EVRÓPUDÓMSTÓLLINN í Lúxemborg komst á fimmtudag að þeirri niðurstöðu að ráðherraráðinu væri óheimilt að neita bresku dagblaði um aðgang að fundargerðum sínum. Var þetta talið vera mikilvægt prófmál og úrskurður dómsins áfellisdómur yfir þeirri miklu leynd er einkennt hefur starfsemi ráðherraráðsins.
Evrópudómstóllinn Ráðherraráðið má ekki halda fundargerðum leyndum

Brussel. Reuter.

EVRÓPUDÓMSTÓLLINN í Lúxemborg komst á fimmtudag að þeirri niðurstöðu að ráðherraráðinu væri óheimilt að neita bresku dagblaði um aðgang að fundargerðum sínum. Var þetta talið vera mikilvægt prófmál og úrskurður dómsins áfellisdómur yfir þeirri miklu leynd er einkennt hefur starfsemi ráðherraráðsins.

Það var blaðið The Guardian sem á sínum tíma kærði að blaðamanni þess, John Carvel, var meinað að fá afrit af fundargerðum funda landbúnaðar- og dómsmálaráðherra Evrópusambandsins auk fundargerða undirbúningsfunda.

Var þetta í fyrsta skipti sem á það reyndi fyrir dómstólnum hvort að ráðherraráðinu, sem er valdamesta löggjafarsamkunda Evrópusambandsins, væri skylt að fylgja þeim almennu reglum um opna umræðu og upplýsingaflæði og gilda varðandi þjóðþing aðildarríkja Evrópusambandsins.

Evrópuþingið fagnar

Carvel fagnaði mjög úrskurði dómstólsins og einnig lýstu stjórnvöld í Danmörku og Hollandi auk Evrópuþingsins yfir ánægju sinni með úrskurðinn. Evrópuþingið hefur stutt Carvel í baráttu hans til að auka upplýsingaskyldu ráðherraráðsins.

Carvel hafði sakað ráðherraráðið um að brjóta ESB-reglur frá 1993 um bætt aðgengi íbúa ESB að upplýsingum. Hann sagði ráðherraráðið leggja blátt bann við birtingu upplýsinga en því hefur ráðherraráðið hafnað.

"[Dómstóllinn] kemst að þeirri niðurstöðu að ráðherraráðið ljúgi. Þetta er mikilvægur sigur fyrir einstakling sem lagði til atlögu við jafnmikilvæga stofsnun og ráðið," sagði Carvel á blaðamannafundi.

Krefjast skýrari reglna

Aðrir þátttakendur á blaðamannafundinum sögðu að þetta myndi ýta undir kröfur um að á ríkjaráðstefnunni á næsta ári yrðu settar skýrar reglur um upplýsingaskyldu Evrópusambandsins.

Pauline Green, leiðtogi sósíalista á Evrópuþinginu, sem er stærsti þingflokkur þingsins, sagðist ætla að krefjast þess að ráðið gæfi út yfirlýsingu vegna úrskurðar dómsins er Evrópuþingið kæmi næst saman til fundar í Strassborg í næstu viku.

"Þetta er eina löggjafarsamkunda í hinum lýðræðislega heimi sem stundar þessi vinnubrögð," sagði Green.

BYGGING Evrópudómstólsins í Lúxemborg.