SALA á harðfiski hefur aukist hjá Stöplafiski hf. í Reykjahverfi en með heildsöludreifingu Karls K. Karlssonar er vörunni nú dreift um allt land. Að sögn Aðalsteins Árnasonar framkvæmdastjóra væntir fyrirtækið góðs af dreifingaraðila sínum en nokkur samkeppni er á harðfiskmarkaðnum, einnig er hörð samkeppni við annað "snakk" sem hægt er að kaupa.
Mikil harðfisksala hjá

Stöplafiski í ReykjahverfiLaxamýri. Morgunblaðið.

SALA á harðfiski hefur aukist hjá Stöplafiski hf. í Reykjahverfi en með heildsöludreifingu Karls K. Karlssonar er vörunni nú dreift um allt land. Að sögn Aðalsteins Árnasonar framkvæmdastjóra væntir fyrirtækið góðs af dreifingaraðila sínum en nokkur samkeppni er á harðfiskmarkaðnum, einnig er hörð samkeppni við annað "snakk" sem hægt er að kaupa.

Stöplafiskur er ungt fyrirtæki en meginforsendan fyrir því að ráðist var í að stofna hlutafélag um fiskþurrkun var að hjá Hitaveitu Húsavíkur fæst ódýr orka auk þess sem áhugafólk um atvinnumál vildi reyna nýjar leiðir.

Þrjú til fjögur ársverk

Í harðfisknum eru 3­4 ársverk og framleiðslan er einkum roðlaus bitafiskur, ýsuflök með roði og roðlaus þorskur. Þá hefur einnig verið í gangi þróunarvinna sem e.t.v. leiðir til nýjunga á næstunni. Má þar nefna þurrkun á loðnu sem er samstarfsverkefni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Rannsóknarstofu fiskiðnaðarins og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Gangi það eftir má búast við að allt að 16 manns fái vinnu í fyrirtækinu en sendar hafa verið tilraunasendingar til Japans með útflutning í huga.

Góður grundvölur

Aðalsteinn segir að sé litið á harðfiskverkunina eina og sér þá sé góður rekstrargrundvöllur fyrir henni og bitafiskurinn selst jafnt árið um kring. Þetta sé í raun fitusnautt sælgæti sem fólk ætti að taka fram yfir margt það sem nú er á boðstólum.

STARFSFÓLK Stöplafisks hf., f.v. Gunnar Hallgrímsson bóndi, Aðalsteinn Árnason framkvæmdastjóri og Erla Alfreðsdóttir framleiðslustjóri.