Siglufjörður: Álögin á Álfhóli ÁLFHÓLL heitir hóll vestan flugvallarins á Siglufirði.

Siglufjörður: Álögin á Álfhóli

ÁLFHÓLL heitir hóll vestan flugvallarins á Siglufirði. Sú saga er til um þennan hól, að þar sé heygður ásamt gull kistli sínum Álfur bóndi sem búið hafi í Saurbæ og hvíli þau álög á hólnum að sé grafið í hann, fari eitthvað úrskeiðis í Siglufirði. 22. júlí var grafið fyrir útsýnisskífu á hólnum og síðan telja sumir að álögin hafi hrinið, þar sem ýmsar framkvæmdir hafi gengið illa í bænum og fleira gengið á afturfótunum.

Að sögn Matthíasar Jóhannssonar, fréttaritara Morgunblaðsins á Siglufirði, urðu gífurlegir vatnavextir í Siglufirði einum eða tveimur dögum eftir að útsýn isskífan var sett upp og hafi þau valdið spjöllum. Þá hafi ekkert veiðst, og gatnaframkvæmdir í bænum gengið frámunalega illa.

Búið var að undirbúa fimm götur í bænum undir malbik. Aðeins tókst að malbika eina vegna þess að malbikunarvélin bilaði skyndilega. Að sögn starfsmanna Loftorku, sem leggja malbikið, virðist vélin hálfónýt.

" Hér trúa margir því að álög séu á Álfhóli og sagt er að fyrir allmörgum árum hafi menn grafið í hólinn, en séð bæinn þá standa í ljósum logum," sagði Matthías.