Ífornöld var stundum kvartað undan því að enginn geti ráðið uppruna sínum eða valið sér foreldri eftir eigin hugþokka. Þó var sú bót í máli að til voru lærðir menn sem tókust á hendur að yrkja hefðarfólki nýjar og betri ættartölur en það átti skilið. Margt bendir í þá átt að skapandi ættfræði hafi verið stunduð af miklum áhuga hérlendis á fyrra hluta tólftu aldar.

Eru Íslendingar komnir

af Kjarval Írakonungi?

Eftir HERMANN

PÁLSSON

Kjarvalur ríkti yfir litlu ríki, en þó var hann einhver áhrifamesti leiðtogi Íra um þá fjóra áratugi sem hann var konungur yfir Osraige.

I

Ífornöld var stundum kvartað undan því að enginn geti ráðið uppruna sínum eða valið sér foreldri eftir eigin hugþokka. Þó var sú bót í máli að til voru lærðir menn sem tókust á hendur að yrkja hefðarfólki nýjar og betri ættartölur en það átti skilið. Margt bendir í þá átt að skapandi ættfræði hafi verið stunduð af miklum áhuga hérlendis á fyrra hluta tólftu aldar. Ýmsar hugmyndir okkar um uppruna þjóðarinnar virðast eiga rætur að rekja til þeirra ættfræðinga sem þá létu einkum til sín taka. Aftan við Íslendingabók rekur Ari hinn fróði langfeðgatal Ynglinga og Breiðfirðinga; sú þula hefst aftur í grárri forneskju með Yngva nokkrum Tyrkjakonungi og lýkur þrjátíu og sex kynslóðum síðar með Ara sjálfum vestur við Breiðafjörð. Hér er ekki verið að höggvast í mitt mál.

Ari ber þrjá heimildarmenn fyrir því að Ísland byggðist fyrst úr Noregi í þann mund er "Ívar Ragnarsson sonur loðbrókar lét drepa Játmund hinn helga Englakonung", en sá atburður gerðist árið 870. Nú hagar svo til að allir heimildarmenn Ara, þau Þuríður Snorradóttir (d. 1111), Teitur Ísleifsson fóstri hans (d. 1110), Þorkell Gellisson föðurbróðir Ara og vitaskuld Ari sjálfur röktu ættir sínar til sameiginlegs forföður sem hét Játmundur . Sturla Þórðarson segir í Landnámu sinni að Þórður skeggi, sem fyrstur manna bjó á Skeggjastöðum í Mosfellssveit, ætti Vilborgu dóttur Ósvalds og Úlfrúnar Játmundar dóttur. Hér eru saman komin fjögur ensk nöfn, svo að ekki þarf að efast um þjóðerni þessa fólks; af þessum nöfnum er Vilborg hið eina sem hefur verið í notkun hérlendis síðan.

Sturla fræðir okkur ekkert um foreldra og afa fyrstu húsfreyjunnar á Skeggjastöðum, en Haukur Erlendsson eignar þessu fólki mikinn virðingarsess í þjóðfélaginu. Hann telur Vilborgu dóttur Ósvalds konungs "og Úlfrúnar hinnar óbornu, dóttur Játmundar Englakonungs". Skyld ættfærsla er í Sturlungu, þótt frábrugðin sé í einstökum atriðum. Njála gengur feti framar en Hauksbók að því leyti, að þeir Ósvaldur og Játmundur eru ekki einungis taldir konungar heldur einnig helgir menn! Slíkt þykir grunsamlegt, enda lést Ósvaldur hinn helgi árið 642. Jakob Benediktsson telur að hugmyndin í Hauksbók og Sturlungu um konungdóm þeirra Ósvalds og Játmundar, föður og afa Vilborgar á Skeggjastöðum, muni vera komin úr gamalli ættartölu, sameiginlegri heimild. Sú staðhæfing að Úlfrún hafi verið "óborin" (þ.e.a.s. ófeðruð) bendir til ættfræðings sem kunni íþrótt sína til hlítar. Hann gefur í skyn sérþekkingu á faðerni konu sem öðrum er hulin.

II

Sturla Þórðarson nefnir fjögur börn Kjarvals Írakonungs og rekur ættir frá þeim til Íslands. Um Kjarval þennan segir Sturla enn fremur að hann sæti að ríkjum í Dyflinni um það leyti sem Ísland fór að byggjast, en hér skýtur þó heldur skökku við. Kjarvalur (d. 888) var konungur í kotríki því sem Osraige hét drjúgan spöl í útsuðurátt frá Dyflinni, sem um þessar mundir og lengi síðan laut norrænum víkingum. Yfirleitt voru íslenskir fræðimenn fyrr á öldum furðu ófróðir um Írland. Í Laxdælu siglir Ólafur pá til Írlands í því skyni að hitta Mýrkjartan konung afa sinn. Fundum þeirra ber fyrst saman einhvers staðar í írskri fjöru. Eftir nokkurt þóf á móðurmáli Ólafs pá, fagnar konungur dóttursyni sínum vestan úr Dölum, skýtur undir hann gæðingi, og síðan ríða þeir saman til Dyflinnar, þar sem norræn tunga hafði gengið um langan aldur og víkingar réðu lögum og lofum. Ef Mýrkjartan hefur nokkurn tíma verið uppi, þá hefur karl haft aðsetur annars staðar en í Dyflinni.

