Skoðun Tímamóta minnst Sextíu ár eru liðin frá því Hákon Bjarnason tók við starfi skógræktarstjóra. Að mati Hauks Ragnarssonar urðu þá söguleg tímamót í skógrækt á Íslandi. HINN 1. mars sl. voru 60 ár liðin frá því að Hákon Bjarnason tók við starfi...

Skoðun Tímamóta minnst Sextíu ár eru liðin frá því Hákon Bjarnason tók við starfi skógræktarstjóra. Að mati Hauks Ragnarssonar urðu þá söguleg tímamót í skógrækt á Íslandi. HINN 1. mars sl. voru 60 ár liðin frá því að Hákon Bjarnason tók við starfi skógræktarstjóra. Þegar horft er um farinn veg, er auðsætt að þá urðu kaflaskil í sögu skógræktar á Íslandi. Deyfð hafði ríkt um þessi mál um árabil, en nú var hafist handa af eldmóði og bjartsýni þótt aðstæður allar væru afar erfiðar í miðri kreppunni. En áður en lengra er haldið, er rétt að gera nokkra grein fyrir uppruna og ævi þessa mæta manns.

Hákon Bjarnason var fæddur í Reykjavík 13. júlí 1907. Hann var elstur barna Ágústar H. Bjarnasonar prófessors og konu hans Sigríðar Jónsdóttur. Stóðu að honum sterkir stofnar. Ágúst var sonur Hákonar Bjarnasonar, kaupmanns á Bíldudal. Systkini Ágústar voru öll landskunn: Brynjólfur kaupmaður, Lárus prófessor og alþingismaður, Þorleifur prófessor og Ingibjörg skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík sem varð fyrst kvenna til þess að sitja á Alþingi Íslands. Faðir Sigríðar var Jón Ólafsson skáld og ritstjóri, bróðir Páls Ólafssonar skálds. Hákon átti því ekki langt að sækja fjölbreyttar gáfur, eljusemi, hugkvæmni og kjark, sem gerðu hann að þeim brautryðjanda, sem hann varð. Á æskuheimili hans var jafnt þjóðleg sem alþjóðleg menning í hávegum höfð og hlaut Hákon í uppvexti það veganesti sem einkenndi hann alla ævi, víðsýni, frjálslyndi og hispursleysi.

Hákon fór í Menntaskólann í Reykjavík þegar hann hafði aldur til og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1926. Hann fór skömmu síðar til Danmerkur til náms. Vorið 1932 lauk hann kandidatsprófi frá skógræktardeild Landbúnaðarháskólans í Kaupmannahöfn. Þá um sumarið starfaði hann hjá Skógræktarfélagi Íslands, aðallega við fyrstu framkvæmdir við gróðrarstöðina í Fossvogi.

Hér er rétt að skjóta því inn, að félagið hafði verið stofnað á Alþingishátíðinni á Þingvöllum sumarið 1930. Veturinn eftir stundaði Hákon framhaldsnám við Landbúnaðarháskólann í Höfn. Hinn 1. maí 1933 hóf hann störf hjá Skógræktarfélaginu á ný og varð nú framkvæmdastjóri félagsins. Eftir að Hákon tók við starfi skógræktarstjóra var hann ólaunaður framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands allt til ársins 1969 og ritstjóri ársrits félagsins 1936-61. Má raunar segja að þessi störf hans hafi verið svo samtvinnuð um langt skeið, að fæstir greindu á milli þeirra.

Aldrei slegið slöku við

Friðun skóglenda hafði verið eitt helsta baráttumál fyrirrennara Hákonar í stöðu skógræktarstjóra, A.F. Kofoed-Hansen. Nú sem áður var friðun efst á blaði, og fyrsta verk Hákonar á því sviði var að sjá um friðun Bæjarstaðaskógar, en það verk var kostað af samskotafé, sem var aflað fyrir forgöngu Skógræktarfélagsins. Þrátt fyrir naumar fjárveitingar voru á næstu árum ýmis stórvirki unnin á vegum Skógræktar ríkisins í þessum málum, og má sem dæmi nefna friðun Þjórsárdals og Haukadals árið 1938. Í þessu sambandi er skemmtilegt að minnast þess, að í Ársritinu 1936 hreyfir Hákon fyrstur manna hugmyndinni um útivistarsvæði Reykvíkinga í Heiðmörk.

