Keflavíkurkirkja 80 ára Sunnudaginn 19. febrúar verður minnst 80 ára vígsluafmælis Keflavíkurkirkju. Ólafur Oddur Jónsson rekur hér sögu kirkjunnar. ÞANN 14. febrúar eru áttatíu ár liðin frá vígslu Keflavíkurkirkju. Sóknarpresturinn, sr.

Keflavíkurkirkja 80 ára Sunnudaginn 19. febrúar verður minnst 80 ára vígsluafmælis Keflavíkurkirkju. Ólafur Oddur Jónsson rekur hér sögu kirkjunnar. ÞANN 14. febrúar eru áttatíu ár liðin frá vígslu Keflavíkurkirkju. Sóknarpresturinn, sr. Kristinn Daníelsson, prófastur á Útskálum, vígði kirkjuna og hún hefur einnig helgast af mikilli notkun gegnum tíðina. Í ágripi af kirkjusögu í Keflavík, sem Kristján Anton Jónsson, safnaðarfulltrúi, skráði í Afmælisriti Keflavíkurkirkju, er kom út 1985, segir að fólkið hafi þráð helgidóm í heimabyggð.

Bygging kirkjunnar í upphafi aldar var framsækin hugmynd og ánægjulegt hve Keflavíkingar stóðu vel að málum. Þeir lögðu sitt af mörkum til þess að kirkjubyggingin yrði sem veglegust, en aðdragandinn að byggingunni var um margt erfiður.

Óhætt er að segja að Keflvíkingar þrái nýtt safnaðarheimili 80 árum síðar. Kirkjulundur, safnaðarheimili kirkjunnar, er löngu orðinn of lítill, þótt hann hafi gegnt vel sínu hlutverki frá 1971.

Sú teikning, sem nú liggur fyrir af byggingu safnaðarheimilis við kirkjuna, er ekki síður framsækin hugmynd en bygging kirkjunnar. Að vísu hefur verið byggt við kirkjur víða hér á landi í seinni tíð og erlendis hefur það tíðkast lengi. Sú leið svarar best þörfum safnaðanna og er í samræmi við stefnuna í nútíma byggingarlist.

Árið 1967 var kirkjan stækkuð um kórinn og hreyfði enginn andmælum við því. Það hefur því verið byggt við Keflavíkurkirkju áður og lóðin er ekki ósnertanlegt vé í sjálfu sér. Nú hefur verið hugað enn betur að útliti byggingarinnar, þannig að hún falli sem bst að kirkjunni og margir hafa lokið lofsorði á verkið, sem unnið var af arkitektum frá Verkstæði 3, Elínu Kjartansdóttur, Haraldi Ö. Jónssyni og Helgu Benediktsdóttur. Þess ber einnig að geta að aðeins 22% kirkjulóðarinnar eru nýtt þannig að hér er ekki um að ræða byggingu sem er yfirþyrmandi.

Við, sem komum að þessu máli, sóknarnefnd og starfsfólk kirkjunnar, vonumst eftir sem bestri sátt um bygginguna. Við viðurkennum fúslega að það er alfarið í höndum Keflavíkinga hvort safnaðarheimilið verður vígslugjöfin á 80 ára vígsluafmæli kirkjunnar, en um það verður kosið á aðalsafnaðarfundi 26. febrúar.

Það væri fagnaðarefni að færa komandi kynslóðum þá vígslugjöf á afmælisári, í lok aldarinnar, sem vígsla kirkjunnar í upphafi aldar reyndist þeim sem nú lifa. Ungmenni fengu þá 10 aura fyrir tunnuna af grjóti sem fór í kirkjubygginguna. Sum þeirra eru enn á meðal okkar sem þeir lifandi steinar sem mynda kirkju Krists hér á jörð, mönnum til blessunar og Guði til dýrðar og er það þakkarefni.

Á Biblíudaginn, sunnudaginn 19. febrúar, verður vígsluafmælisins minnst. Æska Keflavíkur mun sækja sunnudagaskólann kl. 11 að vanda, en barnastarfið hefur verið blómlegt í Keflavíkursókn árum saman. Hátíðarmessa hefst í kirkjunni kl. 14. Sr. Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup, prédikar og prestar kirkjunnar, sr. Sigfús Baldvin Ingvason og sr. Ólafur Oddur Jónsson, þjóna fyrir altari. Kór Keflavíkurkirkju flytur Mozart messu ásamt hljómsveit undir stjórn organistans, Einars Arnars Einarssonar. Einsöngvarar verða María Guðmundsdóttir, Margrét Hreggviðsdeóttir, Sverrir Guðmundsson og Steinn Erlingsson. Að lokinni messu býður sóknarnefnd í kaffisamsæti í félagsheimilinu Stapa í Njarðvík. Allir eru hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Höfundur er sóknarprestur í Keflavík.

Keflavíkurkirkja.