HIRÐIR OG HÖFÐINGI Prédikun Ólafs Skúlasonar vígslubiskups í Dómkirkjunni við innsetningu forseta Íslands í embætti Það þykir helzt fréttnæmt, svo eftir sé tekið, sem nýtt er eða óvænt.

HIRÐIR OG HÖFÐINGI Prédikun Ólafs Skúlasonar vígslubiskups í Dómkirkjunni við innsetningu forseta Íslands í embætti Það þykir helzt fréttnæmt, svo eftir sé tekið, sem nýtt er eða óvænt. Endurtekning slævir ekki aðeins athygli, heldur dregur úr eftirvæntingu. Þetta þekkja allir úr eigin lífi. Jafnvel svo, að á stundum þurfum við að ýta við okkur til þess að varðveita tærleika gleðinnar eins og þegar fagnað var svo einlæglega við upphaf. Engum er þó hollt að temja sér það viðhorf, að aðeins hið nýja nái að höfða til hans. Staðfestan mundi gjalda þess, að ekki sé talað um þá eða það, sem sannað hefur gildi sitt en hlýtur að verða að berjast um athygli framhjá þeim hindrunum, sem nýjabrumið ýtir í huga.

Vitanlega dylst engum, að annar var hugur hið fyrsta skipti, sem íslenzkur forseti tók við embætti sínu. Stuttur ferill undir heiti ríkisstjóra vék fyrir þessu tigna sæmdarheiti. Síðan var fram haldið, sem mótað var við upphaf. Og fásinna væri að láta sér detta í huga, þegar núverandi forseti býr sig undir að taka við tignarstöðu sinni við upphaf hins þriðja kjörtímabils, að sömu hughrif ríki og hið fyrsta skiptið. Vart hjá henni sjálfri, og þá mundi hið sama um þegna hennar. En að einu leyti stöndum við betur að vígi en fyrir átta árum. Og sá þáttur í samspili endurtekningar og nýmælis skyldi aldrei vanmetinn. Fyrir átta árum var allt nýtt hjá forsetaefni, líka allt nýtt fyrir þjóð hennar. Ekki aðeins nýr einstaklingur að flytja til Bessastaða og í stjórnarráð, heldur kona að taka þar við, sem karlar höfðu fyrr einir um sýslað. Hlaut því hvort tveggja að höfða til fólks og auka eftirvæntingu með miklum bollaleggingum. Nú átta árum síðar er tíminn ekki óráður og hulinn, heldur hafa árin átta mótað viðhorf okkar, þegar litið er til þeirra fjögurra, sem við væntum. Þannig hefur önnur kennd komið að hlið eftirvæntingar innar, og er henni þó ekkert síðri, en það er viðurkenning með ríkulegu þakklæti á verðleikum þess, sem æðstu stöðunni gegnir. Og því ætti hugur að vera enn hærra upphafinn nú en fyrst var, að við eigum reynslu til að byggja á, þegar við fögnum forseta og fylkjum okkur að baki ástsælum þjóðhöfðingja.

Það þykist ég vita, að umfram öll önnur mannleg viðfangsefni sé það svo með það embætti, sem hér er efst í hvers manns huga, að enginn veit fyrr en reynir, hvers það krefst. Þó má úr fjarlægð gera sér nokkra grein fyrir eðli þess og sjálfsögðum kröfum. Leita ég líka að presta sið langt til baka um leiðbeiningar, þegar huga er beint til þjóðhöfðingja. En í fyrri Kronikubók má lesa þessi orð: "Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar, og þú skalt vera höfðingi yfir þjóð minni." Þekki ég ekki önnur tvö orð, sem að mínu viti túlka betur eðli hugsjónarinnar í starfi þjóðhöfðingja, en þegar hann er í senn hirðir lýðs og höfðingi. Og munu þá allir réttsýnir menn líta til hans með gleði, laðast að honum með stolti og lúta í fúsleika.

Á síðasta hausti sóttum við hjónin þing Alkirkjuráðsins í El Escorial á Spáni, en þar skyldi rætt um samskipti heimshluta og hjálp hinna betur stæðu við þá, sem örlög veita skertan hlut. Á leið frá flugvelli um Madrid-borg sóttist ferðin hægt, slík var umferðin á háannatímanum. Loksins var komið út fyrir borgarmörkin, en niðurinn ómaði enn í eyrum, svo nærri var umferðarþunginn. En vart gátum við trúað eigin augum, þegar hirðir með hjörð sína birtist rétt við hlið bílsins, sem flutti okkur á áfangastað. Var engu líkara en sá væri nýstiginn af blöðum Biblíunnar eða lifandi tákn þeirra mynda sem við höfum svo mörg litið og tengjum liðnum tíma. Veðurbarinn gekk hann í fararbroddi hjarðar sinnar og þar fylgdi fé eftir, svo aðekki virtist nein hætta á því, að lamb heltist úr lestinni. Þótti okkur undarlegt að sjá þarna sambland þess, sem í huga okkar tilheyrir fortíð í svo mikilli nánd samtímans, með hávaða sinn, umferðarhnúta og flýti, jafnvel leiða vegna hægrar farar. En þarna var hirðirinn kominn og hjörðin fylgdi, í slíkri ró og friði, að ekkert virtist mundi trufla, hvað þá æra eða fæla.

