Helgi Seljan fæddist á Eskifirði 15. janúar 1934. Hann lést á Landspítala, Fossvogi, 10. desember 2019.
Foreldrar: Elínborg Kristín Þorláksdóttir húsmóðir á Eskifirði, f. 21.9. 1891, d. 11.1. 1945, og Friðrik Árnason verkamaður og hreppstjóri, f. 7.5. 1896, d. 25.7. 1990. Fósturforeldrar: Jóhanna Helga Benediktsdóttir, f. 14.4. 1908, d. 13.5. 1989, og Jóhann Björnsson, f. 12.9. 1897, d. 1.12. 1892, bændur í Seljateigi við Reyðarfjörð. Öll alsystkini eru látin en þau voru í aldursröð: Halldór, f. 1918, Margrét, f. 1920, Kristinn, f. 1922, Þorvaldur, f. 1923, Helga, f. 1925, Þorlákur, f. 1927, Guðni, 1930, Árný, f. 1932. Hálfsystir samfeðra er Vilborg, f. 4.10. 1946. Fóstursystir er Guðrún Ása Jóhannsdóttir, f. 31.5. 1937.
Eftirlifandi eiginkona Helga er Jóhanna Þóroddsdóttir, f. 11.1. 1934 í Víkurgerði í Fáskrúðsfirði. Foreldrar hennar voru Anna Hildur Runólfsdóttir húsmóðir, f. 12.7. 1900, d. 12.10. 1985, og Þóroddur Magnússon útvegsbóndi, f. 6.11. 1895, d. 17.8. 1956. Börn Helga og Jóhönnu eru 1) Helga Björk, f. 11.9. 1955. Synir með Herberti Harðarsyni: Hörður Seljan og Hannes Rúnar, barnabörnin tvö. 2) Þóroddur, f. 8.9. 1956, giftur Hildi Magnúsdóttur. Börn: Jóhanna Seljan, móðir: Inga Margrét Árnadóttir, Snær Seljan og Hjördís Helga Seljan, barnabörnin sex. 3) Jóhann Sæberg Seljan, 11.10. 1957, giftur Ingunni Karítas Indriðadóttur. Synir Helgi Seljan og Hákon Unnar Seljan, barnabörnin þrjú. 4) Magnús Hilmar, f. 27.12. 1958, giftur Sólveigu Baldursdóttur. Börn: Stella Sigurbjörg, Baldur Seljan og Magnús Guðlaugur, barnabarn eitt. 5) Anna Árdís, f. 28.11. 1964, gift Indriða Indriðasyni. Börn: Hildur Seljan, Steinunn Díana, Arnar Freyr og Indriði Freyr, barnabörnin fjögur.
Helgi ólst upp í Seljateigi við Reyðarfjörð og gekk í Barnaskóla Reyðarfjarðar. Hann tók landspróf frá Alþýðuskólanum á Eiðum 1950 og kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1953. Helgi kenndi tvo vetur á Búðum í Fáskrúðsfirði og sjö vetur við Barna- og unglingaskóla Reyðarfjarðar. Helgi var skólastjóri á Reyðarfirði frá 1962 til 1971 og sat í hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps 1962-1966 og 1970-1978. Árið 1958, þegar Helgi var 22 ára gamall, fór hann fyrst inn á Alþingi og varð síðan þingmaður Alþýðubandalagsins í 16 ár frá 1971 til 1987. Helgi var forseti Efri deildar í fjögur ár og fjögur ár fyrsti varaforseti Sameinaðs Alþingis. Helgi var félagsmálafulltrúi og ritstjóri fréttablaðs Öryrkjabandalags Íslands 1988 og síðan framkvæmdastjóri þess til 2001. Helgi sat í bankaráði Búnaðarbankans frá 1973 til 1986. Helgi var virkur í félagsmálum. Hann stofnaði Barnastúkur á Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði og var formaður Sambands bindindisfélaga í skólum 1952-1953, formaður Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar í 1958-1966, sat í stjórn Leikfélags Reyðarfjarðar 1959-1968 og í stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga 1968-1974, þar af tvö ár sem formaður. Þá starfaði Helgi ötullega fyrir félag eldri borgara í Reykjavík. Helgi gaf út bæði ljóðabækur og bækur um gamanmál og skrifaði ótal greinar í blöð og tímarit.
Útför hans fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 20. desember 2019, klukkan 13.

