HAKAKROSSAR og slagorð nasista voru máluð með rauðri málningu eftir allri norðurhlið Háteigskirkju, að líkindum aðfaranótt föstudagsins. Stór hakakross hafði líka verið sprautaður á aðaldyr kirkjunnar. Séra Helga Soffía Konráðsdóttir aðstoðarprestur telur ekki óhugsandi að verknaðurinn sé viðkomandi þeirri starfsemi í kirkjunni sem tengist nýbúum.
Slagorð nasista

máluð á kirkjuna

HAKAKROSSAR og slagorð nasista voru máluð með rauðri málningu eftir allri norðurhlið Háteigskirkju, að líkindum aðfaranótt föstudagsins. Stór hakakross hafði líka verið sprautaður á aðaldyr kirkjunnar. Séra Helga Soffía Konráðsdóttir aðstoðarprestur telur ekki óhugsandi að verknaðurinn sé viðkomandi þeirri starfsemi í kirkjunni sem tengist nýbúum.

"Þetta er hreinn og klár nasismi," sagði Helga Soffía um veggjakrotið. "Hérna eru nasistatákn og orðatiltæki og setningar nasista sem eru fræg að endemum. Það sorglegasta við þetta er að Háteigskirkja er eina kirkjan í borginni sem er með nýbúastarf og nýbúaprest. Mér finnst ekki líklegt að hérna hafi verið unglingar á ferðinni og ég lít þetta mjög alvarlegum augum," sagði Helga Soffía.

Fullvaxinn maður að verki

Starfsemi var bæði inni í kirkjunni og sóknarheimilinu langt fram eftir fimmtudagskvöldi og því líklegt að verknaðurinn hafi verið framinn aðfaranótt föstudagsins. Helga Soffía telur líklegt að mála þurfi kirkjuna á ný.

Toshiki Toma, eiginmaður Helgu Soffíu, sem stýrir starfinu með nýbúunum, segir að þeir sem verknaðinn frömdu séu fjarri því að túlka viðhorf venjulegra Íslendinga. "Það eru afar fáir með slíkan þankagang. Ef þetta er gert af gamansemi verður að benda á það að gamanið er grátt, einkum þegar hörmungar nasistatímans eru hafðar í huga," sagði Toma.

Lögreglan segir að af skóförum við vegg kirkjunnar að dæma hafi fullvaxinn maður eða menn verið hér að verki.

Morgunblaðið/RAX TOSHIKI Toma, sem stýrir nýbúastarfi í Háteigskirkju, gengur þungt hugsi frá útkrotuðum vegg kirkjunnar.