Þegar þessi grein er rituð er Sjálfstæðisflokkurinn að mælast með 19% fylgi á landsvísu og Framsóknarflokkurinn með 8,5%. Ábyrgðin liggur alfarið hjá forystusveit flokkanna tveggja. Traust er mikilvægt í stjórnmálum en traust er ekki sjálfgefið og eins og segir í góðri vísu þá hefnist þeim sem svíkur sína huldumey. Það var þó annað sem vakti athygli mína, fyrir utan það að Miðflokkurinn er að mælast nokkuð sterkur, og það er að fjórflokkurinn svonefndi mælist aðeins með 50,7% fylgi.
Áður en við höldum lengra skulum við staldra við við nokkrar blákaldar staðreyndir. Í Svíþjóð eru Svíþjóðardemókratarnir þriðji stærsti stjórnmálaflokkurinn á þingi með um fimmtung atkvæða. Í Finnlandi eru Sannir Finnar annar stærsti flokkurinn og aðeins hársbreidd (hálfu prósentustigi) frá því að verða stærsti flokkurinn. Í Noregi hefur Framfaraflokkurinn verið leiðandi afl um nokkurt skeið. Í Þýskalandi er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og þriðja stærsta stjórnmálaaflið AfD eða Annar valkostur fyrir Þýskaland. Brexit-flokkurinn varð stærsti flokkurinn í nýliðnum kosningunum til Evrópuþingsins. Árið 2016 var hin franska Le Pen talin næstvaldamesti þingmaðurinn á Evrópuþinginu á eftir sjálfum þingforsetanum Martin Schultz. Gleymum ekki Trump. Jafnaðarmenn hafa líklega fengið ör á hjartað til frambúðar eftir hans kosningasigur.
Ég nefndi þessi dæmi ekki að ástæðulausu en allt voru þetta dæmi um pólitískar afleiðingar þess að stjórnmálamenn hinna rótgrónu stjórnmálaflokka neituðu að horfast í augu við raunveruleikann og gerðu óumbeðna umrótsstefnu að grunnstefi sínu. Svo þegar einstaka kjósendur gagnrýndu var gengið fram með hroka og yfirlæti. Það er ekki að ástæðulausu að hroki telst dauðasynd í Biblíunni.
Það er margt sem bendir til þess að forystusveit Sjálfstæðisflokksins sé að missa tengsl við kjósendur og treysti á Guð og lukkuna í hvert sinn sem gengið er til kosninga. Flokkurinn er aðeins brot af því sem hann var en á árunum 1930-2006 var flokkurinn með 50,4% meðalfylgi hér í borginni.
Í umræðunni um þriðja orkupakkann hefur verið gengið hart að okkur flokksmönnum og við vændir um að vera einangrunarsinnar eða gamalmenni því við teljum að hin íslenska orkustefna hafi reynst þjóðinni vel, þ.e. að hið opinbera eigi virkjanir og útvegi ódýra raforku til fyrirtækja og landsmanna.
Margir góðir félagar hafa hætt í flokknum í kjölfarið af þeirri einföldu ástæðu að þeim var misboðið. Mikill missir er að þeim öllum og starfið innan flokksins verður leiðinlegra án þeirra. Við skulum vona að forystumenn séu farnir að gera sér grein fyrir því að orkupakkanum fylgja pólitískar afleiðingar. Í raun er staðan orðin sú að ef menn sjá ekki að sér og hætta alfarið við innleiðingu þriðja orkupakkans gætu menn verið að festa í sessi alvarlega og djúpa stjórnarkreppu. Þeir stjórnmálamenn sem hafa hátt á samfélagsmiðlum og tala um einhverslags samevrópska ábyrgð í hvert sinn sem Brussel sendir okkur einhverja lagaflækju verða að hafa þetta í huga. Það er ábyrgðarleysi að ganga svo fram af kjósendum að þeir kjósa yfir sig stjórnarkreppu.
Fleiri mál koma upp í hugann en öll eiga það sameiginlegt að uppruni þeirra á heima í umrótsöflum.
Því má halda á lofti, þar sem nær allir stjórnmálamenn segjast „frjálslyndir“ nú til dags, að andstæða íhalds er umrót en andstæða frjálslyndis er stjórnlyndi. Það að vera íhaldsmaður er ekkert annað en að vilja halda í það sem reynst hefur vel og menn geta auðvitað, eins og Jón Þorláksson, verið frjálslyndir íhaldsmenn. Sú gildiseyðing sem talað er fyrir með afnámi helgidaga, afnámi mannanafnahefðar sem er einstök á svo marga vegu, óvirðingu gagnvart lífsrétti barns og fleiri sambærilegum málum er auðvitað ekkert annað en umrót. Grunnhyggin stefna um landamæralausan heim er það einnig og virðist komin langleiðina með að senda hinn frjálsa heim í átt að stjórnlyndi og pólitískri skálmöld.
Það er mjög mikilvægt fyrir okkar fámennu og herlausu þjóð að hafa öflugar landvarnir í löggjöf okkar. Þetta vissu leiðtogar okkar á síðustu öld. Það voru hinir frjálslyndu íhaldsmenn í forystusveit Sjálfstæðisflokksins sem mörkuðu þá stefnu að hið opinbera ætti virkjanir og útvegaði ódýra raforku til fyrirtækja og landsmanna. Sú stefna reyndist farsæl. Það var líka Sjálfstæðisflokkurinn sem setti í lög að aðeins íslenskir ríkisborgarar mættu kaupa hér fasteignir og jarðir. Það var til þess að koma í veg fyrir að þjóðin myndi hægt og rólega enda undir kúgunarvaldi erlendra kaupa-héðna. Fyrir utan það þá getur óhóf og ólög í þeim málaflokki valdið slíkri verðbólu að jarðakaup verða aðeins á fárra forræði.
Nú liggur fyrir að erlendur kaupsýslumaður hefur keypt upp eitt prósent af landinu okkar og gæti með klinki í vinstri vasa auðveldlega keypt upp annað prósent. Sofandaháttur, græðgi eða aðrar dauðasyndir Biblíunnar í þeim málaflokki eru ekki boðlegar og Alþingi þarf að bregðast við strax. Umrótsöfl mega ekki ráða ferðinni í þessum málaflokki. Ekki nema að ætlunin sé að gera Íslendinga að eignalausum indíánum í eigin landi.
Höfundur er lyfjafræðingur og sjálfstæðismaður.