GUNNAR Rafn Sigurbjörnsson, segir það ekki rétt að sér hafi verið vikið úr starfi bæjarritara Hafnarfjarðar. "Það er samkomulag um að ég láti í góðum friði af starfi sem bæjarritari til að taka að mér önnur verkefni fyrir bæinn," sagði hann en Gunnar hefur gegnt starfi bæjarritara í rúm níu ár. Sérverkefni
Bæjarritari Hafnarfjarðar Lætur af störfum í góðum friði

GUNNAR Rafn Sigurbjörnsson, segir það ekki rétt að sér hafi verið vikið úr starfi bæjarritara Hafnarfjarðar. "Það er samkomulag um að ég láti í góðum friði af starfi sem bæjarritari til að taka að mér önnur verkefni fyrir bæinn," sagði hann en Gunnar hefur gegnt starfi bæjarritara í rúm níu ár.

Sérverkefni

Gunnar sagði að næsta hálfa árið, hugsanlega skemur, myndi hann sinna sérstökum verkefnum fyrir bæinn. Um væri að ræða verkefni, sem þyrfti að sinna en enginn hefði haft með höndum, auk annarra verkefna sem hann hefði haft með höndum.

"Þetta eru verkefni sem lúta að starfsmannamálum hér í Hafnarfirði," sagði hann. "Annað sérstakt verkefni er að undirbúa það að Hafnarfjörður verður reynslusveitarfélag. Þá verð ég að vinna við yfirtöku sveitarfélagsins á grunnskólunum á næsta ári. Þannig að þetta eru veigamikil verkefni sem þarf að sinna og ég er sáttur."

Nýtt starf eftir breytingar

Gunnar sagði að gert væri ráð fyrir að hann tæki við nýju starfi í kjölfar stjórnsýslubreytinga, sem unnið væri að hjá Hafnarfjarðarbæ. Hvaða starf það yrði nákvæmlega vissi enginn en í samkomulagi sem gert hefði verið milli hans og meirihluta bæjarstjórnar komi fram að nýja starfið yrði í efstu stigum stjórnsýslunnar.