9. ágúst 1995 | Aðsent efni | 1401 orð

Launakjör háskólakennara

UNDANFARIÐ hafa orðið nokkrar umræður um laun háskólakennara hér í Morgunblaðinu í framhaldi af frétt um lektorsstöðu í ensku. Fram kom að erlendir háskólamenn hefðu haldið að prentvilla væri í auglýsingu stöðunnar, það hvarflaði ekki að neinum í hinum engilsaxneska heimi að lektorslaun við HÍ væru jafn lág og raun ber vitni.
Launakjör háskólakennara

Hér verður ekki rekinn háskóli nema starfsfólk hans fái mannsæmandi laun. Guðvarður Már Gunnlaugsson fjallar hér um launakjör háskólakennara.

UNDANFARIÐ hafa orðið nokkrar umræður um laun háskólakennara hér í Morgunblaðinu í framhaldi af frétt um lektorsstöðu í ensku. Fram kom að erlendir háskólamenn hefðu haldið að prentvilla væri í auglýsingu stöðunnar, það hvarflaði ekki að neinum í hinum engilsaxneska heimi að lektorslaun við HÍ væru jafn lág og raun ber vitni. Því miður er það svo að margir gera sér ekki grein fyrir launum háskólakennara og halda að þau séu mun hærri en þau eru í raun og veru. Það er því ekki úr vegi að birta hér nokkrar upplýsingar um launakjör háskólakennara.

Byrjunarlaun lektors með kandídatspróf eða sambærilega menntun eru 81.012 kr. á mánuði og er þá miðað við að lektorinn sé ungur og reynslulítill. Þess ber þó að geta að laun háskólakennara, eins og svo margra annarra, hækka eftir aldri og starfsaldri og er töluverður munur á launum ungs byrjanda og manns með meira en 20 ára starfsaldur með sama starfsheiti. Einnig verður að gæta þess að laun lektora miðast við menntun þannig að doktorar fá aðeins hærri laun en þeir sem eru með kandídatspróf. En það eru ekki einungis laun lektora sem eru hróplega lág, laun dósenta og prófessora eru ekki heldur til að hrópa húrra yfir. Byrjunarlaun dósents eru 97.672 kr. á mánuði en prófgráður skipta ekki máli í launum dósenta og prófessora. Hæst geta prófessorar komist í 139.177 kr. á mánuði eftir langt ævistarf, það er nú allt og sumt!

Þegar rætt er um kaup og kjör kemur oft fram að lítið sé að marka dagvinnulaunin ein og sér, menn fái oft greidda unna og/eða óunna yfirvinnu og hafi ýmis hlunnindi umfram greidd dagvinnulaun. Vissulega eru sumir háskólakennarar í þeirri aðstöðu að þeir fá greidda yfirvinnu fyrir kennslu, en í mörgum deildum er kennsluyfirvinna lítil sem engin, niðurskurður síðustu ára hefur séð til þess. Sigrún Klara Hannesdóttir, prófessor, rakti ágætlega í grein hér í Morgunblaðinu nýlega hvernig yfirvinna fyrir rannsóknir er greidd, en um hana er það að segja að innan við helmingur félagsmanna í Félagi háskólakennara hefur fengið greidda yfirvinnu við rannsóknir og þeir sem hafa fengið verk sín metin til yfirvinnu hafa aldrei fengið nema brot af því sem þeir eiga rétt á samkvæmt mati. Og svo má ekki gleyma því að lífeyrissjóðsgjöld eru aðeins tekin af dagvinnulaunum en ekki yfirvinnu eða öðrum tekjum, sem þýðir mun lægri eftirlaun en ella.

Háskólakennarar hafa verið seinþreyttir til vandræða og ekki mikið heyrst til þeirra þegar rætt hefur verið um kaup og kjör. En það eru takmörk fyrir öllu. Nú er svo komið að vel menntað ungt fólk er farið að hika við að sækja um starf hjá Háskóla Íslands og stofnunum hans. Ástæðan er lág laun og í sumum tilvikum einnig aðstöðuleysi. Hugsum okkur ungan mann (karl eða konu) um þrítugt sem býr erlendis. Hann hefur nýlokið doktorsnámi á sérsviði sínu en skuldar Lánasjóði íslenskra námsmanna nokkrar milljónir króna, segjum þrjár milljónir. Þá er auglýst lektorsstaða við HÍ laus til umsóknar á sérsviði hans. Hann er hvattur til þess af félögum sínum á Íslandi að sækja um stöðuna. Fjölskylda og vinir hvetja hann til að flytja heim, en hann hikar við. Hvað bíður hans hér heima? Hann fengi 86.780 kr. á mánuði í laun og litla sem enga yfirvinnu. Ekkert húsnæði bíður og ekki beint kræsilegt að byrja á öllu í einu, í nýrri vinnu, kaupa eða leigja íbúð o.s.frv. Og hann á ekki bót fyrir rassinn á sér, en skuldar þess meira. Staða hans er miklu betri erlendis. Þar getur hann, ef hann er heppinn, komist fljótlega í góða stöðu við háskóla með að minnsta kosti 100% hærri laun (200% er trúlega nær lagi) en við HÍ. Láir einhver þessum manni þótt hann þakki pent fyrir sig og segist ekki flytja heim á næstunni? Reyndar er það svo að merkilega margir íslenskir námsmenn hafa flutt heim þrátt fyrir þessar aðstæður og hafa þá líklega fjölskylda og átthagar verið öllu öðru yfirsterkara. En hversu sterk er föðurlandsást ungra Íslendinga nú til dags?

