstjóri byggði húsið á sínum tíma. Í október síðastliðnum flutti pabbi sig um set innan Vesturbæjarins, er hann fékk inni á Grund. Á Vegamótum á Grund ríkir aðeins eitt markmið og það er að heimilisfólk njóti mikillar umhyggju og virðingar. Við mæðgur þökkum starfsfólki Hlíðabæjar og Vegamóta fyrir alla veitta aðstoð og velvild í garð Gylfa okkar.

Það er skrítið að standa á þessum tímamótum að kveðja pabba, en við vitum að hann er og verður ávallt með okkur stelpunum sínum. Við erum þakklátar fyrir að hann þekkti okkur, stelpurnar sínar þrjár, fram í andlátið og við vorum öll dugleg, við fjögur, að sýna hvert öðru væntumþykju í garð hvert annars. Það var ekki slæmt að heyra frá pabba sínum þegar maður hitti hann eftir smá fjarveru: „Elskan mín, ertu komin, hjarta mitt tók kipp þegar ég sá þig koma!“

Nú hefur fækkað um einn í Villtamelsgenginu, genginu sem taldi sig eiginlega ósigrandi. En við sem eftir erum munum halda áfram og halda á lofti minningu pabba.

Þú ert það, sem þú öðrum miðlað getur,

og allar þínar gjafir lýsa þér

og ekkert sýnir innri mann þinn betur

en andblær hugans, sem þitt viðmót ber.

(Árni G. Finnsson)

Ástar- og saknaðarkveðjur,

Helga Maureen

og Ásta Camilla.

Minningar mínar um Gylfa bróður minn eru margar og ljúfar og renna nú um huga mér þegar hann er farinn til feðra sinna.

Gylfi var 10 ára snáði í sveit á Sveinseyri við Dýrafjörð þegar hann fékk símhringingu, til Eggerts ömmubróður okkar í Sæbóli, að Gylfi hefði eignast litla systur. Eggert frændi okkar í Sæbóli í Haukadal var með símstöð þar og kom þessum fregnum til hans, fór í snarhasti gangandi út á Sveinseyri, þar sem Andrés bróðir hans bjó með fjölskyldu sinni. Söguna sagði Gylfi mér þegar ég fór í sveit á sjöunda ári vestur í Höll í Haukadal

Enn ein minning kemur upp í huga mér. Þegar ég var ung stúlka í Lundúnum var hringt dyrabjöllunni einn daginn og á ganginum stóð Gylfi bróðir með vænan lax sem pabbi okkar hafði veitt daginn áður.

Gylfi var að fara til London og munaði ekki mikið um að koma laxinum til skila. John Kendall, húsbóndinn á heimilinu, átti ekki orð þegar Gylfi afhenti honum laxinn og sagði að hann væri smá gjöf til hjónanna, fyrir hugulsemina við dóttur sína.

Sveini Aroni manni mínum gleymist aldrei þegar pabbi okkar Gylfa andaðist og við hjónin vorum í sumarleyfi í Portúgal. Þá kom hótelstjórinn til Sveins, þar sem við vorum að tala við ensk hjón sem síðar urðu einlægir jólakortavinir okkar um áratuga skeið. Sveinn kom síðar til mín og bað mig að koma með sér upp í herbergið í hótelinu. Í rólegheitum greindi Sveinn frá andláti pabba. Þetta var mikið áfall, en Gylfi var þá líka búinn að hagræða jarðarför þannig að hún yrði ekki fyrr en við kæmum heim að viku liðinni. Fyrir tilstuðlan Gylfa nutum við dvalarinnar í rólegheitum. Ég þakka honum ávallt fyrir þessa ástúðlegu umhyggju hans fyrir okkur Sveini.

Tengsli okkar Gylfa voru alltaf sterk, þó að við værum ekki í sambandi alla daga. Elskusemi hans við mig var heil og góð alla tíð.

Nú er kær bróðir minn farinn til feðra sinna. Þakka ég elsku bróður fyrir öll árin sem við áttum, ásamt mömmu, pabba, Ásu systur, Fríðu systur, Sigga bróður og Distu, sem öll eru látin. Megi gleði og fegurð umlykja þau öll og veit ég að tekið verður vel á móti Gylfa bróður.

Innilegar samúðarkveðjur færi ég dætrum hans Jónínu Guðrúnu, Sólveigu Elke, Helgu Maureen og Ástu Camillu og Ásu Hönnu konu hans.

Megi blessun og friður vera með ykkur um ókomna tíð.

Gerður G. Bjarklind.

Guð hefur sönginn gefið þér,

gagn og yndi að vinna,

en hlífðu því, sem helgast er

hjörtum bræðra minna.

