GREITT tímakaup í dagvinnu hjá landverkafólki innan ASÍ hækkaði um 3,5% frá 2. ársfjórðungi 1994 til 2. ársfjórðungs 1995. Á sama tímabili hækkaði vísitala neysluverðs um 1,3%. Kaupmáttur greidds tímakaups í dagvinnu jókst því um 2,2%. Þetta er meðal helstu niðurstaðna í kjarakönnun Kjararannsóknarnefndar.
Kjararannsóknarnefnd Greitt tímakaup hækkaði um 3,5%

GREITT tímakaup í dagvinnu hjá landverkafólki innan ASÍ hækkaði um 3,5% frá 2. ársfjórðungi 1994 til 2. ársfjórðungs 1995. Á sama tímabili hækkaði vísitala neysluverðs um 1,3%. Kaupmáttur greidds tímakaups í dagvinnu jókst því um 2,2%. Þetta er meðal helstu niðurstaðna í kjarakönnun Kjararannsóknarnefndar.

Samkvæmt úrtaki nefndarinnar hækkaði tímakaup lægst launuðu hópanna mest á tímabilinu. Greitt tímakaup verkafólks og afgreiðslukvenna hækkaði að meðaltali um 5,0-5,8%. Greitt tímakaup skrifstofukvenna, afgreiðslukarla og iðnaðarmanna hækkaði að meðaltali um 1,4-2,3% en tímakaup skrifstofukarla að meðaltali um 0,2%.

Mánaðartekjur landverkafólks innan ASÍ í fullu starfi hækkuðu um 4,7% frá 2. ársfjórðungi 1994 og kaupmáttur mánaðartekna um 3,4%. Mánaðarlaun hækkuðu í öllum hópum, þó mest hjá verkafólki og afgreiðslukonum.

Vinnuvikan lengdist lítillega á tímabilinu. Mestar breytingar urðu á vinnutíma verkakarla sem lengist um 0,8 stundir, fór úr 49,9 stundum í 50,7, og afgreiðslukvenna sem lengist um 0,4 stundir, fór úr 46,6 stundum í 47 stundir. Vinnutími annarra stétta breyttist lítið.