Háskóli Íslands hefur af þessum sökum lengi átt í vissri samkeppni við háskóla erlendis um hæft starfsfólk og sumar deildir hans hafa verið í samkeppni á innlendum vinnumarkaði, það á til dæmis við um verkfræðinga. Ég á bágt með að sjá að það takist að manna prófessorsstöður við verkfræðideild eða raunvísindadeild á næstunni, nema kjör háskólakennara batni verulega, vegna þess að þeir sem koma til greina að fá þessar stöður geta fengið miklu hærri laun annars staðar. En um þessa samkeppni um hæft fólk var vitað, en nú er kominn til sögunnar nýr samkeppnisaðili sem ekki var vitað um áður; framhaldsskólinn! Nú er svo komið að það er betur borgað að vera kennari við framhaldsskóla en lektor við HÍ, það getur jafnvel borgað sig fyrir dósenta við HÍ að hætta við háskólann og fara að kenna við framhaldsskóla. Framhaldsskólarnir myndu örugglega taka þeim fagnandi. Er nema von þótt háskólakennurum sé nóg boðið? Ekki vegna þess að þeir telji að framhaldsskólakennarar séu yfirborgaðir heldur vegna þess þeir telja að meiri menntun og meiri kröfur til menntunar og rannsóknastarfa eigi að koma fram í hærri launum háskólakennara. Og margir sóknarprestar á landinu eru með hærri dagvinnulaun en dósentar við HÍ og eru þeir þó ekki ofaldir. Er ekki sanngjarnt að þeir sem mennta framhaldsskólakennara og presta séu á hærri launum en byrjendur í hópi þeirra síðastnefndu? Fyrir um það bil 20 árum voru héraðsdómarar og prófessorar við HÍ á svipuðum launum. Nú eru prófessorarnir með 139.000 kr. á mánuði hæst, en héraðsdómararnir með 256.000 kr. á mánuði (þar af eru 64.000 kr. föst yfirvinna)! Hvað hefur eiginlega gerst?

Félag háskólakennara er þrátt fyrir nafnið ekki einungis félag háskólakennara, þ.e. lektora, dósenta og prófessora, heldur eru einnig í félaginu nánast allir sérfræðingar á stofnunum HÍ, svo sem Orðabók Háskólans, og stofnunum í tengslum við hann, t.d. Raunvísindastofnun HÍ, (kallaðir sérfræðingar, fræðimenn og vísindamenn). Auk þessa fólks, sem er í rannsóknastöðum, eru fastráðnir stundakennarar í félaginu og margir háskólamenntaðir starfsmenn Þjóðarbókhlöðunnar og stjórnsýslu háskólans. Félagið hefur líka skyldur við þetta fólk og hefur náttúrulega reynt að rækja þær eins og kostur er.

Félag háskólakennara hefur verið með lausa samninga síðan um áramót. Lítið hefur gerst síðan, nokkrir fundir verið haldnir með mönnum úr samninganefnd ríkisins, en lítið sem ekkert komið út úr þeim. Félagið lagði fram kröfur í nokkrum liðum þar sem aðaláhersla var lögð á talsverða hækkun grunnlauna. Samninganefnd ríkisins svaraði með tilboði en það var svo lágt að samninganefnd félagsins taldi það naumast svaravert og ítrekaði fyrri kröfur um hækkun grunnlauna. Allt hefur þetta tekið óskaplega langan tíma, það hefur ekki virst vera mikill áhugi hjá fjármálaráðuneytinu að ganga til samninga við félögin innan BHMR. Og nú dregst allt þetta starf enn á langinn vegna sumarfría. En þegar sumarfríin eru yfirstaðin verður að taka á þessu máli. Samninganefnd ríkisins verður að koma með alvöru tilboð (best væri náttúrulega að hún gengi að kröfum félagsins í einu og öllu). Ég sagði hér að framan að háskólakennarar væru seinþreyttir til vandræða en mælirinn er orðinn fullur hjá flestum þeirra. Ég hef heyrt um prúðustu og löghlýðnustu menn sem eru farnir að hóta að prófa ekki í haust ef ekkert hefur breyst til batnaðar og stjórn félagsins er farin að tala í alvöru um að boða til einhverra aðgerða, svo sem verkfalls, ef samningaviðræður dragast enn á langinn. Við í stjórn og samninganefnd félagsins teljum okkur ekki kosin til að taka náðarsamlegast við molum sem að okkur er rétt. Við krefjumst hærri launa.

Stjórnvöld verða að horfast í augu við þá staðreynd að hér verður ekki rekinn háskóli nema starfsfólk hans fái mannsæmandi laun, laun sem taka tillit til þess hve miklu þetta fólk hefur kostað til til að ná þeirri færni sem ætlast er til og þarf til að starfa við háskóla. Menntamálaráðherra hefur lýst yfir því að flatur niðurskurður komi sér illa, ekki dugi lengur að skera jafnt niður fjárveitingar til allra stofnana ríkisins. Ég tek heils hugar undir með ráðherranum, það á að reka stofnanir með myndarbrag í stað þess að svelta þær. Þetta viðhorf ráðherrans bendir til að stjórnvöld hafi nú séð að sér, en það er ekki nóg að stöðva niðurskurðarþróunina og hætta að skerða fjárveitingar til stofnana ríkisins, það verður líka að hækka laun starfsfólks þessara stofnana.

Höfundur er sérfræðingur á Stofnun Árna Magnússonar og formaður Félags háskólakennara.

Guðvarður Már Gunnlaugsson

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.