Þannig skrifar Helga föðursystir okkar, mamma Gylfa, í póesíubók pabba árið 1914. Kvaddur er í dag stórfrændi og vinur okkar Gylfi Guðmundsson, sem við lítum á sem stóra bróður. Við fráfall Gylfa er sem kjölfestan og akkerið í ætt okkar hafi verið tekið upp og eftir sitjum við hnípin og döpur. Það var auðvelt að elska og virða hann Gylfa, honum var það eðlislægt að gefa af sér og ávallt fórum við glöð í sinni af hans fundi. Að eigin sögn var hann besta barnapían okkar systranna og það getum við staðfest fúslega.

Frændsemi hans var viðbrugðið og ætíð sýndi hann börnum okkar og barnabörnum óskiptan áhuga enda eru góð tengsl milli barna okkar. Samfundir fjölskyldna okkar hafa margir verið á liðnum áratugum. Minningin um skemmtilegar samverustundir leita á hugann, hvort sem var á heimilum okkar, sumarhúsum á Snæfellsnesi, í Skorradal, Villingadal eða á Hjalteyri. Ferðin sem við fórum með Níelsi Jónssyni frá Hauganesi og sigldum út í Hrísey er sérstaklega minnisverð, þar var skipað í hvert rúm með GK sem kaptein og Gylfa 1. stýrimann. Enn fremur ferð okkar á 70 ára afmæli Flateyrar 1992 að ógleymdu ættarmóti Skjaldfannarættarinnar 1994, sem Gylfi stóð fyrir.

Frásagnarlist Gylfa var einkar skemmtileg. Hann átti sterkar rætur í móðurætt vestur í Höll í Haukadal og Skjaldfönn í Ísafjarðardjúpi. Þangað leitaði hugur hans oft og naut hann þess að hitta ættingja sína úr þessu vestfirska umhverfi. Frásögur hans, m.a. frá dvöl sinni á Sveinseyri í Haukadal í Dýrafirði, hjá ömmubróður okkar Andrési Guðmundssyni, sumrin 1940 til 1943 og ferð sinni sex ára gamals með Grétu (Margréti Ebenezardóttur) þegar þau sigldu með einum Fossanna til Flateyrar. Árla morguns er Gréta vakti Gylfa, leit hann út um kýraugað og sagði: „Mikið eru fjöllin flott,“ þegar hann sá fjallið tignarlega Þorfinn handan fjarðar.

Við þessi kaflaskil viljum við systur þakka Gylfa og Ásu fyrir alla þá umhyggju og ástúð sem þau sýndu foreldrum okkar alla tíð. Þar var enn ein birtingarmyndin af mörgum sem staðfesti hvaða mann hann hafði að geyma. Þar fór „góður drengur að vestan“. Við og fjölskyldur okkar, vottum Ásu, dætrunum og ástvinum öllum okkar samúðarkveðjur.

Vertu kært kvaddur og Guði falinn.

Þorbjörg, Margrét og Sigríður Björg Guðmundsdætur.

Gylfi Guðmundsson var systursonur afa míns Guðmundar Kristjánssonar, Gumbs. Gylfi og afi Gumbur voru um margt líkir og kærleikar miklir voru með þeim. Bönd þeirra í milli styrktust enn með ástríkri vináttu hjónanna Ásu og Gylfa, Gróu og Gumbs, og eru svo traust að þau halda enn og tengja eftirlifandi kynslóðir. Afi og amma, urðu ríkari af barnabörnum með Gylfadætrum. Gumbsdætur áttu bróður í Gylfa, þeirra börn hugljúfan frænda og barnabörnin áhugasaman afa.

Gylfi var síðustu árin höfuð ættleggs faktorshjónanna frá Flateyri, þeirra Þorbjargar Guðmundsdóttur frá Höll í Haukadal í Dýrafirði og Kristjáns Ásgeirssonar frá Skjaldfönn í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp. Ættarhöfðingi hefur hann þó alltaf verið í mínum huga. Ættarhöfðingi hefur, og sýnir, hugheilan og stolti vafinn áhuga á sínu fólki. Það var Gylfa í blóð borið. Gylfi hafði og til að bera nauðsynlegan eiginleika vestfirsks ættarhöfðingja, nefnilega einlæga virðingu fyrir góðum drengjum ættuðum að vestan. Þann hóp fylltu frændur og frænkur og allir sem þeim tengdust. Hann var fróður um sögu ættarinnar og ætta sem henni bundust. Hugur og hjarta Gylfa báru ættarinnar mót. Það fullkomnaði myndina að Gylfi bar stoltur ættarnefið, sem og látbragð og svipmót móðurbræðra. Þannig birtist gengin kynslóð okkur í Gylfa, ekki aðeins í frásögnum hans heldur einnig lifandi í honum sjálfum, góðum dreng ættuðum að vestan.

