HARÐUR árekstur varð nálægt Vogaafleggjara á Reykjanesbraut um kl. 20.30 á fimmtudagskvöld. Þar lentu saman fólksbíll, sem verið var að draga, og fólksbíll, sem kom úr gagnstæðri átt. Kalla þurfti til tækjabíl til að losa ökumann úr öðru flakinu. Ökumennirnir sluppu báðir lítið meiddir. Bíllinn, sem var dreginn, fór skyndilega yfir á rangan vegarhelming og nær út af veginum hinum megin.
Bíll í taumi olli slysi

á Reykjanesbraut

HARÐUR árekstur varð nálægt Vogaafleggjara á Reykjanesbraut um kl. 20.30 á fimmtudagskvöld. Þar lentu saman fólksbíll, sem verið var að draga, og fólksbíll, sem kom úr gagnstæðri átt. Kalla þurfti til tækjabíl til að losa ökumann úr öðru flakinu. Ökumennirnir sluppu báðir lítið meiddir.

Bíllinn, sem var dreginn, fór skyndilega yfir á rangan vegarhelming og nær út af veginum hinum megin. Lögreglan í Keflavík segir það hafa verið lán í óláni að hann fór þó svo langt, því hægra horn hans og hægra horn bílsins, sem kom á móti, skullu saman. Í hvorugum bílnum var farþegi og ökumenn sluppu nokkuð vel. Kona, sem ók á suðurleið, fékk skurð á vinstri fót og aðra augabrún, en bíll hennar var svo illa farinn að nota þurfti járnklippur til að ná henni úr flakinu. Karlmaður, ökumaður bílsins sem slysinu olli, skarst í munni.

Karlmaðurinn var fluttur á Sjúkrahús Suðurnesja til skoðunar, en ástand hans þótti annarlegt. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar var maðurinn mjög sljór. Ekki var af honum vínþefur og sagði lögreglan að ástand hans mætti hugsanlega rekja til veikinda eða lyfjatöku vegna þeirra. Það kæmi í ljós eftir að blóðprufa hefði verið rannsökuð.

Tveir bílar - eitt ökutæki

Ef taug er á milli bíla ber sá sem ekur dráttarbílnum alla ábyrgð á óhappi sem verður, enda er þá litið á bílana tvo sem eitt ökutæki, samkvæmt umferðarlögum.

Ingvar Sveinbjörnsson, lögmaður Vátryggingafélags Íslands, segir að stundum láti menn sem þeir dragi bíl sem þó sé ekið fyrir eigin vélarafli, þar sem hann sé e.t.v. númerslaus.

"Þegar menn gera þetta, þá ber sá aftari að sjálfsögðu alla ábyrgð sjálfur. Ef sá bíll er ekki vátryggður getur það leitt til eftirmála, en sameiginlegur sjóður tryggingafélaganna bætir öll slys af völdum óvátryggðra ökutækja. Ef stungið er af frá vettvangi fá menn ekki munatjón bætt, en slysatjón er bætt undir öllum kringumstæðum."