LÍKAMINN er gerður fyrir hreyfingu og fjölbreytni. Hæfileg áreynsla og alhliða álag er okkur hollt, bæði í starfi og leik. Hefurðu leitt hugann að því hvort það álag sem þú verður fyrir daglega er heppilegt eða óheppilegt? Næstu fjóra laugardaga mun faghópur sjúkraþjálfara um vinnuvernd fjalla um hvernig koma má í veg fyrir eða draga úr hættu á óþægindum frá vöðvum
Sjúkra-

þjálfarinn

segir ...

Heilsusam-

legt starfs-

umhverfi

Er vinnustaðurinn hannaður með þínar þarfir í huga? Berglind Helgadóttir og Þórunn Sveinsdóttir úr faghópi sjúkraþjálfara um vinnuvernd skrifa um vinnuaðstöðu og ólíkar þarfir á vinnustað.

LÍKAMINN er gerður fyrir hreyf ingu og fjölbreytni. Hæfileg áreynsla og alhliða álag er okkur hollt, bæði í starfi og leik. Hefurðu leitt hugann að því hvort það álag sem þú verður fyrir daglega er heppilegt eða óheppilegt?

Næstu fjóra laugardaga mun faghópur sjúkraþjálfara um vinnuvernd fjalla um hvernig koma má í veg fyrir eða draga úr hættu á óþægindum frá vöðvum og liðum. Í dag verður fjallað um vinnustaðinn því ljóst er að vinnuaðstæður eru einn af mikilvægustu áhrifaþáttum í þróun álagseinkenna.

Vinnuaðstaða

Forsenda þess að hægt sé að beita líkamanum heppilega við vinnu er að vinnuaðstæður séu ákjósanlegar. Þetta þarf að hafa hugfast þegar skipuleggja á nýjan vinnustað eða breyta þeim sem fyrir er. Hefurðu leitt hugann að eigin vinnuaðstöðu?

Hönnunin þarf að fullnægja ákveðnum grundvallarskilyrðum. Rými þarf að vera nægilegt svo hægt sé að vinna í þægilegri stöðu og hreyfa sig óþvingað. Vinnurýmið þarf að vera það stórt að auðvelt sé að koma við notkun allra nauðsynlegra vinnutækja og búnaðar. Þeir hlutir sem notaðir eru mest við vinnuna þurfa að vera í seilingarfjarlægð svo ekki þurfi að teygja sig í sífellu eða vinda hrygginn.

Mismunandi líkamsbygging ­ ólíkar þarfir

Við hönnun vinnustaðar þarf að hafa í huga að við erum ólík og höfum mismunandi líkamsbyggingu. Því þarf að vera hægt að laga vinnuaðstöðuna að þörfum hvers og eins. Hæð og hönnun vinnuborða, véla og tækja verður að vera þannig að hægt sé að vinna með beint bak, slakar axlir og með handleggi sem næst bol. Ef margir skiptast á um að nota sömu vinnuaðstöðuna er nauðsynlegt að hægt sé að breyta vinnuhæðinni á auðveldan hátt. Á sama hátt þarf að vera hægt að velja handverkfæri t.d. hnífa, skæri, bora o.fl. miðað við handarstærð svipað og þegar kayptir eru hanskar.

Þegar vinnustóll er valinn þarf að taka mið af líkamsbyggingu notanda og því verki sem nota á stólinn við. Auðvelt þarf að vera að breyta stillingum vinnustóls meðan setið er í honum. Mikilvægt er að hægt sé að stilla stólbak, setu og hæð stóls. Þegar vinnuhæð er of mikil má oft ná réttri vinnustöðu með því að hækka stólinn og setja fótskemil undir fætur.

Hjálpartæki létta störfin

Þarftu oft að ná í hluti sem eru í mikilli hæð eða nálægt gólfi? Í slíkum tilvikum skal reyna að endurskipuleggja þannig að hlutirnir séu í þægilegri hæð, þ.e. á bilinu frá hnjám og upp í axlarhæð. Ef það reynist ekki hægt má nota hjálpartæki, t.d. lyftara. Notaðu hjólaborð eða vagna í stað þess að bera hluti langar vegalengdir. Gólfflötur þarf að vera sléttur til að auðvelda notkun hjálpartækja og forðast slys.

Vinnuskipulag

Er vinnan einhæf eða fjölbreytt? Rannsóknir síðustu ára, bæði hérlendis og erlendis, hafa leitt í ljós að þrátt fyrir að vandað sé til hönnunar vinnuaðstöðunnar getur vinnan valdið of miklu álagi ef hreyfingar eru síendurteknar (stutt vinnuferli) eða unnið lengi í sömu líkamsstöðu. Hætta á óþægindum eykst enn frekar ef um er að ræða starf sem einkennist af hraða, nákvæmni, streitu eða kraftbeitingu. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að hafa vinnutarnir stuttar. Best er að skipuleggja vinnuna þannig að hún gefi möguleika á að skipta reglulega um verkefni, sem fela í sér ólíkar kröfur, bæði líkamlega og andlega. Hafðu ávallt í huga að engin stelling er það góð að gott sé vera í henni óbreyttri til lengdar!

Samvinna stjórnenda, starfsmanna og hönnuða

Lögum samkvæmt skal atvinnurekandi tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi. Starfsfólk hefur einnig skyldur í þessu tilliti, en um þær verður nánar fjallað í næstu grein eftir viku. Ekki má gleyma því að þeim, sem hanna vinnuaðstöðu og vinnuskipulag, tæki, vélar, verkfæri, húsgögn og annan búnað, ber einnig skylda til að hafa vinnuvernd að leiðarljósi í hönnunarstarfinu. Bestur árangur næst ef samvinna þessara aðila hefst þegar á hönnunarstigi framkvæmda, því ódýrara er að gera breytingar á teikniborðinu en þegar hugmynd er langt á veg komin eða fullmótuð! Sama gildir þegar velja á vélar, tæki og annan búnað, hafa ber notandann með í ráðum og prófa áður en keypt er!

Vinnuvernd borgar sig

Á vinnustað þar sem vinnuaðstaða og vinnuskipulag er gott líður starfsmönnum vel. Það skilar sér í minni fjarvistum, betri afköstum og gæði framleiðslunnar eða þjónustunnar verða betri. Því spyrjum við hvernig er þessum málum háttað á þínum vinnustað? Er eitthvað sem betur má fara? Leggurðu eitthvað af mörkum?

Þórunn Sveinsdóttir starfar hjá Vinnueftirliti ríkisins. Berglind Helgadóttir starfar sjálfstætt við ráðgjöf um vinnuvernd.HVORT var hannað á undan ­ maðurinn eða vélin?

Þórunn Sveinsdóttir.

Berglind Helgadóttir.