Gylfi hafði reyndar almennt áhuga á mönnum og málefnum. Glaðværð sinni deildi hann jafnt til skyldra og óskyldra. Hann var minnugur og fróður og einstaklega orðheppinn og skemmtilegur bæði í samræðum og skrifum. Það birti yfir þar sem hann kom enda fylgdi honum léttleiki og hlýja sem smitaði út frá sér. Allir fóru glaðari af hans fundi. Þessa eiginleika hans hafa dætur hans erft.

Í fjársjóðskistunni eru bréf frá Gylfa meðal höfuðdjásna. Rithönd Gylfa var einstaklega falleg, málið ríkt og bréfin skemmtileg, krydduð hárfínum húmor. Þannig skrifaði Gylfi til mín í tilefni doktorsvarnar við Háskólann í Þrándheimi, við Niðarós, að afi og langafi „hefðu verið stoltir af að vera viðstaddir doktorsvörnina, sem í mínum [Gylfa] huga er miklu meira afrek en þegar Kjartan Ólafsson kaffærði Ólaf konung Tryggvason í Niðarósi fyrir um 1050 árum“. Skemmtilegri kveðju er vart hægt að fá.

Í fjársjóði minninganna eru samverustundir og ferðir með Gylfa, Ásu og dætrum. Gylfi og Ása hafa jafnan verið höfðingjar heim að sækja og heiðursgestir þangað sem þau eru boðin. Ásu, Gylfadætrum og fjölskyldum vottum ég og fjölskylda mín einlæga samúð okkar.

Gylfi, frændi minn, lifir í hjarta og minni okkar allra sem hann þekktum. Það birtir til í huga okkar við minningu hans líkt og nærvera hans hleypti skýjum frá sól. Gylfa kveðjum við hlýjum huga með orðum sem hann lagði í bréf með vísan í að langafi Kristján, afi Gylfa, hefði þannig endað öll sín bréf til vina og ættingja. Gylfi Guðmundsson, ávallt kært kvaddur og Guði falinn.

Fjóla Guðrún

Sigtryggsdóttir.

„Nei... eru Keflvíkingarnir komnir,“ sagði Gylfi frændi skælbrosandi með útbreiddan faðminn þegar við Helgi Matthías og Lubbi heimsóttum hann á Grund fyrir nokkrum vikum. Jafnvel þótt minnið væri aðeins farið að bregðast þekkti hann okkur og fagnaði komu okkar jafn vel og endranær.

Gylfa þótti nefnilega svo vænt um fólkið sitt og var sennilega frændræknasti maður í heimi. Víðimelurinn var öllum opinn og þau hjónin voru dugleg að halda fjölskyldunni saman með fjölmennum jólaboðum og öðrum stórveislum. Gylfi hafði einlægan áhuga á því hvað við vorum að gera og var mikill ættarhöfðingi. Hann fylgdist vel með mér á sínum tíma í pólitíkinni og hvatti mig áfram og studdi. Ég minnist ótal símtala frá frænda þar sem hann oftar en ekki vildi bara segja mér hvað hann væri stoltur af frænku.

Gylfi var litli bróðir móður minnar og það var alltaf kært á milli þeirra systkina. Ég á honum margt að þakka, jafnvel lífið sjálft, þar sem það var ekki síst fyrir hans milligöngu að foreldrar mínir urðu par á sínum tíma. Gylfi og pabbi voru vinir og skólabræður í Menntaskólanum í Reykjavík. Pabbi, sem er úr Keflavík, leigði herbergi úti í bæ og oftar en ekki bauð Gylfi pabba með sér heim til ömmu og afa í mat, þar sem hann kynnist mömmu.

Nú eru þau systkinin saman á ný, en jarðarför Gylfa fer einmitt fram á dánardegi móður minnar, sem lést úr sama sjúkdómi þennan dag fyrir 16 árum. Á þeim tíma hafa þau kvatt eitt af öðru; Siggi, Dista, Ása og nú Gylfi og er Gerður ein eftir af systkinunum sex. Ég votta elsku frænku mína innilegustu samúð.

Ég á eftir að sakna Gylfa frænda og kveð hann með mikilli virðingu. Hann var góður maður, sannkallaður heiðursmaður. Missir Ásu, Monnu og Millu er þó mestur – það duldist engum hversu sterkt samband þeirra var. Við Guðjón og synir okkar sendum þeim mæðgum og Jónínu og Sólveigu, dætrum Gylfa af fyrra hjónabandi, okkar kærustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning elsku Gylfa frænda.

Ragnheiður Elín Árnadóttir.

