KJARADÓMUR hefur sent Davíð Oddssyni forsætisráðherra bréf þar sem skýrðar eru helstu forsendur fyrir úrskurði Kjaradóms um laun æðstu starfsmanna ríkisins. Forsætisráðherra segir ljóst af þessum upplýsingum að Kjaradómur hafi farið að lögum. Björn Grétar Sveinsson, formaður VMSÍ, segir upplýsingarnar engu breyta um þá ólgu sem sé á vinnumarkaðinum.
Kjaradómur hefur sent frá sér greinargerð um forsendur fyrir úrskurði sínum Slær ekki á ólguna

að mati formanns VMSÍ

KJARADÓMUR hefur sent Davíð Oddssyni forsætisráðherra bréf þar sem skýrðar eru helstu forsendur fyrir úrskurði Kjaradóms um laun æðstu starfsmanna ríkisins. Forsætisráðherra segir ljóst af þessum upplýsingum að Kjaradómur hafi farið að lögum. Björn Grétar Sveinsson, formaður VMSÍ, segir upplýsingarnar engu breyta um þá ólgu sem sé á vinnumarkaðinum.

Í yfirliti sem ritari Kjaradóms hefur tekið saman eru birtar upplýsingar um launahækkanir í einstökum samningum sem gerðir voru fyrr á þessu ári. Hækkanirnar eru á bilinu 7-20%. Jafnframt segir að launavísitala, sem sé traustasta heimildin um almenna launaþróun á hverjum tíma, hafi hækkað um 37,9% frá 1. mars 1989, en laun, sem úrskurðuð séu af Kjaradómi, hafi á sama tímabili hækkað um 35,2%. Ef miðað sé við tímabilið frá því ný lög um Kjaradóm tóku gildi, í ársbyrjun 1993, til dagsins í dag hafi þingfararkaup hækkað um 2,5% umfram launavísitölu.

Af bréfi formanns Kjaradóms má skilja að úrskurðurinn gildi út árið 1996 þannig að nýr úrskurður falli ekki þegar laun á almennum markaði hækka um næstu áramót.

"Þessi niðurstaða breytir engu varðandi þá ólgu sem risið hefur í þjóðfélaginu," sagði Björn Grétar Sveinsson, formaður Verkamannasambandsins. Hann sagðist ekki vera sáttur við allt sem stæði í greinargerð Kjaradóms, en sagðist ekki gera ráð fyrir að fá meiri upplýsingar frá dómnum.

Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ, sagði greinilegt á upplýsingum Kjaradóms að þeir efnameiri hefðu fengið ríkulegan hlut í efnahagsbatanum. Krafa verkalýðshreyfingarinnar stæði óhögguð um að þeir lægstlaunuðu fengju aukinn hlut í efnahagsbatanum.

Víglundur Þorsteinsson, varaformaður VSÍ, sagðist ekki sjá að í upplýsingum Kjaradóms kæmi fram neitt sem benti til að stílbrot hefði orðið á þeirri launajöfnunarstefnu sem mörkuð var í febrúar. Hann sagði að atvinnulífið hefði tekið á sig 11 milljarða í aukinn launakostnað með síðustu samningum og gæti ekki tekið á sig meiri kostnað.

Vonandi jákvætt/10BENEDIKT Davíðsson, forseti ASÍ, og Víglundur Þorsteinsson, varaformaður VSÍ, lesa bréf Kjaradóms í stjórnarráðinu í gær.