Þegar á námsárum sínum var Hákoni það ljóst, að ekki væri hægt að ná verulegum árangri í ræktun nýskóga hér á landi nema með erlendum tegundum, enda var árangur skógræktartilraunanna frá því um aldamótin að koma í ljós um þessar mundir, og styrkti þessa skoðun, þótt misjafn væri. Á námsárum sínum hafði Hákon kynnt sér þær fræðilegu aðferðir sem Norðmenn höfðu byggt á við innflutning trjátegunda frá vesturströnd Norður-Ameríku. Þá þegar gerði hann ýtarlegan samanburð á veðurfari í Alaska og á Íslandi og þegar heim var komið hóf hann fljótlega að reyna að afla fræs frá þeim slóðum, sem hann taldi vænlegastar.

Vegna stirðra samgangna á þessum tímum var þetta afar erfitt. Við þetta bættist, að góð fræár eru fátíð á þeim norðlægu svæðum, sem vænlegust þóttu. Þrátt fyrir þessa erfiðleika átti þessi viðleitni Hákonar eftir að bera ríkulegan árangur innan nokkurra ára, enda ber bréfasafn Skógræktar ríkisins vitni um það, að aldrei var slegið slöku við. En meðan á biðinni stóð, tókst Hákoni að afla frá Vestur- og Norður-Noregi plantna, sem ættaðar voru frá Suðaustur-Alaska. Af þessum uppruna eru elstu og hæstu sitkagrenilundir landsins.

Hákoni var strax ljóst, að þýðingarlaust væri að afla fræs, nema búið væri betur að sjálfu plöntuuppeldinu. Hófst hann því brátt handa um stækkun gróðrarstöðvanna á Vöglum og Hallormsstað, stofnaði nýjan græðireit í Múlakoti í Fljótshlíð, og nokkrum árum seinna stóra gróðrarstöð að Tumastöðum í sömu sveit. Árið 1947, skömmu eftir stofnun Skógræktarfélags Reykjavíkur, tók félagið við gróðrarstöðinni í Fossvogi og jók þá fljótlega plöntuframleiðsluna að mun. Eftirspurn eftir plöntum hafði farið vaxandi árin áður, en henni verið annað með innflutningi skrúðgarðaplantna, aðallega frá Danmörku og Noregi.

Gifturíkt spor

Fjárveitingar á þessum árum voru mjög skornar við nögl eins og áður er getið og launin lág. Meðfram starfi sínu stundaði Hákon því kennslu um nokkra hríð, og þótti snjall kennari. Þá var hann einnig um nokkurra ára skeið forstöðumaður Sauðfjárveikivarna ríkisins meðfram starfi sínu.

Með stofnun Skógræktarfélags Íslands árið 1930 var gifturíkt spor stigið í skógræktarmálum þjóðarinnar, en þrátt fyrir útgáfu ársrits, voru ýmsir óþolinmóðir og fannst róðurinn sækjast seint, og einn þeirra var Hákon. Var hann óþreytandi í því að kynna málefnið bæði í ræðu og riti. Einnig fitjaði hann upp á ýmsum nýjungum í kynningarstarfsemi, sem lítið eða ekki hafði verið beitt hér á landi. Hér er átt við heimildarmyndir þær, sem hann stóð að. "Þú ert móðir vor kær", sem Kjartan Ó. Bjarnason kvikmyndaði árið 1940, "Fagur er dalur", sem Gunnar Rúnar Ólafsson tók 1954 og "Faðir minn átti fagurt land", sem Gísli Gestsson tók og lauk við 1968. Hákon ferðaðist með þessar myndir víða um land, og hélt þá oft fræðandi erindi í því sambandi. Allar þessar kvikmyndir voru mikið sýndar og afar vel tekið. Þær fjölluðu um hlutverk skógarins í varðveislu landgæða, um gróður- og jarðvegseyðingu og endurheimt landgæða.

