HÉR fer á eftir bréf það sem Kjaradómur ritaði forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, á miðvikudag og greint var frá á blaðamannundi í gær og ennfremur greinargerð ritara Kjaradóms: Tilmælum þeim sem þér, hr.
Bréf formanns Kjaradóms til forsætisráðherra

Mat en ekki reikn-

ingsleg forskrift

HÉR fer á eftir bréf það sem Kjaradómur ritaði forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, á miðvikudag og greint var frá á blaðamannundi í gær og ennfremur greinargerð ritara Kjaradóms:Tilmælum þeim sem þér, hr. forsætisráðherra, hafið beint til undirritaðs sem formanns Kjaradóms um frekari upplýsingar varðandi þann grunn og gögn er lágu fyrir Kjaradómi þegar hann kvað upp úrskurð sinn hinn 8. september sl. vil ég svara á eftirfarandi hátt.

Á það skal lögð áhersla að úrskurðurinn er byggður á forsendum sem honum fylgdu. Í þeim kemur fram mat dómsins á öllum þeim þáttum sem lög um Kjaradóm leggja honum á herðar að taka tillit til. Eins og fram kemur í forsendunum ber dómnum fyrst og fremst, við úrlausn mála, að gæta þeirra meginreglna sem fram koma í 5. gr. laganna en þær eru:

1. Að gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim er hann ákveður.

2. Að þau starfskjör séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar.

3. Að taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.

Þessi grundvallaratriði hafði dómurinn að sjálfsögðu öll í huga er hann kvað upp úrskurð sinn.

Í umræðu um úrskurðinn undanfarnar vikur hefur gætt mikils misskilnings og réttu máli víða verið hallað, en svo virðist sem ýmsir líti þannig á að lögin um Kjaradóm gefi reikningslega forskrift að niðurstöðu. Að sjálfsögðu er ekki neina slíka forskrift að finna enda þyrfti þá engan Kjaradóm.

Kjaradómur aflaði mikilla gagna um þróun kjaramála undanfarin ár, þ. á m. þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið á þessu ári og fela í sér mjög mismunandi kjarabreytingar. Meðal þess sem dómurinn tók tillit til var efni þessara samninga og gildistími þeirra, en það skal ítrekað að úrskurðurinn felur í sér heildarmat á öllum þeim atriðum sem skylt er að byggja á samkvæmt lögum um Kjaradóm.

Að beiðni minni hefur ritari dómsins tekið saman nokkrar tölulegar staðreyndir sem fyrir lágu er dómurinn kvað upp nefndan úrskurð og fylgir greinargerð hans hér með.

Virðingarfyllst,

Þorsteinn Júlíusson. Nokkrar tölulegar staðreyndir teknar saman að beiðni formanns Kjaradóms

Í þessari greinargerð er leitast við að skýra frá helstu tölulegu staðreyndum fyrir lágu er Kjaradómur kvað upp úrskurð sinn þann 8. september sl. Í fyrsta lagi er lýst helstu heimildum um laun þeirra sem nálgast gætu að vera sambærilegir þeim er undir Kjaradóm heyra. Í öðru lagi er fjallað um launaþróun og úrskurði Kjaradóms yfir nokkurn tíma litið. Í þriðja lagi er litið til þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið á þessu ári.

Laun og starfskjör sambærilegra aðila

Örðugt er að finna þá aðila í þjóðfélaginu sem telja má að séu sambærilegir forseta Íslands, ráðherrum, dómurum og alþingismönnum "með tilliti til starfa og ábyrgðar". Erfitt er að afla upplýsinga um raunveruleg starfskjör manna. Reynt hefur verið að afla upplýsinga um kjör bankastjóra, embættismanna og ýmissa forsvarsmanna einkafyrirtækja.

