Jöfur KE 17 í flota Keflvíkinga Fyrsta íslenska fiskveiðiskipið með rækjupillunarvél Keflavík. JÖFUR KE 17, nýtt skip Útgerðarfélagsins Jarls hf. í Keflavík, kom til heimahafnar á föstudag og hélt síðan á úthafsrækjuveiðar.

Jöfur KE 17 í flota Keflvíkinga Fyrsta íslenska fiskveiðiskipið með rækjupillunarvél Keflavík.

JÖFUR KE 17, nýtt skip Útgerðarfélagsins Jarls hf. í Keflavík, kom til heimahafnar á föstudag og hélt síðan á úthafsrækjuveiðar. Jöfur KE 17 var smíðaður í Stálvík, eitt fjögurra raðsmíðaskipa er þar voru smíðuð. Jöfur KE er 256 tonn og kostaði fullbúinn 280 milljónir króna. Um borð er rækjupillunarvél frá Kron borg í Danmörku og verður aflinn fullunninn um borð.

Að sögn Axels Pálssonar framkvæmdastjóra Jarls hf. er Jöfur KE fyrsta íslenska skipið sem er með rækjupillunarvél um borð, en slíkar vélar væru nú í þrem öðrum skipum, þar á meðal einu norsku og einu færeysku. Nú yrði hægt að fullvinna aflann um borð í stað þess að landa rækjunni ópillaðri. Jarl átti fyrir tvo báta, Jarl KE og Jöfur KE, en þeir voru báðir seldir til að fjármagna kaupin á nýja Jöfri.

Skipstjóri og einn eigenda Jöfurs er Snorri Gestsson og sagði hann að skipið hefði reynst vel í reynsluferðinni og hefði ganghraðinn verið um 11 sjómílur. Skipið er útbúið með nýjustu fiskileitar- og siglingatækjum og eru íbúðir allar hinar glæsilegustu. Í áhöfn eru 13 menn, vélstjóri í fyrstu sjóferðinni er Jón Hansson í forföllum Lofts Pálssonar og 1. stýrimaður er Kristján Gíslason.

- BB

Morgunblaðið/Björn Blöndal

Jöfur KE 17 kemur í fyrsta sinn til heimahafnar í Keflavík föstudaginn 29. júlí fánum skrýddur.

Morgunblaðið/Björn Blöndal

Eigendur hins nýja Jöfurs KE 17, Páll Axelsson til vinstri, Birgir Axelsson í miðjunni og til hægri er Snorri Gestsson skipstjóri.