Í MORGUNBLAÐINU, sem kom út 3. október sl. er fjallað um neyðarsímanúmerið 112, sem verður tekið í notkun um allt land um næstu áramót. Það er fagnaðarefni, að þetta mikilvæga öryggismál skuli nú loks í höfn. Í umfjöllun blaðamanns Morgunblaðsins segir m.a.

Nokkur viðbót við

sögu neyðarnúmers Hér fjallar Árni Gunnarsson , um neyðarsíma fyrir alla landsmenn. Í MORGUNBLAÐINU, sem kom út 3. október sl. er fjallað um neyðarsímanúmerið 112, sem verður tekið í notkun um allt land um næstu áramót. Það er fagnaðarefni, að þetta mikilvæga öryggismál skuli nú loks í höfn.

Í umfjöllun blaðamanns Morgunblaðsins segir m.a.: "Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra sagði að aðdragandi lagasetningar um neyðarsímsvörun mætti rekja til þess er þáverandi borgarstóri Reykjavíkur, Markús Örn Antonsson, ritaði ráðuneytinu bréf í apríl 1993 þar sem leitað var eftir samvinnu af hálfu ráðuneytisins til þess að koma hugmyndum um sameiginlegt neyðarsímanúmer í framkvæmd".

Markús Örn Antonsson á lof skilið fyrir þann áhuga, sem hann sýndi þessu máli umfram marga aðra ráðamenn. En upphaf neyðarsímans verður ekki rakið til bréfaskrifta í apríl 1993. Þetta mál á sér miklu lengri aðdraganda, og svo að rétt megi vera rétt og sagan óbrengluð, langar mig að koma á framfæri nokkrum staðreyndum:

Tillaga Katrínar frá 1986

Það var þegar árið 1986 að Katrín Fjeldsted borgarfulltrúi lagði fram í borgarráði tillögu með greinargerð um neyðarsíma. Hún fylgdi þessu máli eftir með ýmsum hætti næstu ár, án viðbragða stjórnvalda.

Fyrir nokkrum árum, þegar Hallgrímur Guðmundsson var bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði, sýndi hann neyðarsímamálinu mikinn áhuga. Fyrirtækin Símaafl og Verkfræðistofa Snorra Ingimarssoanr, voru fengin til að gera úttekt á neyðarsímaþjónustu fyrir Höfn og Austur-Skaftafellssýslu og síðan fyrir Austurland allt. Fyrirtækin skiluðu vandaðri skýrslu og málið komst á talsverðan rekspöl, en lognaðist síðan útaf sökum fyrirsjánlega mikils kostnaðar.

Þáttur Slysavarnafélagsins

Þegar ég tók við starfi framkvædmastjóra Slysavarnafélags Íslands á árinu 1992, var neyðarsími fyrir landið allt eitt af helstu áhugamálum mínum. Í samstarfi við fjölda áhugasamra karla og kvenna efndi ég til ráðstefnu um málið. Hún var vel sótt og þar flutti erindi sænskur sérfræðingur, sem við fengum sérstaklega til landsins. Einnig töluðu íslenskir menn með góða þekkingu og Katrín Fjelsted greindi frá baráttu sinni.

Til þessarar ráðstefnu var boðið fulltrúum frá öllum stofnunum og fyrirtækjum, sem talið var að kynnu að koma að málinu á einhverju stigi. Leitað var samstarfs við dómsmálaráðuneytið og aðra aðila, sem málið varðaði. Í framhaldi af þessari ráðstefnu undirritaði ég, fyrir hönd SVFÍ, samning við bæjarstjórn Hafnar í Hornafirði um neyðarsímaþjónustu, sem var tengd Tilkynningaskyldunni. Fleiri bæjarfélög sýndu málinu áhuga, svo og opinberar stofnanir eins og Slökkvilið Reykjavíkur.

Mun fleiri hafa tengst þessu neyðarsímamáli en hér hafa verið nefndir. En mestu máli skiptir að neyðarsími fyrir alla landsmenn verður að veruleika um næstu áramót.

Höfundur er framkvæmdastjóri Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði.

Árni Gunnarsson