Að beiðni iðnaðar- og viðskiptaráðherra tók Ríkisendurskoðun saman yfirlit um laun og önnur starfskjör helstu yfirmanna ríkisbanka og sjóða sem heyra undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti á árinu 1992. Þar kom fram að laun bankastjóra ríkisviðskiptabankanna námu að meðaltali 776 þús. krónum á mánuði og laun aðstoðarbankastjóra um 523 þús. krónur. Forstjórar fjárfestingarsjóða er undir ráðuneytið heyra voru með um 515 þús. krónur í mánaðarlaun. Ekki er vitað til neinna meginbreytinga á launakjörum þessara aðila frá árinu 1992.

Mismunandi reglur gilda um lífeyri bankastjóra. Bankastjórar Búnaðarbanka Íslands vinna sér þannig lífeyri sem að hámarki nemur 90% af öllum launum sem næst eftir 15 ára starf. Eftir eins árs starf ávinna þeir sér lífeyrisrétt sem svarar til 20% af launum. Hins vegar eru lífeyriskjör bankastjóra Landsbanka Íslands nokkru lakari og fela í sér að 90% launa er náð eftir 18 ára starf. Bankastjórar Seðlabanka Íslands njóta sömu lífeyriskjara, en laun þeirra eru til muna lægri en starfsbræðra þeirra í viðskiptabönkunum. Reglur um lífeyrisgreiðslur til bankastjóra eru á margan hátt sambærilegar þeim er gilda um ráðherra. Réttindavinnsla ráðherra er hraðari en bankastjóra, sem nemur einu prósentustigi á ári, en þak er á lífeyrisgreiðslum til þeirra sem svarar til 50% af launum sem næst eftir rúmlega 8 ára iðgjaldsgreiðslutíma.

Laun margra æðstu embættismanna ríkisins eru ólík launum ráðherra og þingmanna að því leyti að þeim er greidd þóknun fyrir vinnu umfram dagvinnuskyldu, ýmist í formi eftirvinnu eftir reikningum eða í formi fastrar eftirvinnu. Þá þiggja þeir þóknun fyrir setu í ýmsum nefndum, en ráðherrar sitja aldrei í launuðum nefndum. Samkvæmt upplýsingum Starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis voru meðallaun ráðuneytisstjóra í fyrra 370 þús. kr. á mánuði og laun helstu skrifstofustjóra í ráðuneytum, sem teljast mega staðgenglar ráðuneytisstjóra, um 275 þús. kr. á mánuði að meðaltali. Þá má nefna að meðallaun sýslumanna reyndust vera um 350 þús. kr. í fyrra.

Heimildir um launakjör forsvarsmanna einkafyrirtækja eru af mjög skornum skammti og raunar er eingöngu um upplýsingar úr álagningaskrám að ræða. Þessi heimild er ekki nákvæm, því tekjur eru afleiddar af óleiðréttri frumálagningu og þannig er ekki tekið tillit til kæra. Ósjaldan hafa menn skattskyldar tekjur af öðru en launavinnu, einkum eignum, en út frá álagningu er eingöngu hægt að finna tekjuskattstofn en ekki bein laun. Upplýsingar úr álagningarskrám eru einatt tíundaðar í fjölmiðlum um það leyti sem þær eru lagðar fram. M.a. hefur komið fram að ýmsir forstjórar fyrirtækja voru með 588 þús. króna tekjur á mánuði í fyrra og stjórnarmenn voru að meðaltali með 758 þús. króna tekjur á mánuði 1994.

Launasamanburður til lengri tíma

Launavísitala Hagstofu Íslands er traustasta heimildin sem tiltæk er um almenna launþróun á hverjum tíma. Hún mælir þróun dagvinnulauna á almennum vinnumarkaði, hjá fjármálastofnunum og hjá hinu opinbera. Launavísitalan lýsir þróun meðallauna. Um vísitöluna gilda lög nr. 89/1989.