Stundum er þjóðhöfðingi settur á bekk með konungum og öðru því, sem sögur varðveita helzt og litinn sem tákn löngu liðins tíma. Sprettur þá fram spurning um þörf fyrir slíkan í samtímanum. Enda beri honum ekki hirð, sem fyrr þótti nauðsyn og spurning um viðfangsefni og afskipti af málum. En þegar nær er skoðað er þarna kominn sá þáttur í samtímanum, þegar vel tekst til, sem sízt má án vera. Þegar þjóðhöfðingi er hirðir, sem fer í fararbroddi þjóðar sinnar og leiðir eftir farsælum stigum, er fátt betra fyrir samtímann og ekkert nauðsynlegra kynslóðum framtíðar. Það er því mikil ábyrgð, sem hvílir á þeim, sem í fararbroddi veitir öðrum fyrirmynd, og þar kominn sá þáttur, sem ég vildi setja efst an, þá viðfangsefni forseta eru metin. Hér skal þess ekki sízt minnzt í þakkarskyni, þegar fordæmi forseta birtist í reglulegri kirkjugöngu og þátttöku í virkri tilbeiðslu safnaðar í söng og bænargjörð. Ekki er heldur sú fyrirmynd síðri, þegar þjóðhöfðingi beygir kné sín sem huga við náðarborð Drottins og þiggur sem aðrir þegnar náð fyrirgefningarinn ar. Fer þar fagurlega saman hreinsun hugar með þeim undirbúningi, sem fylgir, og er farsælt veganesti frekari göngu í fararbroddi.

Herma íbúar staða, sem forseti heimsækir, að gott sé að fá þjóðhöfðingja slíkan sem nú eigum við í heimsókn. Fari þar saman upplyfting hugar á hátíðarstundum með skírskotun til þess, sem sameinar íslenzka þjóð. En sá sé einnig kostur slíkrar heimsóknar, að heimamenn vita vel, að ekki er hægt að bjóða þjóðhöfðingja sínum það, sem endranær mætir kíki við blinda augað. Er því allt fegrað og fágað og það fjarlægt, sem ekki sæmir. Er því staður sem fólk sparibúið, þegar forseti ekur í hlað. Þar fer því enn líkingum hirði og hjörð. Góður hirðir laðar fram hið bezta og býr hjörð sinni það eitt, sem vel gagnar. Og þegar það hefur ítrekað verið gjört, verður það sjálfsagt, svo að annað særir. Þannig getur máttur endurtekningarinnar orðið til þess að athyglin vex, ekkert síður en í aðgæzluleysi, að hún slævist.

En forn texti kveður forystumann þjóðar ekki aðeins hirði, heldur og höfðingja. Sá einn ber þann titil með sóma, sem varðar þá stigu, er heill fylgir og laðar að þeim. Þótti forðum sem saman færi gæfa konungs og gott árferði. Mun reyndar ekki fjarri sanni, að enn þyki líklegt, að heill á einu sviði, laði fram blessun á öðrum. Og er líka sá höfðingi einn sannur hirðir, sem kann að hverfa úr hásæti til að deila kjörum við þá, sem í kring safnast. Ber því hirðir höfuð hátt sem höfðingi, en lýtur líka að þeim, sem lýist á för hjarðar og lyftir í fang sér eða hlúir að með öðrum hætti.

En sízt skyldi okkur skjótast yfir eitt atriði textans úr fornri Kroniku bók. Þar er ekki aðeins talað um hirði og höfðingja þjóðar, heldur notar sá, sem orðin eru lögð í munn eignarfornafnið. Takið eftir: "Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar, og þú skalt vera höfðingi yfir þjóð minni." Hver mælir svo annar en sá, sem upphaf er rakið til, hann sem er skapari himins og jarðar, sá sem mælti og það varð. Hans er þjóðin, höfðingi sem þegnar, hirðir sem hjörð. Íslenzk þjóð má ekki sízt telja það gæfu sína, að nafn Guðs hefur verið hér ákallað og tilbeðið allt frá upphafi, svo að fyrr en föst búseta var hér, var Guði sungið lof og frelsaranum Jesú Kristi lotið. Og hvortheldur það var heill eða hörmung sem einkenndi árin, þá gleymdist ekki Drottins nafn. Vera má jafnvel, að því hafi síður verið gleymt, þegar í móti blés en þá allt gekk fólki í haginn. Er því ekki sízt ástæða fyrir okkur í velmegun ótrúlegri að gæta vel hugar ekki síður en fóta, svo að við rötum ekki í þær ógöngur, að Guði sé gleymt. Er því leiðsögn þjóðhöfðingja á þeim leiðum mikil blessun og fyrirmynd í fararbroddi nokkur trygging gegn gleymsku og ekki sízt ástæða fagnaðar við upphaf hins þriðja kjörtímabils.

Það fylgir því enginn leiði endurtekningu nú, heldur fögnuður og þakklæti. Við þekkjum sögu áranna liðnu og eigum í forseta bæði hirði sem höfðingja og felum árin næstu forsjá Guðs í góðri trú á handleiðslu hans.

Blessi Drottinn Jesús, hinn góði hirðir, Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands, og þegna hennar. Miðli hann henni styrk svo sem verið hefur til að veita vernd hirðisins með góðu vali vegferðar, ásamt fyrirmynd höfðingjans, sem eðlilegt er að líta upp til og sýna aðeins hið bezta. Við felum Guði árin fjögur, já, árin öll og landið hans, Ísland og íslenzka þjóð. Heyrum fyrirmæli hans forseta veitt: "Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar, og þú skalt vera höfðingi yfir þjóð minni."

Í Jesú nafni. Amen.