Hugmynd aðstandenda verkefnisins að hönnun og útliti „Seashuttle“.
Hugmynd aðstandenda verkefnisins að hönnun og útliti „Seashuttle“. — Tölvuteikning/Samskip
Skúli Halldórsson sh@mbl.is Samskip hafa verið valin til að leiða verkefni um þróun visthæfra og sjálfbærra flutningaskipa, en fyrirtækið þykir í dag leiðandi í visthæfni sem stærsta fjölþátta flutningafyrirtæki Evrópu.

Verkefnið, sem snýst um þróun næstu kynslóðar sjálfbærra skipaflutninga á styttri sjóleiðum hefur þegar vakið töluverða athygli í erlendum fjölmiðlum, meðal annars í Evrópu, Bandaríkjunum og Indlandi.

Norsk stjórnvöld styrkja verkefnið, sem nefnist „Seashuttle“, og leggja til samtals sex milljónir evra í fjármögnun, eða tæplega 800 milljónir íslenskra króna.

Fjármagnið verður notað til að hanna sjálfvirk gámaskip sem ekki munu gefa frá sér mengandi útblástur, en eiga á sama tíma að vera arðbær til rekstrar.

Fjögur mismunandi ráðuneyti

„Seashuttle“ er eitt sex verkefna í svokölluðum „PILOT-E“ flokki, en í honum eru þróunarverkefni þar sem að koma meðal annars Rannsóknaráð Noregs, Innovation Norway og fyrirtækið Enova, sem er í eigu loftslags- og umhverfisráðuneytis Noregs. Snúast verkefnin öll um að flýta hönnun og nýtingu tækni sem henta á umhverfisvænum iðnaði til framtíðar.

Auk loftslags- og umhverfisráðuneytisins standa þrjú önnur ráðuneyti að fjármögnun „Seashuttle“, það eru ráðuneyti matvæla og fiskveiða; jarðolíu og orku; og samgangna og fjarskipta.

Í harðri samkeppni við bílana

Are Grathen, framkvæmdastjóri Samskipa í Noregi, segir verkefnið mjög spennandi fyrir Samskip, sem taki nú forystuna í visthæfum flutningum á styttri leiðum.

„Það sem er sérstakt við þetta verkefni er að lykillinn að árangri er samvirknin í eldsneytisnotkun og tækni til að ná fram arðbærum og visthæfum flutningum. Við teljum þetta raunhæft markmið,“ segir Grathen.

Ætlunin sé að skipið verði sjálfvirkt og losi engar gróðurhúsalofttegundir. Sem flutningalausn yrði „Seashuttle“-verkefnið því í harðri samkeppni við þá tvö þúsund vörubílsfarma sem eigi leið um norskar hafnir á hverjum degi.