NÆSTLIÐIN misseri hafa komið upp öðru hvoru stórfréttir í fjölmiðlum af verslanakeðjum í ýmsum löndum, sem segjast tilbúnar að kaupa íslenskt dilkakjöt í stórum stíl, hundruð eða jafnvel þúsundir tonna. Síðan eru höfð viðtöl við þessa aðila eða fulltrúa þeirra. Allt með hefðbundum hætti. Þótt undarlegt megi virðast gleyma fréttamenn oftast að spyrja einnar grundvallarspurningar.
Hefjum sauðkind-

ina til vegs á ný

Hallgrími Sveinssyni:

NÆSTLIÐIN misseri hafa komið upp öðru hvoru stórfréttir í fjölmiðlum af verslanakeðjum í ýmsum löndum, sem segjast tilbúnar að kaupa íslenskt dilkakjöt í stórum stíl, hundruð eða jafnvel þúsundir tonna. Síðan eru höfð viðtöl við þessa aðila eða fulltrúa þeirra. Allt með hefðbundum hætti. Þótt undarlegt megi virðast gleyma fréttamenn oftast að spyrja einnar grundvallarspurningar. Hvað eru hinir erlendu kaupendur tilbúnir að greiða fyrir kílóið af vistvæna íslenska dilkakjötinu? Það sýnist til lítils barist fyrir sauðfjárbændur ef þeir verða svo til að gefa erlendu verlsnanakeðjunum framleiðsluna, eins og því miður eru fullar líkur á að verði með útflutt dilkakjöt á nýloknu verðlagsári. Teikn eru á lofti um að verðið nái ekki hundrað krónum til bóndans, pr. kíló að meðaltali, því miður. Auðvitað er það langtímamarkmið að selja vistvænt dilkakjöt frá Íslandi til Bandaríkjanna, Evrópubandalagslanda og annarra sem keypt geta. En Róm var ekki byggð á einni nóttu og það er gífurlega mikil vinna framundan hjá þeim sem vinna að þessum útflutningi, þó ekki komi annað til en þeir miklu innflutningsmúrar, sem mörg lönd hafa byggt í formi hreinlætiskrafna gagnvart innflutningi á dilkakjöti. Verðið er svo annar handleggur. Fréttamenn þurfa að hafa einurð til að spyrja hvað þessir ágætu erlendu kaupmenn eru tilbúnir að greiða fyrir íslenska dilkakjötið, sem þeir lofa og prísa sem vistvæna vöru. Ef það fylgir ekki með í umræðunni er hætt við að menn fyllist ótímabærri bjartsýni, sem því miður hefur borið alltof mikið á að undanförnu.

Ofur miðstýring

Eins og horfir í dag eru fullar líkur á að flestir sauðfjárbændur hér á landi verði fallnir fyrir ofurborð áður en útflutningur hefst á viðunandi verði fyrir framleiðslu þeirra. Þangað til verða þeir að búa við innanlandsmarkaðinn, hvað sem tautar og raular. Þeir eru dæmdir til að tapa þar áfram verði ekki breytt um stefnu. Aðrir kjötframleiðendur dansa í kring um þá og hlæja að þeim, vegna þeirrar ofurmiðstýringar, sem tíðkast í sauðfjárræktinni, en sauðfjárbændur fara með veggjum. Hvar ætli það þekkist annars staðar á byggðu bóli að ein grein landbúnaðar búi við fast verð, á meðan allt annað í þjóðfélaginu miðast við svokallaðan markaðsbúskap og þar með frjálst verðlag? Slíkt hlýtur að vera fáheyrt.

Í fljótu bragði virðist það vera lífsspursmál fyrir íslenska sauðfjárbændur að vinna aftur sem mest af þeim innanlandsmarkaði sem þeir hafa verið að tapa á undanförnum árum. Þeir verða að reyna að hefja sunnudagssteikina til vegs á ný hjá neytendum. Ekkert er betra en steikt lambalæri í ofni, að ekki sé nú talað um lærissneiðarnar. Vel matbúnar kótilettur eru alltaf veislumatur. Steiktur hryggur er lostæti. Vel matreidd kjötsúpa slær öllu við. Var einhver að tala um saltkjöt og baunir? Hakkað ærkjöt er eitthvert hollasta kjöt sem þekkist. Svona mætti lengi telja. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er fólk smám saman að venjast af að nota þessar vörutegundir af þeirri einföldu ástæðu að verðið er allt of hátt. Hinn almenni neytandi hefur ekki efni á að kaupa íslenska dilkakjötið. Svo einfalt er það. Ekki má gleyma þeim sem yngri eru, ef menn hafa ekki lag á að matreiða dilkakjötið svo þeim líki, þarf ekki að spyrja að leikslokum.

Frjálst verð

Hvað er þá til ráða? Gefa verðið frjálst og það án tafar og leyfa mönnum að framleiða eins mikið og þeir vilja á eigin ábyrgð. Vinna markaðinn aftur með verðlækkun til að byrja með. Þá verðlækkun getur enginn borið nema framleiðendur. Væntanlega ná þeir henni aftur með aukinni framleiðslu og betri nýtingu á framleiðslutækjum. Það er kominn tími til að þeir sauðfjárbændur sem ráða yfir jörð, húsakosti, vélum og bústofni fái að njóta sín og hætti að fara með veggjum.

Hvað verður þá um beingreiðslurnar (niðurgreiðslurnar) og allt það kerfi spyrja menn. Margir hafa bent á að þær þurfi að setja fastar í nokkur ár og afnema þær svo með öllu. Annaðhvort lifum við í frjálsu markaðsþjóðfélagi eða ekki. Leiðin til neytandans liggur í gegnum kaupmanninn. Sauðfjárbændur þurfa að semja við "erkióvininn" eins og Hagkaup og Bónus, svo dæmi sé nefnt. Hlutirnir gerast hjá kaupmönnunum, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Það er enginn sem hefur meira vit á sölu dilkakjöts en þeir og þeirra fólk. Og meðal annarra orða. Hvort ætli sé heppilegra fyrir sauðfjárbændur að lækka verð á dilkakjötinu innanlands og vinna þar með neytendur aftur á sitt band eða selja það erlendum verslunarkeðjum sem vistvæna framleiðslu fyrir slikk.

HALLGRÍMUR SVEINSSON,

Hrafnseyri.