Maður á alltaf að gera rétt, líka þegar það er erfitt. Ég get ómögulega munað hvort að afi minn og nafni las þessa hendingu upp fyrir mig eða hvort hún er einfaldlega frá honum sjálfum kominn. Hún hefur hins vegar sótt á mig síðustu vikur. Og einhvern veginn rammar hún inn fyrir mig það veganesti sem þau afi minn og amma, læddu í vasa okkar barnabarnanna á leið okkar út í lífið. Rétt eins og þegar afi laumaði til okkar aur, eins og hann kallaði það.
Afi er dáinn. Jafnvel þó það hafi átt sér aðdraganda og fyrir nokkru verið fyrirséð í hvað stefndi, bæði honum og öðrum, er það að skrifa þessi orð enn svo fjarstæðukennt. Mínar fyrstu minningar snúast með einum eða öðrum hætti um hann. Eðlilega. Ég var ekki gamall þegar ég áttaði mig á því að afi minn og nafni var ekki bara þjóðþekktur maður, heldur átti hann líka sérstakan sess í huga flestra sem höfðu af honum einhver kynni. Og þeir voru margir.
Ég hef ekki verið nema nokkurra ára þegar ég fór að fara austur með afa á sumrin. Í flugi. Opal og brenni. Nóg af því. Stundum of mikið jafnvel. Hann svona reffilegur alltaf og sífellt að spjalla við menn og konur. Það voru ekki mörg leikskólabörn sem eyddu starfsdögunum í kaffistofu Alþingis um miðjan níunda áratuginn. En það þótti afa lítið mál. Ég gerði mér grein fyrir því að afi átti að tilheyra einhverju ákveðnu liði á þessum vinnustað. En ég gat ómögulega áttað mig á hverjir væru í óvinaliðinu? Mættu þeir kannski aldrei? Allir voru vinir hans. Sjálfur fékk ég dálæti á Steingrími Hermannssyni. Taldi fram eftir öllu að þeir væru samflokksmenn, hann og afi.
Seinna áttaði ég mig á því að það fólk sem ég hafði mest af að segja eftir þessa starfskynningu mína í þinginu, áttu allir að heita svarnir andstæðingar hans. Og voru það vissulega á þann hátt margir, að lífsskoðanir þeirra stönguðust á. Þess vegna tókust þeir eðlilega oft á, og gáfu ekki afslátt af eigin sannfæringu, en komust þó oft að sameiginlegri niðurstöðu. En þeir voru líka samstarfsmenn hans og félagar.
Þessi eiginleiki afa hafði ekkert með það að gera hversu hart hann sótti sín hjartans mál. Aldrei. Og það sem meira var, hvernig hann sótti annarra manna hjartans mál. Málefni sem oft voru langt í frá líkleg til vinsælda, að minnsta kosti þá og þegar hann tók þátt í að koma þeim á dagskrá. Réttindamál samkynhneigðra, bættur aðbúnaður fanga og barátta hans fyrir því að Íslendingar létu af þeim hrottaskap að fangelsa og þannig pynta geðsjúkt fólk. Ég hálf skammaðist mín fyrir að hafa ekki löngu lesið yfir þingmálalista afa míns, þegar ég gerði það nýlega. Því ekki var hann mikið að rifja hana upp sjálfur. Var enda oft uppteknari af því hverju hann hefði viljað hafa þokað lengra, en því að hafa þó fært það á dagskrá.

Það þótti honum ekki sérstök ástæða til að stæra sig af. Það fylgdi því einfaldlega að gera rétt alveg óháð því hvort í öðrum málum menn vildu svo telja sig til vinstri eða hægri.

Það hefði verið og var ef til vill einhvern tímann freistandi fyrir krumpaðan og baldinn ungling að snúa því upp í ógurlega kvöl og pínu að vera skírður í höfuðið á þessum stóra manni. Hvílíkum skugga sem hann varpaði. En það var einfaldlega ekki hægt. Gamli kennarinn og skólastjórinn, sem hélt aldrei fyrirlestra, hlustaði nefnilega miklu frekar. Og það dugði oft eitt og sér til þess að maður áttaði sig. Þingmaðurinn, sem gat þrátt fyrir allt skipt um skoðun, fengi hann fyrir því rök. Þannig maður var hann afi minn. Afi minn var enda fyrst og síðast vinur minn. Það væri vanþakklátt að þakka ekki þessi fjörutíu ár okkar saman, heldur að einblína á hversu lítinn tíma börnin mín fengu með þér. Jóhann Bessi, sonur minn, var kannski ekki skírður, svona eins og flestir vildu að það hefði verið. En var það samt. Daginn sem þú straukst honum nýfæddum um ennið og sagðir stundarhátt: Sæll Jóhann Bessi var það einfaldega ákveðið hvaða nafn drengurinn skyldi fá. Hvorugt okkar hafði rætt það áður. Og það þurfti ekkert að ræða það.
Takk fyrir okkur afi minn,
Þinn nafni,

Helgi Seljan.