Sauðárkrókur: Kiwanismenn gefa sjúkrahúsinu búnað Sauðárkróki. STJÓRN Kiwanisklúbbsins Drangeyjar á Sauðárkróki færði síðastliðinn mánudag Sjúkrahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki myndarlega gjöf, 15 náttborð til nota á ellideild Sjúkrahússins.

Sauðárkrókur: Kiwanismenn gefa sjúkrahúsinu búnað Sauðárkróki.

STJÓRN Kiwanisklúbbsins Drangeyjar á Sauðárkróki færði síðastliðinn mánudag Sjúkrahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki myndarlega gjöf, 15 náttborð til nota á ellideild Sjúkrahússins. Veitti Ólafur Sveinsson yfirlæknir þessari gjöf móttöku fyrir hönd stofnunarinnar.

Í ávarpi sem Sigurgeir Angantýsson flutti við afhendingu gjafarinnar kom fram að Kiwanismenn hefðu ákveðið að minnast 10 ára afmælis klúbbsins á þann hátt að gefa Sjúkrahúsinu einhverja þá hluti er þangað vantaði og í samráði við lækna og hjúkrunarforstjóra hefðu þessi náttborð orðið fyrir valinu. Fram kom að fengist hefðu niður felldir tollar og öll aðflutningsgjöld af borðunum en þau kosta tæpa hálfa milljón króna. Lýsti Sigurgeir þeirri von Kiwanismanna að náttborð þessi kæmu sjúkum, öldruðum á deild 2 að sem bestum notum. Ólafur Sveinsson yfirlæknir veitti og gjafabréf sem þeim fylgdi og þakkaði þessa ágætu gjöf og þann hlýhug sem í gjöfinni fælist. Sagði Ólafur að borðin kæmu að mjög góðum notum, þar sem þau eru sérstaklega ætluð þeim sem eru algerlega rúmliggjandi og sérhönnuð fyrir þá.

Að lokum sátu Kiwanismenn kaffiboð með stjórn Sjúkrahússins, læknum og hjúkrunarforstjórum.

Í viðtali við Hjalta Guðmundsson formann Kiwanisklúbbsins kom fram að þetta væri í fyrsta sinn sem klúbburinn gefur búnað til sjúkrahússins en mikið af starfinu hefði beinst að því að styrkja einstaklinga sem þess hefðu þurft með, vegna ýmissa erfiðleika, til dæmis vegna ferða og dvalar á sjúkrahúsum erlendis. Hins vegar sagði Hjalti að næsta verkefni klúbbsins væri að styðja myndarlega við bakið á ungri og efnilegri sundkonu af Sauðárkróki, Lilju Maríu Snorradóttur, en hún hefur nú unnið sér rétt til þátttöku á Ólympíuleikum fatlaðra í Seoul á þessu ári.

­ BB Morgunblaðið/Björn Björnsson

Stjórn Sjúkrahússins ásamt læknum og stjórn Kiwanisklúbbsins Drangeyjar. Ólafur Sveinsson yfirlæknir heldur á gjafabréfinu.