Anna Dóra Frostadóttir sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði segir mikilvægt að læra að lifa í augnablikinu.
Anna Dóra Frostadóttir sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði segir mikilvægt að læra að lifa í augnablikinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjálfun í núvitund og samkennd skýrir hugann að sögn Önnu Dóru Frostadóttur, sálfræðings og sérfræðings í klínískri sálfræði. Hún segir okkur mannfólkið gerð til að lifa af í stað þess að vera gerð fyrir að vera hamingjusöm alltaf. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Anna Dóra hefur sérhæft sig meðal annars í nálgun núvitundar og samkenndar. Hún rekur eigin sálfræðistofu; Núvitundarsetrið, ásamt öðrum fagaðilum sem hafa sérhæft sig í þessum nálgunum. Að hennar sögn er lögð mikil áhersla á að bjóða einungis upp á vísindalega rannsökuð og gagnreynd námskeið.

Anna Dóra segir að það hafi reynst mörgum vel að fara fyrst á grunnnámskeið í núvitund og svo á samkenndarnámskeið í framhaldinu. Sú leið hefur gert þátttakendum kleift að þjálfast fyrst í að læra að beita athyglinni meðvitað, virkja skynfærin, kyrra hugann og sjá hluti skýrar innra með sér þar sem fjallað er um hugsanir, tilfinningar, hvatir og líkamskenndir á grunnnámskeiðinu í núvitund. Svo sé áhugvert að dýpka þekkinguna ennþá meira á samkenndarnámskeiði þar sem þátttakendur öðlast færni í að sjá hlutina í stærra samhengi, taka eftir þessu sammannlega í okkar upplifunum og mýkja og milda viðhorf í eigin garð og annarra.

„Í stuttu máli má segja að hugarþjálfun í núvitund og samkennd skýri hugann og mýki og hlýi hjartanu. Núvitundar- og samkenndarnámskeiðin eru einnig mjög hagnýt að því leytinu til að þau byggjast á reynslunámi þannig að fólki gefst kostur á að læra þessar aðferðir á eigin skinni í stað þess að læra þær bara hugrænt.“

Anna Dóra segir að það sé ánægjulegt að fyrirtæki og stofnanir hafi sýnt þessum námskeiðum aukinn áhuga undanfarin ár.

„Þau hafa óskað eftir þessum námskeiðum eða styttri vinnustofum eða fyrirlestrum um núvitund fyrir starfsmenn sína til að auka vellíðan og hugarró þeirra og stemma þannig stigu við streitu daglegs lífs.

Sum fyrirtæki bjóða meðal annars upp á reglulegar núvitundarstundir fyrir starfsmenn sína sem fagaðili Núvitundarsetursins leiðir. Eitt af ástríðuverkefnum Núvitundarsetursins er að innleiða núvitund í menntakerfið í samræmi við lýðheilsustefnuna. Eftir að starfsmenn Laugarnesskóla höfðu lokið hefðbundnu núvitundarnámskeiði árið 2019 þá lýsti Sigríður Heiða Bragadóttir, skólastjóri Laugarnesskóla, því að þeir starfsmenn sem tóku þátt voru mjög ánægðir og töluðu um að æfingarnar sem voru kenndar á námskeiðinu hefðu haft jákvæð áhrif á vellíðan þeirra og dregið úr streitu. Æfingarnar kenndu starfsmönnum líka hvernig þeir gætu öðlast meiri hugarró og að njóta betur líðandi stundar.“

Heilbrigði hefur áhrif á vellíðan

Anna Dóra kennir jafnframt núvitund í Endurmenntun Háskóla Íslands. Ein af þeim námsbrautum sem hún kennir þar heitir „Hugur og heilbrigði“.

„Sú námsbraut er áhugaverð að mörgu leyti þar sem lagt er upp með heildræna nálgun til að efla andlega og líkamlega líðan. Námsbrautin felur í sér kennslu í þremur meginfærniþáttum sem hafa með núvitund, næringu og hugmyndafræðina ACT (Acceptance Commitment Therapy) að gera. Ég sé um núvitundar-þjálfunina, þar sem lögð er áhersla á að þjálfa athyglina, kyrra hugann, virkja skynfærin, auka sjálfsþekkingu og skýrleika í hugsun. Að leyfa innri visku að birtast í því hvernig við bregðumst meðvitað við í aðstæðum í stað þess að bregðast ósjálfrátt við, eins og af gömlum vana. Það gefur okkur tækifæri til að vanda okkur eins mikið og við getum í lífinu. Okkar helstu sérfræðingar á landinu í næringarfræði og hugmyndafræði ACT (e. Acceptance Commitment Therapy) kenna síðan hina tvo hlutina. Birna G. Ásmundsdóttir næringarfræðingur kennir allt um fæði, næringu, hollustu, mikilvægi heilbrigðrar meltingar og hlutverk þarmaflórunnar. Það hvernig við nærumst hefur heilmikil áhrif á andlega og líkamlega líðan og því mikilvægt að taka upplýstar og meðvitaðar ákvarðanir um hvernig við nærum okkur. Rúnar Helgi Andrason, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði, kennir síðan um hugmyndafræði ACT (e. Acceptance Commitment Therapy). Kjarninn í þeirri nálgun er að við göngumst við þáttum í lífinu sem við höfum ekki stjórn á en tökum um leið meðvitaða ákvörðun um að framkvæma það sem eykur lífsgæði okkar. Markmiðið er að auðga líf okkar og gera það innihaldsríkara. Læra einnig leiðir til að takast á við þær áskoranir sem verða á veginum. Að sögn Önnu Dóru hefur þessi námsbraut gagnast fólki mjög vel og stutt það í að gera þær breytingar á sínu lífi sem eru í samræmi við lífsgildi þess, enda spannar námið nokkra mánuði í stað nokkurra vikna sem gerir þeim kleift að festa þessar nýju daglegu venjur betur í sessi. Fyrirhugað er að bjóða upp á þetta nám á vorönn 2021, en það hefst 26. janúar og verður haldið sem fjarnám til að gera öllum á landinu kleift að taka þátt.“

Aukin andleg vanlíðan í faraldrinum

Aðspurð segir Anna Dóra að hún og kollegar hennar á Núvitundarsetrinu hafi tekið eftir aukinni andlegri vanlíðan hjá skjólstæðingum sínum þegar leið á síðasta ár, sérstaklega í kjölfar þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins.