1. Sturla Þórðarson staðhæfir að fyrsta húsfreyjan á Höfða á Höfðaströnd væri Þorgerður, dóttir Friðgerðar Kjarvalsdóttur Írakonungs. Hún giftist Þórði Bjarnasyni, niðja Ragnars loðbrókar, enda hefur löngum verið talið að þar hafi góðar ættir runnið saman. Þau hjónin áttu nítján börn, sem munu eiga drjúgan þátt í yfirburðum Skagfirðinga yfir fólk í öðrum byggðum hérlendis.

2. Samkvæmt Sturlu og ýmsum öðrum heimildum var Helgi magri dóttursonur Kjarvals Írakonungs. Foreldrar Helga voru þau Eyvindur austmaður og Raförta Kjarvalsdóttir. Raförta er írskt nafn. Heimildum ber saman um að Helgi hafi verið alinn upp á Írlandi, eftir sult í suðureysku fóstri. Síðan gekk hann að eiga Þórunni hyrnu, dóttur Ketils flatnefs, sem virðist hafa dvalist um langa hríð í Suðureyjum. Þau Helgi og Þórunn munu hafa haldið brúðkaup sitt vestan hafs, og eftir að hingað kemur fara þau að búa í Kristnesi.

3. "Áskell hnokkan, son Dufþaks Dufníalssonar, Kjarvalssonar Írakonungs, hann nam land milli Steinslækjar og Þjórsár og bjó í Áskelshöfða." Svo hljóða bæði Sturlubók og Hauksbók. Hér vekur keltneskur svipur á niðjatali sérstaka athygli: viðurnefni Áskels og nöfnin Dufþakur og Dufníall eru írsk.

4. Álfur egðski flýði úr Noregi fyrir Haraldi hárfagra, kom skipi sínu í Álfsós (= Ölfusá) og "nam lönd öll fyrir utan Varmá og bjó að Gnúpum". Þorgrímur Grímólfsson tók arf eftir hann. "Móðir Þorgríms var Kormlöð, dóttir Kjarvals Írakonungs." Kormlöð var algengt nafn með Írum að fornu.

Þegar niðjatöl þessara fjögurra barna Kjarvals eru athuguð gaumgæfilega kemur brátt í lj ós sameiginlegt atriði með þeim öllum: fyrstu biskupar okkar áttu ættir sínar til Kjarvals að rekja. Frá Friðgerði Kjarvalsdóttur var kominn Þorlákur Runólfsson biskup í Skálholti (1118­33), frá Raförtu Kjarvalsdóttur Ketill Þorsteinsson Hólabiskup (1122-45), frá Dufnjáli Kjarvalssyni Jón Ögmundarson hinn helgi Hólabiskup (1106­1121) og frá Kormlöðu Kjarvalsdóttur tveir fyrstu biskuparnir í Skálholti, þeir feðgar Ísleifur Gissurarson (1056­1080) og Gissur sonur hans (1082­1118).

Ef slík ættfærsla er að einhverju eða öllu leyti tilbúningur, má sennilegt þykja að hér sé um að ræða fróðleik sem var settur á skrá fyrir 1134 og áður Magnús Einarsson varð biskup í Skálholti.

III

Utan Sturlubókar eru þrjú dæmi í viðbót um ættrakningar aftur til Kjarvals, og er nokkur forvitnibót að hyggja að þeim.

5. Í Hauksbók er svofelldur fróðleikur, sem hefur aldrei verið í Sturlubók: "Baugur var son Rauðs Kjallakssonar, Kjarvalssonar Írakonungs." Um þessa glefsu farast Jakobi Benediktssyni orð á þessa lund: "Þessi viðbót getur verið úr ættartöluriti, en hvorki Rauður né Kjallakur eru annars nefndir í heimildum. Ættartalan er vísast tilbúningur; Cerbhall í [Osraige] átti að vísu son sem hét Cellach [d. 908], en tímans vegna kemur ekki til mála að hann hafi verið afi Baugs." Þeir Gunnar á Hlíðarenda og Hróar Tungugoði voru komnir af Baugi, en ekki er kunnugt um neinn biskup af þessum ættmeiði.

6. Í Draumi Þorsteins Síðu-Hallssonar verður írskur þræll, Gill að nafni, góðum höfðingja að bana austur á Svínafelli í Hornafirði, og getur hvergi í fornritum okkar svo argan þræl sem mátti þó státa af glæsilegum forföður. Frásögn klykkir út með svofelldum fróðleik sem hvergi er að finna annars staðar í fornum letrum: "Gilli þessi var sonur Jathguðs Gillasonar, Bjaðachs sonar, Kjarvals sonar, konungs af Írlandi, hins gamla, er þar ríkti lengi." Hér eru öll nöfnin írsk, þótt þau séu ekki agnúalaus að vísu.

