Kína: Mestu flóð aldarinnar í kjölfar mikilla þurrka 256 hafa farist, margra er enn saknað Peking, Reuter. SKYNDILEG flóð af völdum úrhellisrigningar í suð-austur Kína hafa kostað 256 manns lífið og hundruða er enn saknað.

Kína: Mestu flóð aldarinnar í kjölfar mikilla þurrka 256 hafa farist, margra er enn saknað Peking, Reuter.

SKYNDILEG flóð af völdum úrhellisrigningar í suð-austur Kína hafa kostað 256 manns lífið og hundruða er enn saknað. Úrhellið gekk yfir í héruðum þarsem fyrir viku síðan var óttast að öll uppskera eyðileggðist vegna þurrka.

Síðastliðinn föstudag gerði mikið vatnsveður sem olli verstu flóðum á þessari öld í Zhejiang-héraði. Að minnsta kosti 256 manns létu lífið þegar heilu þorpin þurrkuðust útaf völdum vatnselgsins. Þrjú hundruð manna var enn saknað í gær að sögn Xu Yuchang, yfirmanns almannavarna í Kína.

Starfsmaður hjálparstofnunar Sameinuðu þjóðanna sagði að miklir þurrkar hefðu ógnað uppskeru í héraðinu. Hiti hefur verið svo mikill að mörg hundruð manns hafi látið lífið, aðallega aldraðir. "Regn ið féll á skrælnaða jörðina sem var orðin eins og malbik vegna þurrkana, vatnið seitlaði því ekki ofan í jarðveginn heldur rann vatnsflaumurinn ofanjarðar og skolaði með sér öllu lauslegu," var haft eftir Trevor Page, yfirmanni matvælastofunar Sþ í Peking. Kínverjar hafa ekki beðið um aðstoð vegna flóðanna enn sem komið er að sögn Page.

Talið er að um 30.000 heimili hafi eyðilegst í flóðunum og að um 100.000 manns séu heimilislausir. Vegir, brýr, síma- og rafmagnslínur gereyðilögðust á um 730.000 hektara landssvæði. Talið er að mikill hluti uppskeru sé ónýtur á flóðasvæðunum og hafa stofnanir Sþ þegar hafið skipulagningu hjálparstarfs vegna hugsanlegs uppskerubrests.

Mesta vatnsveðrið var gengið yfir á laugardag en þá höfðu sumstaðar fallið 460 millimetrar regns á einum sólarhring.