Hér er komið að málum, sem voru Hákoni mjög hugstæð, skógar- og landeyðingunni, en um þetta fjölluðu nokkrar ritgerðir hans. Fyrst ber að nefna greinina Ábúð og örtröð, sem birtist 1942, en þar færir hann rök fyrir því að búsetan í landinu; gegndarlaust skógarhögg, landníðsla og beit eigi mestan þátt í þeirri gróður- og jarðvegseyðingu, sem hér hefur geisað eftir landnám. Það var ekki efni til vinsælda á þeim tímum að halda þessu fram og ekki laust við að hann yrði stundum fyrir aðkasti af þessum sökum. En hann lét þetta ekki á sig fá og stóð fast við sannfæringu sína. Af síðari greinum hans um þetta efni ber að nefna ágæta grein, sem birtist upphaflega í Tímanum 1952 og nefndist Gróðurrán eða ræktun. Síðari rannsóknir hafa í öllum aðalatriðum staðfest réttmæti kenninga hans.

Hákoni var það ljóst, að skógræktarmálunum yrði aldrei þokað neitt áleiðis nema almennur áhugi og skilningur á þeim væri meðal þjóðarinnar, og taldi að hann yrði best vakinn með áróðri og hlutdeild skógræktarfélaga í landinu. Nokkur héraðsfélög höfðu þegar verið stofnuð, en þeim fór nú fjölgandi og þegar Skógræktarfélag Íslands var gert að sambandsfélagi héraðsfélaga árið 1945, voru þau orðin 17 talsins. Þennan árangur má fyrst og fremst þakka hæfileika og lagni Hákonar til að laða menn til fylgis við málefnið. Mætti hér nefna til fjölda mætustu manna um allt land, þótt ekki verði það gert hér. Samt verður að geta eins manns, Valtýs Stefánssonar ritstjóra Morgunblaðsins, en hann var formaður Skógræktarfélags Íslands um tveggja áratuga skeið. Samvinna þessara tveggja manna var mjög náin öll þessi ár og sú stöðuga umræða sem skógræktarmálin fengu á síðum Morgunblaðsins á þessu skeiði mun hafa átt mjög drjúgan þátt í vaxandi áhuga þjóðarinnar og framgangi þessara mála.

Heimsstyrjöldin síðari tafði nokkuð framgang skógræktar hér, því að þá var erfitt um öll aðföng. En eins og áður er getið hafði Hákon verið í bréfasambandi við menn í Alaska um nokkurt skeið og nú tókst þeim að safna talsverðu magni af sitkagrenifræi frá vænlegum slóðum í Alaska og senda hingað. Því miður komst ekki allt það fræ á leiðarenda, en þá geisaði sem kunnugt er orustan um Atlantshafið og urðu þá miklir skipstapar. Margir lundir eru vaxnir upp af þessu fræi og mörg trjánna prýða nú umhverfi húsa og bæja. Á þessum árum bárust hingað fyrstu græðlingarnir af alaskaösp og voru þeir settir niður í Múlakoti 1944. Hefur öspin dreifst þaðan um allt land og er nú eitt vinsælasta tréð til skjóls og prýði hér á landi.

Landgræðslusjóður

Þegar lýðveldið var stofnað 1944 kom upp sú hugmynd, að minnast atburðarins með stofnun sjóðs, sem aðallega skyldi varið til þess að klæða landið skógi á ný. Í þennan sjóð, sem síðar hlaut nafnið Landgræðslusjóður, söfnuðust 130 þúsund krónur, eða um 1 króna á hvert mannsbarn í landinu, og þótti ýmsum þetta bera heldur lítinn vott um þakklæti þjóðarinnar í garð fósturjarðarinnar. Síðar tókst Hákoni að afla sjóðnum fastra tekna, og var hann um skeið einhver styrkasta stoð skógræktar á Íslandi, einkum með því að standa undir kostnaði við öflun þess fræs, sem gróðrarstöðvarnar þurftu á að halda og lækka þar með plöntuverðið.

Árið 1945 fór Hákon í fræsöfnunarferð til Alaska. Þar náði hann ásamt Vigfúsi Jakobssyni að safna miklu fræi af sitkagreni á nyrsta vaxtarsvæði þess. Kynntist hann þar mörgum mönnum, sem síðar lögðu okkur lið í sambandi við fræöflun.

