VÖGGUVÍSUR og önnur róandi tónlist getur haft jákvæð áhrif á líkamsstarfsemi fyrirbura. Nýlega var gerð þriggja daga rannsókn á fyrirburum við Kvennaspítalann í Baton Rouge í Louisiana. Tíu fyrirburar voru látnir hafa vasadiskó með rólegum vögguvísum á meðan aðrir tíu fyrirburar höfðu bara venjuleg hljóð nýbura- eða vökudeildar að hlusta á.
Vögguvísur í

vasadiskói höfðu

jákvæð áhrif á fyrirbura

VÖGGUVÍSUR og önnur róandi tónlist getur haft jákvæð áhrif á líkamsstarfsemi fyrirbura.

Nýlega var gerð þriggja daga rannsókn á fyrirburum við Kvennaspítalann í Baton Rouge í Louisiana. Tíu fyrirburar voru látnir hafa vasadiskó með rólegum vögguvísum á meðan aðrir tíu fyrirburar höfðu bara venjuleg hljóð nýbura- eða vökudeildar að hlusta á.

Í nýju júlíhefti heilsutímaritsins Prevention kemur fram að rannsóknin hafi sýnt að þegar vögguvísurnar hljómuðu í eyrum fyrirburanna var meira magn af súrefni í blóði þeirra en ella og hjartsláttur og öndun var eðlilegri en hjá hinum tíu fyrirburunum sem ekkert vasadiskó höfðu.

Steven Spedale, aðstoðarframkvæmdastjóri nýburadeildarinnar við Baton Rouge, segir að ljúf tónlist hafi róandi áhrif á sum börn og kannski ekki síst þar sem hún útilokar önnur óþægileg hljóð í umhverfinu. Hann segir frekari rannsókna þörf áður en hægt sé að mæla með tónlistinni á nýburadeildum almennt og bendir jafnframt á að sum lítil börn þoli illa allt áreiti frá umhverfinu, jafnvel ljúfa tónlist.

Foreldrum heima er einnig ráðlagt að bíða með að setja vasadiskó á ungbörnin því sérstaklega þarf að gæta að því hversu hátt tónlistin er stillt og fyllsta öryggis þarf að gæta með snúrur og tæki.

"Fram til þessa hafa margir talið að sem minnst áreiti væri best fyrir fyrirbura en þessi rannsókn bendir til að það viðhorf geti verið á undanhaldi og þessi rannsókn gefur kannski tilefni til enn frekari athugana."