Dýra-líf, geisladiskur hljómsveitarinnar "Lipstikk". Lipstikk skipa Ragnar Ingi trommuleikari, Anton Már gítarleikari, Árni gítarleikari, Bjarki Kaikumo söngvari og Sævar Þór bassaleikari. Páll Borg tók upp. Lipstikk gefur út í samvinnu við Spor hf. 53,39 mín. 1.999 kr.
Meira af því sama TÓNLIST Geisladiskur DÝRA-LÍF Dýra-líf, geisladiskur hljómsveitarinnar "Lipstikk". Lipstikk skipa Ragnar Ingi trommuleikari, Anton Már gítarleikari, Árni gítarleikari, Bjarki Kaikumo söngvari og Sævar Þór bassaleikari. Páll Borg tók upp. Lipstikk gefur út í samvinnu við Spor hf. 53,39 mín. 1.999 kr. LÍKLEGA er rokksveitin Lipstikk iðnasta hljómsveit landsins, enda hefur hún verið á svo að segja stanslausu tónleikaferðalagi undanfarin þrjú eða fjögur ár; rétt tekið hlé til að semja á breiðskífu og taka upp með reglulegu millibili. Í upphafi hét sveitin Lipstick Lovers og söng á ensku, en með tímanum hefur runnið upp fyrir liðsmönnum að íslenskan er þeirra mál, nafn sveitarinnar breyttist og hún tók að syngja á ensku. Aðal Lipstikk hefur verið einfalt og groddalegt rokk og á fyrri skífum sveitarinnar mátti heyra margt vel gert þeirrar gerðar. Svo er einnig með Dýra-líf og ekki er að merkja að íslenskan henti verr til rokkiðju en enskan. Þannig er fyrsta lagið, Þær koma, prýðilegur rokkari með tilvísunum í ýmsar áttir. Fleiri slíkir eru á plötunni, til að mynda er titillag plötunnar ágætt með prýðis texta. Textar eru þó ekki allir eins dægilegir; til að mynda er textinn við Næturdætur klastur, sem er synd því lagið er eitt það besta á plötunni. Annað lag sem ekki gengur vel upp er Saurlífi, sem er líka með þunnan texta. Eins og þeir vita sem séð hafa Lipstikk á sviði er Bjarki Kaikumo afbragðs sviðsmaður, en honum ferst ekki alltaf eins vel að syngja inn á band. Hann á það til að teygja sönglínur í sérkennilegar áttir, til að mynda fyrstu textalínu í Dýra-lífi, en kemst almennt vel frá sínu. Aðrir hljómsveitarmeðlimir standa sig með mikilli prýði, sérstaklega eru gítarar vel heppnaðir hjá þeim Anton Má og Árna. Helsti galli Dýra-lífs er að það virðist ekki mikið vera að gerast innan Lipstikk, segja má að platan sé meira af því sama. Reyndar kemur lagaþrenna um miðbik plötunnar, sem hljómar eins og sveitarmenn hafi ákveðið að prófa sitt af hverju, einskonar framúrstefnu Spilverk í Andvökum, bandarískt fönkrokk í Sírenum og popppönk í Brosandi fjölskyldunni. Það er þó ekki sannfærandi og hljómar frekar sem sýnishorn. Millikaflarnir þrír á plötunni, sem heita ekki neitt, eru prýðis hugmyndir, sérstaklega fyrsti kaflinn og sá þriðji, en annar kaflinn er hallærisleg kímni. Eftir áralangt hark og dugnað má segja að Lipstikk standi á vegamótum; hæfileikarnir eru til staðar og eljan, en spurning hvert eigi að stefna. Árni Matthíasson Morgunblaðið/Sverrir LIPSTIKK stendur á vegamótum.