Ásdís Guðmundsdóttir Í dag verður til grafar borin tengdamóðir mín Ásdís Guðmundsdóttir, Hásteinsvegi 36, Vestmannaeyjum. Hún andaðist 9. okt. sl., 82 ára gömul. Flestir þekkja hana, sem Ásdísi í Héðinshöfða, en það var húsið kallað sem hún bjó í ásamt eiginmanni sínum Gísla Gíslasyni. Ég kynntist Ásdísi 19. maí 1952, en þann dag trúlofaðist ég elstu dóttur hennar. Þessi mæta og merka kona afrekaði það að eignast 15 börn. Hún var mjög stolt af stóra barnahópnum sínum, enda voru þetta vænleg og myndarleg börn. Hún var ætíð glöð og kát og hafði yndislegt viðmót. Hún hafði ætíð nóg að gera við að annast þennan stóra barnahóp. Hún saumaði og prjónaði mestöll föt á börnin. Ekki nægði henni að ala eingöngu upp sín eigin börn. Hún ól að mestu upp dótturson sinn Gísla Ragnarsson. Barnabörn og barnabarnabörn Ásdísar eru orðin mörg, og voru þau mjög hænd að ömmu sinni. Það hefur ætíð verið margt um manninn í kringum hana um ævina, enda barngóð með afbrigðum. Ekki var ævi hennar alltaf dans á rósum. Hún missti fimm börn sín, þar af fjögur af slysförum. Eiginmanninn missti hún 24. desember 1972, eða rétt fyrir gos. Öllu því sem á Ásdísi hefur verið lagt í gegnum árin hefur hún ævinlega tekið með stakri ró. Hún bar harm sinn í hljóði. Ef einhver var að vorkenna henni sagði hún ævinlega, ætli einhver hafi það ekki verra en ég. Hún var í Eyjum þegar gosið hófst, og hafði það mikil áhrif á líf hennar, og náði hún aldrei fótfestu á fasta landinu. Þegar gosinu lauk fluttu þrjú af börnum hennar aftur í Héðinshöfða og fór Ásdís með þeim og var þar til æviloka. Ásdís var mjög nægjusöm og gerði aldrei miklar kröfur. Hún bjó í lítilli íbúð með börnin og kvartaði aldrei, tók öllu með jafnaðargeði, umbar alla. Tók öllum eins og þeir voru. Síðustu 9 árin í Héðinshöfða var hún hjá Halldóru dóttur sinni, ásamt Ásdísi dóttur Halldóru, og sambýlismanni hennar. Ásdís var augasteinn ömmu sinnar. Af þessum 9 árum var hún á sjúkrahúsi í eitt og hálft ár. Þar var henni vel hjúkrað. Börnin og barnabörnin söknuðu mömmu og ömmu sinnar, en þau heimsóttu hana daglega á sjúkrahúsið, og vöktu yfir henni síðustu sólarhringana sem hún lifði. Það má segja um þessa gæðakonu, að hvað sem hún sagði eða gerði, þá var það ætíð í vináttu, kærleika og sannleika.

Blessuð sé minning hennar.

Haukur Berg.