CARL B. Hamilton prófessor, sem er fyrrum varaformaður sænsku Evrópuhreyfingarinnar, flytur erindi á aðalfundi Evrópusamtakanna, sem haldinn verður í Átthagasal Hótel Sögu í dag klukkan 13.30.
Aðalfundur Evrópusamtakanna Smæð Íslands

rök fyrir

ESB-aðild

CARL B. Hamilton pró fessor, sem er fyrrum varaformaður sænsku Evrópuhreyfingarinnar, flytur erindi á aðalfundi Evrópusamtakanna, sem haldinn verður í Átthagasal Hótel Sögu í dag klukkan 13.30.

Hver er ástæða hinnar miklu óánægju í Svíþjóð með aðildina að Evrópusambandinu, sem meðal annars kom greinilega í ljós í Evrópukosningunum í síðasta mánuði?

Það eru nokkrar ástæður fyrir henni. Í fyrsta lagi ber að nefna að þegar Svíar greiddu atkvæði um aðild var ein helsta röksemdin sú að það mætti ekki gerast að Svíar stæðu fyrir utan Evrópusamstarfið. Sú hætta er ekki lengur til staðar. Þegar menn velta fyrir sér ESB í dag er þetta mál ekki lengur á dagskrá og í staðinn koma önnur upp á yfirborðið.

Það ríkir mikil óánægja meðal fólksins með stöðu mála í landinu en sú staða hefur í raun lítið sem ekkert með Evrópusambandið að gera. Ríkisstjórn jafnaðarmanna, sem tók við í september í fyrra, gaf kjósendum mörg og fögur fyrirheit sem hún hefur hins vegar ekki getað staðið við. Almenningur er mjög vantrúaður á stjórnina og lýðskrumarar í Vinstriflokknum og Umhverfisflokknum, sem eru einnig á móti ESB, nýttu sér þessa óánægju í Evrópukosningunum.

Þá verður að nefna að Evrópuhreyfingin hætti störfum eftir að Svíar höfðu samþykkt aðild. Við vildum ekki fá danska stöðu í Svíþjóð með skipulögðum já og nei-hreyfingum og stöðugum þjóðaratkvæðagreiðslum um Evrópumál. Okkur var mikið í mun að hinir hefðbundnu flokkar tækju við Evrópuumræðunni en það hafa þeir ekki gert sem skyldi.

Í staðinn tókst andstæðingum Evrópusambandsins að snúa Evrópukosningunum upp í aðra þjóðaratkvæðagreiðslu með þeim mun þó að talsmenn ESB voru ekki lengur skipulagðir og tóku ekki þátt í kosningabaráttunni.

Jafnaðarmannaflokkurinn hefur átt mjög erfitt með að sameinast í Evrópumálum og móta skýra stefnu og nú ríkir að auki óvissa um hver verði formaður flokksins og forsætisráðherra á næsta ári. Er ekki hætta á að þetta dragi úr áhrifum Svía innan ESB, ekki síst á ríkjaráðstefnunni?

Það er töluverð hætta á því. Hingað til hefur sænska stjórnin fyrst og fremst varpað spurningum inn í umræðuna í stað þess að finna svör. Það er mjög mikil hætta á því að litið verði á Svíþjóð sem óáhugavert ríki er skipti ekki máli vegna þessa.

Stjórninni hefur ekki tekist að móta stefnu í einu helsta forgangsmáli okkar, það er að ná inn Eystrasaltsríkjunum. Það verður að finna svör varðandi t.d. landbúnaðarmálin. Við höfum heldur ekki fastmótaða stefnu í stofnanamálum og þegar kemur að öryggismálunum erum við ótrúlega viðkvæmir. Við verðum líklega síðasta ríkið sem gengur í Atlantshafsbandalagið á eftir Finnum og Pólverjum. Öryggismálaumræðan í Svíþjóð er í algjörri sjálfheldu.

Það sem okkur hefur tekist að gera ásamt hinum Norðurlöndunum er að styrkja fríverslunarhugmyndir innan ESB ekki síst gagnvart Austur-Evrópu. Við eigum mörg sóknarfæri innan Evrópusambandsins. Ef við eigum að nýta þau verður hins vegar stærsti og mikilvægasti flokkur Svíþjóðar að móta samheldna stefnu.

Hverjar telur þú líkurnar á íslenskri ESB-aðild vera?

Þegar Íslendingar ákveða að sækja um verða þeir aðilar að Evrópusambandinu. Auðvitað verður að leysa nokkur flókin deilumál en það hafa önnur ríki einnig orðið að gera. Ísland hefur mikla sérstöðu á ákveðnum sviðum en einmitt sú sérstaða ætti að auðvelda samninga. Þar sem að önnur ríki geta ekki bent á sömu sérstöðu, t.d. hvað varðar mikilvægi sjávarútvegs, geta þau ekki krafist sömu undanþága og Íslendingar myndu hugsanlega fá. Ég held að það verði því ekki mjög erfitt að leysa þessi mál.

Þá held ég einnig að það sé mikilvægt fyrir Íslendinga að fylgja ekki eftir Norðmönnum í einu og öllu því að hagsmunir Íslands og Noregs eru um margt ólíkir. Nei Norðmanna í þjóðaratkvæðagreiðslunni byggðist líka ekki bara á afstöðunni til ESB heldur einnig á flóknum innanríkisdeilum, t.d. milli Óslóar og annarra landshluta. Íslendingar eiga því ákveða afstöðu sína til ESB á eigin forsendum.

Smæð Íslands ætti einmitt að vera rök fyrir aðild því að með aðild gætu Íslendingar virkjað ESB í sína þágu á alþjóðavettvangi. Íslendingar myndu ekki breyta stefnu ESB í grundvallaratriðum en þeir gætu stöðvað tillögur er ganga þvert á hagsmuni Íslands og að sama skapi sett mál á dagskrá er varða hagsmuni landsins.

Carl Hamilton er doktor í hagfræði frá London School of Economics og er nú prófessor við Stokkhólmsháskóla og forstjóri Östekonomiska institutet. Hamilton sat á þingi fyrir þjóðarflokkinn 1991-1993 og var pólitískur ráðgjafi Ann Wibble fjármálaráðherra árið 1992-1993. Hamilton var varaformaður sænsku Evrópusamtakanna "Ja till Europa" á árunum 1990-1995.

Carl Hamilton

Íslendingar taki afstöðu til ESB á eigin forsendum