„Það var mikilvægt að stilla væntingar af í sjálfsvinnu og fyrir suma var það í raun mikill sigur að halda andlegri líðan stöðugri.“

Anna Dóra segist upplifa það að aldrei hafi reynt eins mikið á samfélagslegan stuðning og nú, þar sem ástæður fólks til að leita sér hjálpar hafi verið í auknum mæli andleg vanlíðan út af afkomuótta og atvinnuóöryggi. Fólk hafi upplifað sig oft einmana og vonlaust í þessum óvissuaðstæðum og þurft á andlegum stuðningi að halda en hafi jafnvel ekki haft efni á sálfræðimeðferð og verið því að „leyfa sér“ einn og einn sálfræðitíma hér og þar en hefði í raun þurft mun meiri stuðning. Að hennar sögn hefur þessi reynsla enn betur sýnt fram á mikilvægi þess að huga að andlegri líðan landsmanna og hún segist vona innilega að fjárlög fylgi frumvarpinu um að sálfræðimeðferð falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga, sem var samþykkt á síðasta ári.

„Ég veit um fjölmörg dæmi þess að einstaklingar sem hafa haft kost á sálfræðimeðferð hafa nýtt þessa áskorun, sem heimsfaraldurinn er, sem tækifæri í sjálfsvinnu og persónulegum þroska. Þeir einstaklingar hafa náð virkilega miklum árangri og mögulega meiri árangri en venjulega út af aðstæðum.

Það er svo merkilegt með okkur mannfólkið hvað við erum þrautseig og eflumst sem aldrei fyrr á erfiðum tímum. Því er þessi tími alveg tilvalinn til sjálfsvinnu, aukinnar sjálfþekkingar og að efla þessi bjargráð sem við búum yfir en sem við vitum kannski ekki af og kunnum ekki leiðir til að virkja þau.“

Heilinn virkar til að við lifum af

Anna Dóra segir að grunnáskorun okkar mannfólksins sé fólgin í því hvernig heilinn okkar virkar.

„Hann er því miður ekki víraður til að við séum hamingjusöm heldur þannig að við komumst lífs af. Þannig að út frá þróunarlegu sjónarmiði mun hugur okkar alltaf koma til með að einblína á hættur og ógnir og búa okkur undir hið versta. Þetta er það sem við mannfólkið fáum í vöggugjöf og er ekki okkur að kenna. Það er hins vegar á okkar ábyrgð að vinna með það sem við höfum og því er þessi hugarþjálfun sem felst í núvitundar- og samkenndarþjálfun tilvalin leið til að virkja æðri hugarstarfsemi okkar. Svo við getum meðvitað valið hvort við ætlum að beina athygli okkar að áhyggjuhugsunum um hluti sem við höfum enga stjórn á eða beina athygli okkar að líðandi stundu og þeim tækifærum sem bjóðast hér og nú; með lífshamingju okkar í huga. Eins og svo oft hefur verið sagt þá er núið eini tíminn sem við getum raunverulega stjórnað til að hafa áhrif á lífshamingju okkar. Það eru þessi litlu augnablik sem við náum að vera til staðar á, sem safnast saman í líf okkar í heild, sem skipta mestu máli þegar upp er staðið. Það er svo auðvelt að vera andlega fjarverandi, sérstaklega á erfiðum tímum, flýja aðstæður og okkur sjálf og jafnvel afneita þeim, en þá er í raun aldrei eins mikil þörf fyrir okkur að vera til staðar fyrir okkur, haldast í tengslum við okkur og standa með okkur.“

Að virkja æðri hugarstarfsemi

Að sögn Önnu Dóru er svo mikilvægt fyrir okkur mannfólkið á tímum sem þessum að tengjast innri bjargráðum og virkja æðri hugarstarfsemi, með hagmuni okkar sjálfra og allra að leiðarljósi.

Að lokum má nefna að Núvitundarsetrið hefur í gegnum tíðina boðið almenningi upp á opnar hugleiðslustundir einu sinni í viku en sökum aðstæðna hefur sú þjónusta ekki verið í boði á síðasta ári. En fagaðilar Núvitundarsetursins hafa ákveðið að bjóða öllum sem vilja, upp á hálftíma langar opnar núvitundarstundir, fólki að kostnaðarlausu, í gegnum Zoom á föstudögum frá klukkan tuttugu mínútur yfir tólf til tíu mínútur í eitt.

„Það er hugsað til að styðja fólk við að viðhalda núvitundariðkun sinni og mögulega að kynna hana þeim sem áhuga hafa. Þetta hafa verið erfiðir tímar fyrir marga.“

Núvitundarsetrið og Embætti landlæknis stóðu fyrir viðburði í Hörpu þegar Jon Kabat-Zinn, frumkvöðull á sviði núvitundar í vestrænum heimi, kom til landsins í maí 2018. Fjölmargir sóttu viðburðinn og fengu þannig æfingu í að vera hér og nú með þeim bestu.