7. Í fornum biskupa ættum er Klængur Skálholtsbiskup (1152­1176) einnig talinn kominn af Kjarvali í beinan kalllegg: "Klængur biskup Þorsteinsson, Arnórssonar, Klængssonar kvígu, Þorleifssonar, Ásbjarnarsonar, Hertilasonar, Kjarvalssonar." Þótt þess sé ekki getið að Kjarvalur ættfaðir Klængs hafi verið konungur, þá er hugsanlegt að slíkt hafi fallið niður í uppskrift. Hertili er afbökuð mynd af alkunnu írsku nafni, Airthaile, sem er að vísu stafað á ýmsar lundir. Vafalaust er þessi ættartala tilbúningur, að minnsta kosti tveir elstu ættliðirnir. Ef Klængur var of seint á ferðinni til að lenda í hinu forna niðjatali Kjarvals Írakonungs, sem gert var biskupum til virðingar-auka.

IV

Eins og áður var getið, þá ríkti Kjarvalur yfir litlu ríki, en þó var hann einhver áhrifamesti leiðtogi Íra um þá fjóra áratugi sem hann var konungur yfir Osraige. Hans er fyrst getið í þeim heimildum sem ég hef séð árið 874 og hann lést skyndilega árið 888. Kjarvalur virðist hafa verið mikilhæfur maður, en þó verður að fara varlega í sakirnar og trúa ekki öllu sem um hann var skráð. Maðurinn sem skrifaði helstu heimildina um Kjarval var mikill aðdáandi hans. Hér verður hernaði Kjarvals og öðrum afrekum ekki lýst, en hann stóð í ýmsum erjum við aðra írska hertoga, Norðmenn og Dani. Hitt vakir fyrir mér að finna einhvern staf fyrir þeirri staðhæfingu Sturlubókar að fjögur börn hans eignuðust niðja á Íslandi.

Samkvæmt írskum heimildum átti Cerbhall (= Kjarvalur) fjögur börn. Einn sonurinn var Cellach (= Kjallakur) sem var nefndur áðan; hann ríkti yfir Osraige um hríð og féll í orrustu árið 908. Annar hét Diarmait, konungur yfir Osraige 894­905 og síðan aftur eftir fall bróður síns 908­928. Þriðji bróðirinn Bráenán var drepinn árið 891. Að lokum skal minnast á dóttur Kjarvals; hún var gift höfðingja sem hét Dubgilla, en nafn hennar sjálfrar er óþekkt; þau áttu þrjá syni sem komu við írska atburði.

Um faðerni Raförtu gegnir sérstöku máli, enda verður rætt um hana í greinarlok, en fyrst skal drepa á hinar hræðurnar þrjár sem taldar eru til barna Kjarvals í Sturlubók, þau Friðgerði, Dufníal og Kormlöðu. Vel má vera að hér sé um að ræða nöfn á fólki sem hafi verið til á sínum, en hitt má þykja sennilegt að sá ættfræðingur sem vildi gera veg biskupa okkar sem mestan hafi ekki kinokað við að rangfeðra þau kirkju og þjóð til dýrðar. Ekkert bendir til að þessi svokölluðu Kjarvalsbörn hafi verið systkin, og ekkert atriði nema ættfærslan ein bendlar þau við Kjarval Írakonung.

Í Sturlubók kemur síst á óvart að Kjarvalur eignast erfingja úti á Íslandi: "Eyvindur fór þá í vesturvíking og hafði útgerðir fyrir Írlandi. Hann fékk Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs og staðfestist þar; því var hann kallaður Eyvindur austmaður. Þau Raförta áttu son þann er Helgi hét [. . .]." Hugsanlegt er að hinn forni ættfræðingur hafi þegið hugmyndina um írskt ætterni íslenskra biskupa frá Raförtu, enda er örðugt að synja konunni um það faðerni sem henni er fengið í Landnámu og víðar. Og naumast er það einber tilviljun að sonur Raförtu, Helgi hinn magri, er eini landnámsmaðurinn í þessum hópi sem er bendlaður við kristni, jafnvel þótt hann þætti nokkuð blendinn í trúnni.

Höfundur er fyrrverandi prófessor við Edinborgarháskóla.FYRSTA húsfreyjan á Höfða á Höfðaströnd var Þorgerður dóttir Friðgerðar Kjarvalsdóttur írakonungs. Hún var með afbrigðum kynsæl og eignaðist 19 börn. Mynd: Búi Kristjánsson.

EIN DÓTTIR Kjarvals Írakonungs eignaðist þann strák, er Helgi hét og var kallaður hinn magri. Hann nam eins og flestir vita land í Eyjafirði og bjó í Kristnesi.

Mynd: Búi Kristjánsson.

KORMLÖÐ hét ein dóttir Kjarvals írakonungs. Hún var móðir Þorgríms, sem bjó á Gnúpum í Ölfusi.

Mynd: Búi Kristjánsson.