Kjaradómur hefur í úrskurðum sínum allt frá júní 1989, að undanteknum skammlífum úrskurði í júní 1992, eingöngu litið til almennra taxtahækkana og þannig horft framhjá öðrum launabreytingum, s.s. launaskriði, breytingum á röðun í sérsamningum o.fl. Úrskurður dómsins frá júní 1989 kvað á um tvennar launahækkanir með gildistíma frá 1. mars og 1. maí það ár. Samanburður á launaþróuninni frá 1. mars 1989 leiðir í ljós að laun úrskurðuð af Kjaradómi hafi hækkað um 35,2% eftir nýuppkveðna hækkun, en til ágúst sl. mælist hækkun launavísitölunnar 37,9%. Ef hins vegar er litið til breytinga frá því að ný lög um Kjaradóm og kjaranefnd tóku gildi, þ.e. frá janúar 1993, sést að þingfararkaup hefur hækkað um 2,5% umfram vísitöluna.

Kjarasamningar á þessu ári

Kjarasamningar á þessu ári hafa verið með ýmsu móti, enda starfa mörg hundruð stéttarfélög í landinu. Sú stefna sem ofan á varð í kjarasamningum landssambanda Alþýðusambandsins í febrúar sl. var blanda af krónutöluhækkunum og prósentuhækkunum. Talið er að kjarasamningar landssambandanna feli í sér launahækkun upp á 7% á samningstímabilinu til loka árs 1996 að sérkjarasamningum meðtöldum. Markmið samninganna var m.a. launajöfnun og hækka lágmarkslaun í samræmi við það um nær 15% á samningstímanum.

Í mörgum kjarasamningum sem gerðir hafa verið frá því í febrúar sl. bæði á almennum og opinberum markaði hafa kauptaxtar hækkað um prósentutölu. Nefna má nokkra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði þar sem ekki var samið um krónutöluhækkun:

Flugfreyjur gerðu kjarasamning í lok apríl sem talið er að hækki laun um ríflega 9%, en hluti hækkunarinnar, 2,7%, er vegna aukinnar vinnuskyldu og er ráðstafað í lífeyrissjóð.

Að teknu tilliti til breytinga á orlofstímabili leiddi kjarasamningur mjólkurfræðinga, sem gerður var fyrri hluta maímánaðar til 7% launahækunnar. Frá 1. maí hækkuðu laun um 4,4% og um 2,5% 1. janúar n.k.

Bílstjórafélagið Sleipnir skrifaði undir kjarasamning við viðsemjendur sína í lok maí um allt að 20% launahækkun á samningstímanum.

Í byrjun júní sömdu bankamenn um 8,5% hækkun launa sem kemur í þremur áföngum, 3,3% 1. apríl, 1% 1. júní og 3,7% í janúar nk.

Kjarasamningur starfsmanna Íslenska álfélagsins, sem gerður var seinni hluta júnímánaðar, er talinn leiða til 11,4% launahækkunar á samningstímanum. Við undirskrift hækkuðu laun um 3,2% og aftur um 3% 1. janúar nk., en einnig fela samningarnir í sér flokkatilfærslur.

Launahækkun til félaga í Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands er talin nema um 11­11 % á samningstímanum. Við undirskrift hækkuðu laun um 5,5%, 1,4% hækkun varð í júní og 1% í september og loks eiga laun að hækka um 3% í janúar nk. Sérstök eingreiðsla 12.000 krónur verður greidd í lok samningstímans.

Kjarasamningar flugmanna frá júlí sl. kveða á um ríflega 10% hækkun í heild, 7% hækkun launa strax og 3% í upphafi næsta árs. Á móti kemur ýmis hagræðing og er talið að kostnaðarauki vinnuveitenda verði 6,5%.

Frá febrúar til ágústloka hafði fjármálaráðuneytið samið við nær 40 samtök opinberra starfsmanna og fjölda stéttarfélaga á hinum almenna vinnumarkaði fyrir hönd félagsmanna sem starfa hjá ríkinu. Í flestum tilvikum kveða þessir samningar á um prósentuhækkun en ekki krónutöluhækkun. Raunar má segja að í nærfellt öllum samningum sem gerðir hafa verið frá júní sl. hafi laun hækkað um prósentu en ekki krónutölu. Hér verða nefndir nokkrir kjarasamningar sem fjármálaráðuneytið hefur gert, en meðfylgjandi mat á launahækkun er samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins.

