Á FYRSTA stjórnarfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, SH, í nýjum húsakynnum á Akureyri sem haldinn var í gær var samþykkt að taka Mecklenburger Hochseeficherei, MHF, dótturfyrirtæki Útgerðarfélags Akureyringa, sem fullgildan aðila að SH. Þetta er fyrsta erlenda félagið sem fær aðild að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Mikil búbót
Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna opnar skrifstofu á Akureyri Mecklenburger orðinn

fullgildur aðili að SH

Á FYRSTA stjórnarfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, SH, í nýjum húsakynnum á Akureyri sem haldinn var í gær var samþykkt að taka Mecklenburger Hochseeficherei, MHF, dótturfyrirtæki Útgerðarfélags Akureyringa, sem fullgildan aðila að SH. Þetta er fyrsta erlenda félagið sem fær aðild að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.

Mikil búbót

Friðrik Pálsson, framkvæmdastjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sagði að SH hefði selt afurðir Mecklenburger-togaranna frá því Útgerðarfélag Akureyringa keypti meirihluta í félaginu. "Það hefur verið mikil búbót fyrir okkur að selja þessar afurðir, þeir hafa verið mjög stórir í karfanum og framleiðsla þeirra verið mjög góð," sagði Friðrik.

Áður voru í gildi afurðasölusamningar milli SH og MHF en Friðrik sagði að mun hagkvæmara væri fyrir þýska félagið að vera fullgildur meðlimur í sölumiðstöðinni og njóta þar með allra bestu kjara sem félagsmönnum þess byðust.

"Það er vissulega söguleg stund að taka nú í fyrsta sinn inn erlent félag í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna," sagði Friðrik.Hasla sér völl á Akureyri

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna tók formlega í notkun nýja aðalskrifstofu sína á Akureyri í gær og kom þá m.a. fram í máli Jóns Ingvarssonar, formanns stjórnar SH, að mikið væri í tísku á Íslandi um þessar mundir að tala um landnám Íslendinga erlendis, einkum í sjávarútvegi. Í ljósi þess þætti ýmsum það skjóta skökku við að SH væri að hasla sér völl á Akureyri og víkka út starfsemi sína innanlands. Á aðalskrifstofu SH á Akureyri starfa um 30 manns, þá hafa á annan tug starfa skapast með samstarfssamningi SH og Akoplasts og á lager Eimskipafélagsins, en alls munu um 80 ný störf skapast á Akureyri með aukinni starfsemi SH í bænum.