FJARÐARKAUP hf. hafa óskað eftir viðræðum við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði um að fyrirtækinu verði endurgreitt gatnagerðargjald vegna bílastæða og að fasteignagjöld áranna 1995 og 1996 verði felld niður. Kostnaður niðurgreiddur
Fjarðarkaup hf. vilja niðurfellingu fasteignagjalda

FJARÐARKAUP hf. hafa óskað eftir viðræðum við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði um að fyrirtækinu verði endurgreitt gatnagerðargjald vegna bílastæða og að fasteignagjöld áranna 1995 og 1996 verði felld niður.

Kostnaður niðurgreiddur

Í erindi til formanns bæjarráðs segir að af fréttum verði ekki annað séð en að Hafnarfjarðarbær ætli að greiða niður hluta byggingarkostnaðar Miðbæjar hf. vegna verslunarhúss, þar sem samkeppnisaðili hafi aðsetur. Meginmarkmið Fjarðarkaupa hf. hafi alltaf verið að halda niðri vöruverði og hafa eigendur því viljað halda í heiðri hugmyndum um jafna aðstöðu fyrirtækja, enda hafi verið keppt við mun stærri fyrirtæki sem hafi meðal annars notið fyrirgreiðslu Reykjavíkurborgar. Þrátt fyrir aðstöðumun hafi þeim tekist að halda velli.

Samkeppni niðurgreidd

Þá segir: "Nú sýnist okkur af fréttum að bæjarsjóður Hafnarfjarðar, sá sjóður sem þegið hefur aðstöðugjald rekstrar okkar, hlutdeild af almennum sköttum, og sá sjóður sem við höfum og fjölskyldur okkar og starfsfólk greitt skatta og skyldur til um árabil, ætli að niðurgreiða samkeppni við verslun okkar, með því að endurgreiða opinber gjöld vegna Miðbæjar hf."

Vegna þessa er farið fram á viðræður við bæjaryfirvöld þar sem rætt yrði um hvaða fyrirgreiðslu Hafnarfjarðarbær sé tilbúinn að veita Fjarðarkaupum hf. í framhaldi af aðgerðum vegna Miðbæjar hf.

Jafna aðstöðu

Í bókun Magnúsar Gunnarssonar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði, kemur fram að hlutverk bæjarfulltrúa sé að sjá til þess að bæjarbúar hafi jafna aðstöðu til atvinnurekstrar á öllum sviðum. Bréf forráðamanna Fjarðarkaupa lýsi eflaust þeim áhyggjum, sem fjöldi hafnfirskra atvinnurekenda hafi vegna afskipta meirihluta bæjarstjórnar af málefnum Miðbæjar Hafnarfjarðar hf.