Við lok styrjaldarinnar opnuðust sambönd austur um haf. Bárust þá fljótlega bæði fræ og plöntur frá Noregi. Nú var lerkið frá Arkangelsk, sem gróðursett hafði verið í Hallormsstaðaskógi skömmu fyrir stríð, heldur betur farið að taka við sér, og var því allt kapp lagt á að útvega fræ af þeim slóðum. Þetta reyndist torsótt og fyrsta fræið, sem upprunnið var í Ráðstjórnarríkjunum, kom hingað frá Noregi. Smám saman urðu þó boðleiðirnar greiðari. Eftir þrotlaus bréfaskipti og mikla hjálp frá Sendiráði Íslands í Moskvu, fékkst oft allmikið af fræi frá Ráðstjórnarríkjunum, þótt ekki væri það alltaf frá þeim svæðum, sem við teljum ákjósanlegust.

Rétt viðbrögð

Gróðursetning Skógræktar ríkisins, skógræktarfélaga og einstaklinga jókst stórlega á fáeinum árum með auknu plöntuuppeldi, og síðar komst jafn skriður á með auknum skilningi fjárveitingavaldsins á nytsemi skógræktarstarfsins. Eins og við var að búast gekk þetta ekki alveg áfallalaust og á það einkum við skógarfuruna, sem brást vonum manna. Lúsategund nokkur lagðist þungt á hana og var ræktun hennar þá hætt. Eins ber að minnast aprílhretsins 1963. Eftir óvenjulega langan hlýviðriskafla á útmánuðum kólnaði mjög snögglega 9. apríl, og má sem dæmi nefna, að í Reykjavík var hitastigið um nónbil +6C en féll niður -8C um miðnætti, eða 14 stiga hitafall á 9 tímum. Hretið gerði mikinn usla í lágsveitum sunnan- og suðvestanlands, einkum á alaskaösp og sitkagreni. Þetta var vissulega mikið áfall, en Hákon lét ekki hugfallast frekar en fyrri daginn og gerði strax ráðstafanir til þess að afla nýrra afbrigða, sem standast myndu slík hret. Við sjáum það núna, 30 árum síðar, hve rétt viðbrögð hans voru, því að af nýju afbrigðunum má nú sjá 10-12 metra háar aspir prýða garða víðsvegar á því svæði, þar sem spjöllin urðu mest.

Þess var áður getið, að Hákon átti auðvelt með að laða menn til fylgis við þann málstað og þau málefni, sem hann barðist fyrir. Menn vissu að honum var alvara og að honum mætti treysta og einhvern veginn færðist þetta traust yfir á þá stofnun sem hann stýrði, Skógrækt ríkisins. Hákon vann alltaf fyrir opnum tjöldum og birti jafnan ársskýrslur stofnunarinnar í Ársriti Skógræktarfélags Íslands og gerði þar góða grein fyrir starfseminni og því hvernig þeim fjármunum var varið, sem honum var treyst fyrir. Hið sama er raunar að segja um ársreikninga Skógræktarfélagsins og Landgræðslusjóðs meðan hans naut við. Um traust þetta má best dæma af þeim fjölda gjafa, sem Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélagi Íslands hafa verið færðar á liðnum árum.

Náin tengsl við Norðmenn

Allt frá því að Hákon varð skógræktarstjóri hafði hann náin tengsl við Norðmenn í sambandi við innflutning plantna og fræs. Eftir heimsstyrjöldina urðu þessi samskipti fljótlega enn meiri og á fleiri sviðum. Þá varð Torgeir Andersen-Rysst sendiherra á Íslandi, en hann hafði mikinn áhuga á að efla þessa samvinnu. Hann og Hákon Bjarnason áttu hugmyndina að skiptiferðum norskra og íslenskra skógræktarmanna.

