8. september 1988 | Innlendar fréttir | 286 orð

Ferðaskrifstofa Íslands hf. stofnuð: Óskandi að selja megi allt hlutafé ríkisins

Ferðaskrifstofa Íslands hf. stofnuð: Óskandi að selja megi allt hlutafé ríkisins ­ segir Matthías Á. Mathiesen samgönguráðherra FERÐASKRIFSTOFA Íslands hf. var stofnuð síðdegis í gær á fundi hluthafa og starfsmanna Ferðaskrifstofu ríkisins með...

Ferðaskrifstofa Íslands hf. stofnuð: Óskandi að selja megi allt hlutafé ríkisins ­ segir Matthías Á. Mathiesen samgönguráðherra

FERÐASKRIFSTOFA Íslands hf. var stofnuð síðdegis í gær á fundi hluthafa og starfsmanna Ferðaskrifstofu ríkisins með samgönguráðherra, starfsmönnum ráðuneytisins og fulltrúum Ferðamálaráðs. Hið nýja félag tekur við rekstri Ferðaskrifstofu ríkisins, sem lögð hefur verið niður, 1. október. Þá verður eignarhluti hvers hluthafa ljós en 24 starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins hafa undirritað kaupsamning um tvo þriðju hluta í fyrirtækinu. Stofnfé hlutafélagsins er 21 milljón króna en þar er um að ræða eignir Ferðaskrifstofu ríkisins og fylgifé að frádregnum 7,4 milljóna skuldum.

Samgönguráðherra, Matthías Á. Mathiesen, lýsti stofnun hins nýja hlutafélags í samræmi við lög frá 20. maí síðastliðnum og las upp stofnskrá þess á fundinum. Í henni segir meðal annars að starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins og hótelstjórar Edduhótela hafi forkaupsrétt að þeim hlutabréfum sem samgönguráðuneytinu er heimilt að selja, fyrir 14 milljónir króna. Einnig að starfsmönnum ferðaskrifstofunnar skuli gefinn kostur á sambærilegum störfum við hið nýja fyrirtæki. Samgönguráðherra óskaði Ferðaskrifstofu Íslands góðs gengis og sagði óskandi að í framtíðinni mætti selja allt hlutafé ríkisins í fyrirtækinu.

Kjartan Lárusson, forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins, sagði í ávarpi sínu að stökkið úr lygnum sjó ríkisgeirans yfir í öldusjó viðskiptalífsins væri stórt. Hann þakkaði samstarfsmönnum á ferðaskrifstofunni, ráðherra og starfsmönnum samgönguráðuneytisins. Líkur benda til að Kjartan gegni áfram sama starfi við hið nýja fyrirtæki.

Aðalstjórn hlutafélagsins var kosin á fundinum í gærdag en hana skipa Hreinn Loftsson fyrir hönd samgönguráðuneytisins, Auður Birgisdóttir og Ingólfur Pétursson fyrir hönd nýrra eigenda. Þá var kjörin varastjórn þeirra Ragnhildar Hjaltadóttur, Ernu Þórarinsdóttur og Guðmundar Kristinssonar.

Morgunblaðið/Sverrir

Matthías Á. Mathiesen samgönguráðherra óskar Kjartani Lárussyni til hamingju með nýtt hlutafélag en á milli þeirra stendur Birgir Þorgilsson ferðamálastjóri.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.