Í samningi stærsta aðildarsambands BSRB, Starfsmannafélags ríkisstofnana, sem gerður var í apríl sl. er kveðið á um krónutöluhækkun að hætti samninga á almennum vinnumarkaði, en jafnframt er í samningnum að finna ákvæði um flokkatilfærslur þannig að hann hefur í för með sér u.þ.b. 10% launahækkun. Vegna ákvæða í samningunum um víðtæk námskeið til félaga í SFR er útgjaldaauki ríkisins af samningnum enn meiri.

Af samningum annarra félaga innan BSRB má nefna samninga símamanna sem fólu sér rúmlega 10% launahækkun á samningstímanum og byggja á krónutöluhækkun og flokkatilfærslum. Kjarasamningur Póstmannafélags Íslands er með svipuðu sniði og er metinn til tæplega 10% launahækkunar. Kjarasamningar Starfsmannafélags ríkisútvarps/sjónvarps fela í sér um 9% launahækkun í heild og gera ráð fyrir 3,45% hækkun við undirritun en krónutöluhækkun um áramót.

Samningar við kennarafélögin og BHMR fela í sér sömu prósentubreytingu á alla taxta. Kennarasamningarnir eru taldir fela í sér allt að 20% launahækkun, þótt á móti komi breytingar á vinnuframlagi, sem gætu numið 3­4%.

Þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið við aðildarfélög innan BHMR, önnur en HÍK, virðast fela í sér 8­10% hækkun á samningstímanum í heild. Laun hækka um 2,5­3% við undirskrift og um 3% í janúar, auk þess verða flokkatilfærslur í september og í mars á næsta ári.

Félag háskólakennara er eitt stærsta aðildarfélag BHMR. Það gerði kjarasamning við fjármálaráðuneytið í ágústlok sem talinn er fela í sér tæplega 10,5% launahækkun á samningstímanum. Í samningnum er nýtt ákvæði um lágmarkslaunagreiðslur á ársgrundvelli.

Af öðrum samningum BHMR má nefna að Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga er talið fá 7 % á samningstímabilinu í sínum samningi og Félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðs 8 %.

Kjarasamningur Læknafélags Íslands, f.h. lausráðinna sjúkrahúslækna hefur verið metin ígildi tæplega 18% hækkunar. Hluta hækkunarinnar má rekja til þess að bílastyrkur er tekinn inn í laun.

Fjölmargir félagar í almennum stéttarfélögum vinna hjá ríkinu og gerir fjármálaráðuneytið smaning við mörg félög á almennum vinnumarkaði. Niðurstöður þeirra samninga hafa verið aðrar en í samningunum í febrúar. Meðal þessara samninga má nefna samninga iðnaðarmanna, Sóknar o.fl. Í samningum Rafiðnaðarsambandsins við fjármálaráðuneytið felast prósentuhækkanir, en ekki bland prósentu- og krónutöluhækkunar eins og það samdi um á almennum vinnumarkaði. Kjarasamningur við Starfsmannafélagið Sókn er talinn leiða til 15% hækkunar á samningstímanum.

Ýmis ákvæði sem skipta litlu eða engu máli á almenna vinnumarkaðnum hafa í för með sér umtalsverðar launahækkanir á opinbera markaðnum. Þetta á sérstaklega við um kjarasamninga Samiðnar við fjármálaráðuneytið, en kjarni samnings þeirra á almennum markaði var að færa ýmiss konar álag inn í kauptaxta og færa hann jafnframt nær greiddu kaupi. Á móti þessu komu ýmsar tilslakanir s.s. breyting flutningslínu o.fl. atriði sem ekki var tekið tillit til í samningum við ríkið. Tekjuáhrif af þessu eru miklu meiri gagnvart ríkinu og nema í einhverjum tilvikum allt að 20%.