BANDARÍSKA leikritaskáldið Arthur Miller hélt upp á 80 ára afmæli sitt á þriðjudag með því að gefa út nýja skáldsögu og greina frá nýju leikriti, sem hann hefði í smíðum. Miller er eitt helsta leikritaskáld þessarar aldar, þótt ef til vill þekki hann fleiri fyrir að hafa verið kvæntur Marilyn Monroe og barist gegn kommúnistaveiðum Josephs McCarthys í Bandaríkjunum,
Arthur Miller áttræður Fagnar með nýrri bók og boðar leikrit

Norwich. Reuter.

BANDARÍSKA leikritaskáldið Arthur Miller hélt upp á 80 ára afmæli sitt á þriðjudag með því að gefa út nýja skáldsögu og greina frá nýju leikriti, sem hann hefði í smíðum.

Miller er eitt helsta leikritaskáld þessarar aldar, þótt ef til vill þekki hann fleiri fyrir að hafa verið kvæntur Marilyn Monroe og barist gegn kommúnistaveiðum Josephs McCarthys í Bandaríkjunum, en að hafa skrifað "Sölumaður deyr" og "Horft af brúnni".

Skrifar meira nú

Skáldskapargyðjan virðist ekki hafa yfirgefið Miller og hann kveðst skrifa meira nú en hann gerði fyrir nokkrum árum. "Þetta er arður, sem ég átti ekki von á," sagði Miller á afmælisdeginum. "Að geta skrifað hvað sem mér sýnist og hafa minni áhyggjur en áður af því hvernig því er tekið."

Miller kaus að halda upp á afmælið í nýju leikhúsi, sem verið er að reisa í Norwich á Austur-Englandi. Við háskólann þar er sérstök deild kennd við Miller.

Miller lætur sér fátt um uppfærslur og leiksýningar á Broadway finnast um þessar mundir og hægri sveiflan í bandarískum stjórnmálum er honum lítt að skapi.

"Það er meira sýnt eftir Tennessee Williams í London, en í New York. Á síðasta ári voru aðeins tvö hefðbundin leikrit sýnd á Broadway. Allt hitt voru söngleikir. Há útgjöld hafa lamað New York [í leikhúsmálum]," sagði Miller.

Gagnrýnir Bandaríkjaþing

"Þetta er afturhaldsamasta Bandaríkjaþing, sem ég hef upplifað. En stjórnmál eru eins og stórt gerdeig, sem lyftist og fellur og hefur á sér endaskipti í sífellu. Eins og stendur er pólitíkin til hægri og það er ég ekki ánægður með."

Nýja skáldsagan hans, "Sú látlausa" (The Plain Girl), sem er aðeins 50 blaðsíður að lengd, hefur fengið misjafnar viðtökur, en hann lætur það ekki á sig fá: "Það væri hins vegar hræðilegt ef þeir segðu að hún væri of löng."

Miller kveðst ætla að ljúka nýju leikriti innan hálfs árs og segist enn hafa úthald til að vinna myrkranna á milli.

Nú er verið að kvikmynda eitt af vinsælustu leikritum hans, "Í deiglunni" (The Crucible), með Daniel Day- Lewis og Winonu Ryder í aðalhlutverkum. Verkið fjallar um nornaveiðarnar í Salem í Massachusetts, en er í raun ádeila á kommúnistaveiðar hinnar svokölluðu óamerísku nefndar Bandaríkjaþings á sjötta áratugnum.

Leikritið hefur selst í sjö milljónum eintaka í pappírskilju í Bandaríkjnum. Miller skrifaði kvimyndahandritið og segir að boðskapur þess sé enn í fullu gildi.

"Sjúkleg tortryggni færist jafnt og þétt í aukana í heiminum og leikritið fjallar um dulda ógn af því tagi," segir Miller.

Arthur Miller.