Ávarp frú Vigdísar Finnbogadóttur forseta Íslands í Alþingishúsinu: Markmiðið er að rækta mannorð íslenskrar þjóðar Góðir samtíðarmenn.

Ávarp frú Vigdísar Finnbogadóttur forseta Íslands í Alþingishúsinu: Markmiðið er að rækta mannorð íslenskrar þjóðar Góðir samtíðarmenn. Á þessari stundu, þegar mér er falið embætti forseta Íslands hið þriðja kjörtímabil, er mér efst í huga þakklæti fyrir það traust sem mér er með þeim hætti sýnt. Ég þakka hlýjar árnaðaróskir og kveðjur sem borist hafa víða að. Í þeim felast jafnframt heillaóskir til íslenskrar þjóðar.

Allar kynslóðir í öllum löndum hafa átt sér þann draum að eftir þeim verði munað, að arftakar þeirra telji ómaksins vert að rifja upp hvernig þær hugsuðu og unnu, hvernig menning þeirra var og hverjar voru ástir þeirra og vonir. Og þegar vandi hefur steðjað að nýrri kynslóð hefur líka ávallt verið litið til baka og spurt: Hvernig leystu fyrri tíðar menn sinn vanda?

Hver sem dómur sögunnar kannað verða um fyrstu íslensku lýðveldiskynslóðina á hún það víst að ferill hennar verður grandskoðaður, rýnt í framfaraspor hennar og skoðað hvar hana hefur borið af leið. Því sífellt munu menn spyrja: Hvernig sáu frumherjar íslenska lýðveldisins fyrir sér að mannlíf gæti orðið fegurst og best í landinu? Þetta eigum við sem nú lifum sameiginlegt með fyrstu kynslóðunum í landinu, þeim sem grundvöllinn lögðu að þjóðveld inu forna.

Þetta skapar okkur sérstöðu og leggur okkur afdráttarlausar skyldur á herðar. Við verðum að standa svoað hverju verki að afkomendur okkar og erfingjar geti minnst okkar með virðingu og þökk. Það á að vera okkur brýnt metnaðarmál að komandi kynslóðir segi um okkur: Við erum hreykin af því að hafa átt þessa forfeður (. . . og mæður)!

Þótt horft sé til baka og reynt að draga lærdóma af sögunni er samt hollt að minnast þess að hún endurtekur sig ekki óbreytt. Skáldkonan góða, Halldóra B. Björnsson, vék að því í einu ljóða sinna með þessum orðum:

Forfeður okkar

afar og ömmur

áttu landið

með öðrum hætti en við

þau gengu um það

þreyttum fótum

köldum fótum

og kalsárum

höltum fótum

og holdsveikum

léttum fótum

og lipurtám

og landið áttu þau.

Sú sambúð lands og fólks sem skáldið orðaði hér verður ævinlega jafnvægislist. Alla tíð verðum við að minnast þess að landið sem við höfum tekið í arf er aðeins eign okkar um skamma stund, okkur ber skylda til að skila því í hendur afkomenda okkar ekki aðeins jafngóðu heldur enn betra en það var þegar við tókum við því. Og jafnframt megum við aldrei gleyma því að þetta land á okkur með sínum hætti. Það finnur hver sá sem fer um landið og kann sögu þess, finnur minningarnar leika um sig, finnur að hann á landið og landið á hann.

Á þessu sumri höfum við orðið vör vakningar sem hlýtur að gleðja hvern hugsandi mann. Þeim fjölgar stöðugt sem gera sér ljóst að landið sem við tókum í arf á kröfu til að við ræktum það og varðveitum, færum því aftur þann gróður sem það hefur misst, og beitum til þess allri þekkingu og öllu því hugviti sem við eigum. Þannig gjöldum við landskuld okkar við alnar og óbornar kynslóðir. Vel kann það að vera dómur okkar að liðnar kynslóðir hafi stundum gengið nær landinu en hollast hefði verið en við hljótum líka að geta skilið að þær áttu ekki annarra kosta völ. Þá afsökun eigum við ekki og arftakar okkar munu ekki fyrirgefa okkur á þeim forsendum. Því við eigum að vita hvað við erum að gera, þekkja bæði land okkar og fiskimið, kosti þeirra og þol.