Látinn er góðvinur okkar, Gylfi Guðmundsson. Blessuð sé minning hans. Þeir hverfa nú óðum af vettvangi kæru förunautarnir á lífsins vegi.

Gylfi var hamingjumaður. Hann naut ástríkis og einstakrar umhyggju Ásu Hönnu, eiginkonu sinnar, og dætra þeirra, Helgu Maureen og Ástu Camillu. Á menningarheimili þeirra nutum við, lítill hjónahópur, reglubundinna samverustunda um áratuga skeið. Fagrar minningar og hlýjar þakkir sameinast þaðan og glæða hug.

Gylfi var fölskvalaus ráðdeildarmaður þar sem fastlyndi og glaðlyndi voru farsællega samofin í skapferli hans. Menningarlega sinnaður var hann. Unnandi tónlistar og bókmennta. Gylfi hafði til að bera gáfur skýrar, minnið traust og tal hans jafnan skörulegt og skemmtilegt. Félagslyndi var honum í blóð borið og kom hann víða við í félögum og félagsstörfum. Vildi hafa glatt á hjalla og jákvæð áhrif á umhverfi sitt. Þótt hann hafi hluta ævinnar lifað og starfað erlendis var hann tengdur Íslandi rammri taug alla tíð. Þessi reynsla nýttist honum vel á síðari árum er hann gerðist leiðsögumaður valinna þýskra ferðamanna hér á landi við góðan orðstír enda afburða fjölfróður og mikill sagnamaður. Skilningur Gylfa var næmur, lundin hress og hjartað heitt. Manni varð hlýtt í návist hans. Slíkir menn lifa með okkur þótt þeir deyi.

Gylfi var trúmaður. Hann elskaði Guð og guðsneistann í mannssálinni, en kreddumaður var hann ekki. Að lyktum kveðjum við kæran vin okkar sem nú hefur lagt út á ókunna stigu.

Dæm svo mildan dauða,

Drottinn þínu barni

eins og léttu laufi

lyfti blær frá hjarni,

eins og lítill lækur

ljúki sínu hjali,

þar sem lygn í leyni

liggur marinn svali.

(Matthías Jochumsson)

F.h. hjónahópsins okkar,

Alda Halldórsdóttir,

Árni Þ. Árnason.

Gylfi Guðmundsson var í hópi þeirra stúdenta sem útskrifuðust úr Menntaskólanum í Reykjavík 1952. Hjá flestum okkar lauk þar með fjögurra ára samfylgd. Á þessum árum kynntumst við Gylfa, hans léttu lund og ljúfa fasi sem settu svip á alla framkomu hans. Hann var góður námsmaður, en gaf sér einnig tíma til að sinna áhugamálum utan námsins. Gylfi var í stærðfræðideild og bekkjarbræður okkar í máladeild kölluðu stærðfræðideildina stundum leikfimideild í stríðni og gáfu þá í skyn að áhugi okkar beindist einkum að íþróttum en menningin sæti á hakanum. Þetta átti þó ekki við um Gylfa. Hans áhugasvið voru fjölbreyttari en svo, m.a. var hann virkur í leiklistarstarfi skólans.

Menntaskólaárin eru mikill mótunartími og hin mikla samvera í leik og starfi myndar að einhverju leyti sameiginlega lífsreynslu sem þróast í sameiginlegar minningar þegar árin líða. Við útskrift skilja leiðir, stúdentar dreifast í nám eða störf og eru jafnframt að leita að sínum stað í tilverunni. Gylfi hélt til Þýskalands til náms í rekstrarhagfræði og lauk því 1958. Næsta hálfan annan áratuginn starfaði hann ýmist hér heima eða fyrir íslensk fyrirtæki í Þýskalandi.

Á þessu skeiði ævinnar eru verkefnin ærin og almennt ekki mikil þörf fyrir tengsl við gamla bekkjarfélaga úr menntaskóla. Hún birtist þó aftur þegar frá líður og fer bara vaxandi. Árgangur MR-52 hefur um langt skeið haldið samkomu einu sinni í mánuði yfir veturinn. Jafnan er eitthvað efni á dagskrá og í seinni tíð ber einhver úr árganginum ábyrgð á efninu. Gylfi sótti þessa fundi ákaflega vel á meðan heilsa hans leyfði, síðustu árin með aðstoð Ásu konu sinnar og dætra, og lagði sitt til dagskrárefnis. Stutt var þá enn í kímnina og léttleikann sem við kynntumst forðum.

Árgangur MR-52 sendir innilegar samúðarkveðjur til Ásu og fjölskyldunnar allrar á kveðjustund.

Guðmundur Árnason,

Helgi Hallgrímsson.