FELA á menntamálaráðherra að skipa nefnd um mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun, bæði prent- og ljósvakamiðlun, samkvæmt þingsályktunartillögu sem Lilja Á. Guðmundsdóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmenn Þjóðvaka, hafa mælt fyrir á Alþingi.
Málefni fjölmiðla rædd á Alþingi Tillaga um opinbera

stefnu í fjölmiðlun

FELA á menntamálaráðherra að skipa nefnd um mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun, bæði prent- og ljósvakamiðlun, samkvæmt þingsályktunartillögu sem Lilja Á. Guðmundsdóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmenn Þjóðvaka, hafa mælt fyrir á Alþingi.

Samkvæmt tillögunni á markmið þessarar stefnu að vera þríþætt.

a. að standa vörð um tjáningarfrelsi sem hornstein lýðræðis.

b. að tryggja almenningi aðgang að alhliða, málefnalegum og faglegum upplýsingum.

c. að efla íslenska tungu og menningu.

Lilja Á. Guðmundsdóttir sagði, þegar hún mælti fyrir tillögunni á fimmtudag, að lýðræðisþjóðfélagið byggðist m.a. á tjáningarfrelsi og rétti almennings til að hafa aðgang að aðhliða málefnalegum og faglegum upplýsingum. Í þannig þjóðfélagi gegni fjölmiðlar lykilhlutverki.

Lilja sagði ótrúlegar breytingar hafa orðið á sviði fjölmiðlunar og upplýsingatækni á undanförnum árum. Landamæralaus auglýsingatækni hafi haft djúptæk áhrif á þjóðfélagið og sífellt fleiri hafi aðgang að alþjóðlegu fjölmiðlaefni. Í æ ríkari mæli sé litið á upplýsingar sem vöru þótt það sé hið félagslega, pólitíska og fjárhagslega vald sem sker úr hvernig upplýsingatæknin sé virkjuð og hvers konar upplýsingum sé komið á framfæri.

Eftir að einkaréttur Ríkisútvarpsins var afnuminn hefur einkareknum útvarpsstöðvum fjölgað hérlendis, eins og annarstaðar. Útvarpsstöðvar reknar fyrir auglýsingafé hafa fest sig í sessi. Lilja sagði að af þessum sökum hafi fjölmiðlamarkaðurinn breyst. Hagnaðarsjónarmið og auglýsingamennska hafi orðið meira áberandi. Fjölmiðlun hafi fengið á sig alþjóðlegan blæ og knúið fram sífellt meiri alþjóðahyggju sem hafi haft djúpstæð áhrif á íslenskt þjóðlíf og menningu.

"Fjölgun útvarpsstöðva hefur ekki haft í för með sér fjölbreytni í efnisvali. Nýju útvarpsstöðvarnar bjóða nær eingögnu upp á einhæft afþreyingarefni. Hið sama gildir um sjónvarpsstöðvarnar eins og Stöð 2. Þar er engilsaxnesk framleiðsla nær einráð. Hin væntanlega Stöð 3 virðist ætla að fylgja svipaðri dagskrárstefnu. Sjónvarpsstöð, sem dreifir svipuðu efni og myndbandaleigur gera, virðist vera sú tegund sjónvarpssöðva sem gefur mest í aðra hönd," sagði Lilja.

Fábreyttari dagskrá

Lilja sagði einnig að hætt sé við að samkeppni um hlustendur og áhorfendur til að ná hylli auglýsenda leiði til þess að dagskrár stöðvanna verði fábreyttari og einnig sérhæfðari; sífellt fámennari hluti þjóðarinnar muni fylgjast með sama miðlinum eða þættinum sem leiði til þess að þekkingarsamnefnari þjóðarinnar muni minnka og hagsmunir einstaklinganna verði sundurleitari. Afleiðing þessarar þróunar virðist vera sú að þekking okkar verði sérhæfð og oft sundurlaus og heildarsýnin æ óljósari.

"Verði þetta hagnaðarsjónarmið allsráðandi í rekstri fjölmiðla hér á landi er ekki ólíklegt að fræðsluhlutverki þeirra verði ýtt til hliðar en þar með er grundvöllur lýðræðisins í hættu. Eitt af markmiðum fjölmiðlastefnu hlýtur að vera að tryggja almenningi aðgang að vönduðu efni, m.a. með reglum um auglýsingar og að ekki skuli blanda saman auglýsingum og öðrum efnisþáttum," sagði Lilja.

Virk fjölmiðlastefna

Hún sagði að virk fjölmiðlastefna gæti skipt sköpum ef Íslendingar vildu hafa áhrif á þróunina á fjölmiðlamarkaðnum. "Eignasamruni og samþætting fjölmiðlafyrirtækja og stýring fjölmiðla í hvaða formi sem er getur haft hættuleg áhrif á tjáningarfrelsið og allt upplýsingaflæðið í samfélaginu. Það hlýtur því að vera verkefni hins opinbera að tryggja að fjölmiðar bjóði upp á fjölbreytt efni. Það þarf m.a. að athuga eignarhald fjölmiðlafyrirtækja og koma í veg fyrir að einn eða fáir sterkir aðilar nái slíkum yfirburðum á markaði að tjáningarfrelsi og upplýsingaflæði sé ógnað.

Það ber einnig að rannsaka fjárhagslega tengingu fjölmiðlafyrirtækja við önnur fyrirtæki því að það er augljóst að slík tenging hefur auðvitað bein áhrif á tjáningarfrelsið. Öruggasta leiðin til að tryggja fjölbreytt framboð efnis til dreifingar er því rekstur öflugra og sterkra innlendra fjölmiðla til mótvægis við alþjóðlegan fjölmiðlamarkað. Kröftugir fjölmiðlar geta einbeitt sér að sjálfstæðri miðlun frétta og menningar," sagði Lilja.FLUTNINGSMENN þingsályktunartillögunnar, Lilja Á. Guðmundsdóttir, sem mælti fyrir henni á þingi, og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.