Ekkert í heimi nútímans gefur þjóðum meiri reisn en þekkingin. Þjóð án þekkingar er aflvana. Þekk ingarrík þjóð er voldug. Þekking felur í sér kunnáttu. Hún brýnir skapandi hugsun og verður manninum tæki til þess að velja sér leiðir og aðferðir til verka. Með þekkingu má leysa vanda sem ella sýnist óleysan legur því þekkingin eykur skilning og gefur sýn til margra átta. Og hún verður allar stundir að vera víðtæk. Auk þess að taka til verkkunnáttu og rannsóknarstarfa verður hún einnig og ekki síður að leggja rækt við minningarnar, kunnáttu um líf og sögu liðinna kynslóða, því þannig fær hún sína fegurstu mynd og verður hinn nauðsynlegi lykill mannsins að sjálfsvitund og skilningi á umhverfi sínu.

Eftir kínverska heimspekingnum Konfúsíusi er haft: "Að vita að þú veist það sem þú veist og að vita að þú veist ekki það sem þú veist ekki, það er hin sanna þekking." Vakandi mannshugur er fær um að greina þarna á milli. Það er óendanlega dýrmætt, því ekkert mun geta skapað okkur meiri virðingu um ókomin ár en einmitt þekking sem aðrar þjóðir geta metið og dáðst að í fari okkar. Aðeins í krafti kunnáttu og þekkingar til hugar og handa getum við markað okkur svið í hópi þjóða.

Okkur ber skylda til ræktunar áöllum sviðum, að rækta land, söguog tungu, að rækta sjálfstæði til orðs og æðis. Lýðveldiskynslóðin reis úr öskustó til velmegunar. Aldrei má það verða dómurinn um hana að hún hafi öðlast veraldlegar stóreignir en glatað minningunum í amstri dagsins og látið undir höfuð leggjast að nota andlegt atgjörvi sitt. Hitt er ósk okkar og von að hennar verði minnst sem þeirrar kynslóðar sem lærði að beisla þekkinguna, gerði sérgrein fyrir hvað hún vissi og hvað hún vissi ekki.

Markmiðið er stórbrotið: Að rækta mannorð íslenskrar þjóðar. Að gera öðrum þjóðum ljóst að við erum ábyrgir og hugsandi þegnar í samfélagi þjóðanna, fólk sem er þess virði að við það sé rætt, af því sé lært og við það samið um allt sem máli skipti. Brýnast er að rækta ímynd íslensku þjóðarinnar nú þegar heimurinn umhverfis okkur er að taka stórfelldum breytingum. Þær þjóðir, sem við höfum átt best samskipti við á meginlandi Evrópu og talið til nánustu frændsemi við, skipa sér nú saman í bandalag með nýjum hætti. Eins og skilyrði eru fyrir þátttöku eru til þess auglós rök að við getum ekki átt beina aðild að því Evrópubandalagi sem verður að veruleika innan fárra ára. Hins vegar mun okkur þjóðarnauðsyn að geta átt náin samskipti við þetta bandalag - einmitt með þeim hætti sem hér hefur verið ræddur; þannig að ímynd okkar sé sterk og hrein og skær, að við stöndum frammi fyrir öðrum þjóðum með þá séríslensku ímynd sem umfram allt gefur okkur svipmót sem tekið er eftir. Þessa stöðu getum við best öðlast í krafti þekkingar og með því að sýna öðrum þjóðum að við búum yfir mikilli reynslu og kunnáttu í hverju því sem viðtökum okkur fyrir hendur. Til þessað það megi rætast hljótum við að veita þekkingunni, almennri menntun, ræktun vísinda og skapandi hugsun forgang umfram allt annað í náinni framtíð. Þannig getum við borið höfuðið hátt, fullviss um að okkar verði minnst með virðingu. Megi sú verða gæfa íslenskrar þjóðar.