Ásdís Guðmundsdóttir Okkur langar í örfáum orðum að minnast móðurömmu okkar, ömmu Ásu í Héðó eins og við kölluðum hana alltaf.

Amma var sannkölluð kjarnorkukona. Það var sama hvað kom upp á í hennar lífi, ekkert gat haggað henni. Þó hafði hún upplifað meira mótlæti en flestir verða fyrir á lífsleiðinni. Hún missti eiginmann sinn og fimm af fimmtán börnum sínum og öll létust þau langt fyrir aldur fram. Þrátt fyrir þetta mótlæti heyrði maður hana aldrei vorkenna sér, enda var hún ekkert að flíka sínum innstu tilfinningum heldur hafði þær meira fyrir sjálfa sig.

Amma var afskaplega opin og skemmtileg kona. Hún var ekkert að liggja á skoðunum sínum og sagði umbúðalaust það sem henni fannst, fals og hræsni var ekki til hjá henni. Við vissum að hún meinti vel með þessu og oftast gat maður ekki annað en hlegið að þessari hreinskilni hennar. Hún hrósaði líka fólki óspart ef henni fannst ástæða til og aldrei heyrðum við hana tala illa um nokkurn mann.

Amma var mikil fjölskyldumanneskja og hún vildi fylgjast vel með öllum afkomendum sínum sem eru geysimargir. Hún naut sín best þegar hún var umvafin fólkinu sínu og þegar fjölskyldan kom saman, sem var ansi oft, var amma alltaf miðdepill athyglinnar. Þá sat hún í stólnum sínum við eldhúsborðið og var eins og drottning í ríki sínu.

Það var alltaf jafnnotalegt að sitja hjá ömmu í eldhúsinu í Héðó. Það voru margar góðar stundirnar sem við áttum með henni enda leið okkur alltaf vel í návist hennar og mikið var spjallað og hlegið. Stundum þegar við sátum með henni einni fór hún að rifja upp hvernig lífið var í gamla daga. Hún sagði frá því hvernig hún og afi kynntust í sveitinni og það var allt mjög rómantískt, hann bauð henni í útreiðartúr og upp frá því voru þau saman. Hún ljómaði öll þegar hún talaði um afa og sveitina sína og það var mjög skemmtilegt og fróðlegt að heyra hana lýsa þeim aðstæðum sem hún ólst upp við.

Við kvöddum þig, elsku amma, í ágúst síðastliðnum áður en við fórum til Reykjavíkur, með orðunum sjáumst síðar og við trúum því að nú séuð þið afi á góðum stað með börnunum ykkar og við hittumst þar öll síðar.

Takk fyrir allt, elsku amma okkar.

Sólrún og Ingólfur.