Í TILLÖGUM danska ráðgjafafyrirtækisins Anders Nyvig A/S sem unnið hefur að endurskoðun leiðakerfis SVR, er gert ráð fyrir að byggð verði skiptistöð á Ártúnshöfða, gengið frá skiptistöð í Kvosinni, opnað fyrir akstri strætisvagna vestur Hverfisgötu og þjónusta bætt í hverfum austan Elliðaáa.
Leiðakerfi Strætisvagna Reykjavíkur í endurskoðun Ekið verði niður

Hverfisgötu

Í TILLÖGUM danska ráðgjafafyrirtækisins Anders Nyvig A/S sem unnið hefur að endurskoðun leiðakerfis SVR, er gert ráð fyrir að byggð verði skiptistöð á Ártúnshöfða, gengið frá skiptistöð í Kvosinni, opnað fyrir akstri strætisvagna vestur Hverfisgötu og þjónusta bætt í hverfum austan Elliðaáa.

Þá er gert ráð fyrir í tillögunum að sérstakur annatími verði skilgreindur á milli klukkan sjö og níu á morgnana og klukka 16-19 síðdegis og á þeim tíma verði ferðum hraðleiða fjölgað. Þetta kom fram í máli Lilju Ólafsdóttur, forstjóra SVR, á samgönguráðstefnu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem haldin var á föstudag.

Til framkvæmda 1. júní

Danska ráðgjafafyrirtækið, sem unnið hefur fjölmörg umferðartengd verkefni fyrir Reykjavíkurborg á undanförnum áratugum, var fengið til að gera úttekt á núverandi leiðakerfi SVR og gera grunntillögu að breytingum. Sú vinna hefur staðið yfir undanfarið ár og voru tillögur að nýju leiðakerfi fullbúnar í byrjun hausts að sögn Lilju og eru nú til umfjöllunar í stjórn SVR.

Lilja segir áformað að breytingar á leiðakerfinu komi til framkvæmda 1. júní á næsta ári. Hún segir að stjórn SVR leggi m.a. áherslu á þau markmið að skipuleggja ný hverfi fyrir almenningssamgöngur með sérstökum götum, akreinum eða hliðum fyrir strætisvagna og laga eldri hverfi að almenningssamgöngum á sama hátt eftir því sem unnt er. Lögð verði áhersla á forgang strætisvagna í umferðinni.

Hátt í helmingsfækkun

Í máli Lilju kom fram að farþegar SVR voru 7,1 milljón á seinasta ári og eknir 4,8 milljón kílómetrar, sem er tæplega helmingsfækkun farþega á aldarfjórðungi því að farþegar SVR voru 13,4 milljónir árið 1970, en eknir kílómetrar 3,6 milljónir. Hún segir mikla fjölgun einkabíla vera meginskýringu þessarar fækkunar, því að íbúum hafi fjölgað og borgin þanist út á sama tíma.

Á ráðstefnunni kom fram bæði hjá Lilju, Pétri Fenger framkvæmdastjóra Almenningsvagna hf. og Guðrúnu Ágústsdóttur forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, að æskilegt væri að hafa eitt samræmt leiðakerfi við lýði á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem brýnt væri að efla samgöngur með almenningsvögnum á kostnað notkunar einkabíla.