Fyrsta ferðin var farin 1949 og síðan hafa þessar ferðir verið farnar þriðja eða fjórða hvert ár, og hafa haft meiri þýðingu fyrir skógrækt á Íslandi en flesta grunar. Andersen-Rysst sagði gjarna að landnámsmennirnir hefðu gleymt að taka með sér norska furu- og greniskóginn, þegar þeir fluttu búferlum til landsins, og fyrir þetta yrðu Norðmenn að bæta. Hóf hann að leggja drög að þjóðargjöf Norðmanna, sem varið skyldi til skógræktarmála á Íslandi. Andersen-Rysst lést áður en þetta hafði tekist, en vinir hans báru málið fram til sigurs. Árið 1960 færði Ólafur V. Noregskonungur Íslendingum þessa gjöf, 1 milljón norskra króna. Fyrir hluta þjóðargjafarinnar var Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá byggð, en hluti var settur í sjóð, sem styrkir skiptiferðir Norðmanna og Íslendinga.

Verkin tala

Hér hefur verið stiklað á stóru og að mestu um fyrri hluta starfsævi Hákonar Bjarnasonar. Nú voru verkin farin að tala sínu máli. Skilningur á skógrækt og gróðurvernd fór vaxandi hjá miklum hluta þjóðarinnar og hagur skógræktarinnar batnaði smám saman á flestum sviðum. Þó var ýmislegt, sem olli áhyggjum. Vegna óhóflegra niðurgreiðslna og útflutningsbóta jókst sauðfjáreign landsmanna stórkostlega á sjöunda og áttunda áratugnum, og mun hún einmitt hafa náð hámarki um þær mundir er Hákon lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1977. Af þessu hlutust víða mikil landþrengsli og örtröð í högum, sem leitt gátu til landspjalla. Þetta olli vonbrigðum og var í sjálfu sér mikið áhyggjuefni, og fyrir bragðið lá land til skógræktar víðast hvar ekki á lausu. Þetta átti eftir að breytast mikið á níunda áratugnum, þegar segja má að gamla styrkjakerfið hafi hrunið og nýjar búgreinar brugðist. Þá var loks farið að horfa til skógræktar sem vænlegrar stoðgreinar landbúnaðarins í framtíðinni. Við það varð eftirleikurinn auðveldari.

Það mun hafa verið snemma sumarið 1938 að ég sá Hákon Bjarnason fyrst. Það var austur á Laugarvatni og ég á níunda ári. Hann var þar á bíl Skógræktar ríkisins, sem knúinn var með viðarkolagasi. Erindi hans var að gróðursetja furuplöntur fyrir ofan héraðsskólann. Ég var að sniglast þarna kringum gróðursetningarfólkið. Mér er þetta mjög minnisstætt og fannst mér ég aldrei hafa séð fríðari og vasklegri mann, og svo var hann svo kvikur í hreyfingum og hispurslaus í tali við hvern sem var. Síðar áttum við eftir að verða samferða um alllangt skeið og ekki breyttist þetta álit mitt við það. Auðvitað færðist aldurinn yfir hann eins gengur og hann varð ekki alveg jafn léttur í spori, en hugurinn var alltaf hinn sami, hann eltist ekki, var frjór og síungur.

Hákon var ágætlega ritfær. Stíll hans var látlaus, skýr og rökfastur og laus við alla skrúðmælgi. Eftir hann liggur fjöldi ritgerða um margvísleg efni, skýrslur og blaðagreinar, fræðslubækur og bæklingar. Hann var ágætur fyrirlesari og mjög vinsæll útvarpsmaður, talaði skýrt og skorinort og fór ekki dult með skoðanir sínar.

Hákon Bjarnason var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Guðrún Magnúsdóttir en þau slitu samvistir. Síðari kona Hákonar var Guðrún Jónsdóttir frá Akureyri. Þau bjugga alla tíð á Snorrabraut 65 í Reykjavík við mikla rausn, og býr Guðrún þar raunar enn. Hús þeirra stóð ávallt opið vinum þeirra og kunningjum. Þau hjónin höfðu yndi af því að umgangast fólk og gestrisni þeirra var rómuð. Þessa nutum við starfsmenn Skógræktar ríkisins í ríkum mæli og stöndum æ síðan í þakkarskuld við þau hjón.

Hákon Bjarnason var lengst af ævinnar heilsuhraustur, en allra síðustu árin átti hann við vanheilsu að stríða. Hann lést hinn 16. apríl 1989.

Höfundur er skógfræðingur og skógarvörður á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Haukur Ragnarsson

HÁKON Bjarnason, ötull baráttumaður í blóma lífsins.